Ástkæra ylhýra málið

er mál málanna hjá mér þessa dagana þar sem ég er sem stigstjóri á miðstigi að undirbúa 45 mínútna dagskrá fyrir dag íslenskrar tungu sem er vanalega 16. nóvember (afmælisdag mömmu). Hann er hins vegar á sunnudegi núna svo dagskráin verður á fimmtudag. Við munum tala aðeins um skáldið sem á afmæli þann 16. og á heiðurinn af því að þessi dagur var valinn, Jónas Hallgrímsson. Hins vegar ætlum við að tala enn meira, leika og syngja um ljóð eftir Stein Steinarr. Hann hefði orðið 100 ára þann 13. okt. síðastliðinn.  Ég er búin að vera að undirbúa mig og lesa um hann og lesa yfir ljóðin hans. Mér finnst hann frábær og hefur alltaf fundist. Hann og Tómas Guðmundsson eru í miklu uppáhaldi þó fleiri séu góðir. Steinn kemur til Reykjavíkur 18 ára í algjöra fátækt og atvinnuleysi og yfirvofandi kreppu. Hann er með róttækar skoðanir á stöðu þeirra sem minna mega sín og yrkir frábær ljóð eins og þetta:

Svo var ég búin að gleyma því að þetta ljóð sem hann samdi er um barn hans sem hann kynntist aldrei og ólst upp úti á landi: Það vex eitt blóm fyrir vestan

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

og vornóttin mild og góð

kemur á ljósum klæðum

og kveður því vögguljóð.

 

Ég ann þessu eina blómi,

sem aldrei ég fékk að sjá.

Og þangað horfir minn hugur

í hljóðri og einmana þrá.

 

Og því geng ég fár og fölur

með framandi jörð við il.

Það vex eitt blóm fyrir vestan

og veit ekki, að ég er til.

Ég hef haldið fleiri en eina ræðu yfir afskiptalausum feðrum en það er nú önnur saga og þær náttúrulega jafn misjafnar og þær eru margar og ég ætla ekki út í þá sálma hér og út á þann hála ís.

Annars líður mér eins og ég hafi fengið stóra happdrættisvinninginn, því ég eignaðist frystikistu í gær.  Hún smellpassar bak við hurðina í þvottahúsinu eins og hún hafi alltaf verið þar Grin

Elsku amma og afi gáfu mér þennan dýrgrip og nú verður keypt í kistuna á tilboðum og ég þarf ekki lengur að eltast við eitt og eitt læri til Bryndísar systur með tilheyrandi veseni því hjá henni á ég kindaskrokk.  Jibbí.

Lítur út fyrir annasama og skemmtilega helgi framundan.  Göngutúr með Susanne vinkonu og Títusi á laugardag, boð til Brietar um kvöldið og svo gerum við familían nú örugglega eitthvað skemmtilegt saman í tilefni afmælisbarnsins þann 16. nóvember, ekki Jónasar heldur mömmu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband