Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Ljósadýrð

Glitrandi skrautið læðist út um glugga og þil þessa dagana og lífgar sannarlega upp skammdegið. Það er varla að birti að ráði yfir daginn lengur. Við settum ljós hjá okkur í tilefni af boðinu sl. föstudag en vorum óvenju snemma.
Maður hlýtur að fara að komast í jólagírinn. Mjúkar og seiðandi árlegar súkkulaðibitakökur með púðursykri og fullt af súkkulaði eru á teikniborðinu fyrir helgina mmmmm. Verst að maður er ekki fyrr búinn að baka þær en þær eru búnar. Við höfum bakað hellings mikið ég, Bryndís, mamma og stundum Rannveig af sitt hvorri sortinni og skiptum svo á milli. Þrælsniðugt. 4 sortir fyrir eina uppskrift.
Hitti eina vinkonu mína í dag af tilviljun og fékk þær fréttir að hún var að verða amma í 2. sinn í dag. Þá eru tvær vinkonur mínar orðnar tvöfaldar ömmur. Er maður að verða gamall eða hvað?
Við fitness drottningarnar í blakinu skelltum okkur út að borða eftir æfingu í gær og ónei, það var sko ekki farið á Grænan kost eða mann lifandi. Fórum á Ruby Tuesday og hólí mólí, amerísku risaskammtarnir hurfu á ótrúlegan hátt ofan í bumburnar á okkur. Þvílíkt og annað eins. Ekki skrítinn offituvandinn í U.S. of A.

Nú er komið frumvarp um að börn megi ekki vera í bleiku og bláu á fæðingardeildinni eftir kynjum. Ég segi nú bara halló, er ekki allt í lagi. Getum við konur ekki borið bleikan lit með stolti?? og svo alla aðra ef okkur sýnist. Svo þetta með leikföngin. Ég gæti tæmt herbergi sonar míns af leikföngum og bara skilið eftir bílamyndabílana úr cars og kubba. Því hann leikur sér ekki með annað og byggir bílskúra utan um bílana úr kubbunum. Þetta hefur staðið yfir frá því hann átti afmæli í september. Hann á dúkkur, bangsa, kerrur og alls kyns dót frá systrum sínum. Hann hefur engan áhuga, what so ever. Hins vegar held ég að stelpur hafi oft jafn gaman af því sem er framsett sem strákadót og þar má kannski höfða meira til þeirra. Ég t.d. gaf minni dóttur fjarstýrðan bíl í eina jólagjöf og talstöðvar í aðra.
Síðustu jól gaf ég henni þykka bók sem heitir Veröldin okkar og hún alsæl. Hins vegar gaf ég henni einu sinni Lundby dúkkuhús, hún snertir það ekki. En kynin eru samt ólík og er það ekki bara allt í lagi.
Samt er ég fyrir jafnrétti og finnst karlaherbergið í nýja Hagkaup með leikjatölvunum og fótboltanum út í hött. Þar finnst mér að okkur konum vegið. Mér finnst gaman að horfa á boltaleiki og hundleiðinlegt að versla. Þar ætti nú bara þá að skiptast jafnt á. Þú fórst síðast, nú má ég. Eða ætli konum sé meinaður aðgangur ????? Væri fróðlegt að vita. Já eða hafa líka konuherbergi, með öllum mögulegum sjónvarpsstöðvum og tímaritum. Eða bara kynlaust afþreyingarherbergi, alls ekki með bláu eða bleiku þema.

Frekar undarlegt verð ég að segja


Gleðskapir

Er það orð annars til í fleirtölu? Jimundur minn hvað ég var heppin með samstarfskonur á gamla vinnustaðnum mínum (þeim síðasta). Ég loksins bauð þeim í heimsókn á föstudagskvöld og þær komu hér færandi hendi og voru svo hrikalega sætar við mig. Æææææææðislegar.

M: sem reytti af sér brandarana eins og í færibandavinnu með háum bónus, að venju. Og var mjög fyndin, eins og alltaf. Hún er manneskja sem er ekki hægt að vera í vondu skapi nálægt.

E: ein sú mýksta og ljúfasta, nuddsérfræðingur og heimsmeistari í þolinmæði gagnvart börnum sem kunna fáar leiðir til að tjá sig (með orðum)

 J: hefur orðið þess heiðurs aðnjótandi að fara með spengilegum karlmanni sem við allar þekkjum í sturtu og á sætustu dúlluhundana.

K: mætti með 4ðu fegurðardísina í familíunni, pínulitla dúllu.

M: fædd 21. mars eins og hin M, en þessi hefur göldrótta hæfileika þegar kemur að eldhúsmálum og framleiðslu á gómsætum og ljúffengum kökum eða réttum.

A: Yndisleg stelpa, jafnsæt og mamma hennar sem er líka fædd 21. mars.

H: Nýliðinn í hópnum og fellur inn í hann eins og flís við ............... frábærar skvísur.

J: sér um að margar úr hópnum séu eins og klipptar út úr nýjasta tískublaði að ofan (á höfðinu).

Frábær hópur, sem á eftir að eiga góðar minningar um starfið okkar saman um ókomna tíð. Rannveig og Óðinn komu í heimsókn í gær og þeir frændur, fæddir með 2ja vikna millibili, sonur minn og hann léku sér saman. Litli Kláus og Stóri Kláus. Æ datt þetta bara í hug því það er mikill stærðarmunur á þeim, mínum í óhag. Svei mér, held þeir þurfi að hittast oftar. Þeir voru svo spenntir og glaðir að þeir ætluðu alveg hreint að springa. Svo bættist bróðir minn í hópinn og við snæddum saman um kvöldið áður en ég fór í afmæli. Í gærkvöld var svo tvöfalt fertugsafmæli hjá vinafólki mínu, Birni Þór og Ásu. Hún er matgæðingur mikill og hafði töfrað fram dýrindis rétti heima í fallega húsinu þeirra. Skemmtilegt teiti, gítarspil, söngur, spjall og afslappað andrúmsloft. Í dag sunnudag er bara einbeitt markmið að sinna börnunum mínum. Búin að vera í pössun bæði kvöldin. Man ekki eftir að það hafi gerst áður í þeirra lífi. Ekki gist að heiman tvö kvöld í röð (þ.e. mínar helgar). Mömmuhjartanu finnst það svolítið mikið. Þau eiga mig í dag. Ætlum að kíkja í heimsókn til Írisar á Grettisgötuna, þar sem hún er að passa hús. En ég fékk Írisi í kaupbæti þegar ég tók saman við pabba hennar fyrir margt löngu og er búin að eigna mér hlut í henni eins og aðrir kaupa sér hlut í hrossum. Íris ætti að skilja þessa samlíkingu. Myndi ekki skipta á henni þó mér væri boðinn hlutur í Orra frá Þúfu. Ja, eða bara hverju sem er. Ég hafði haldið mikla ræðu yfir pabba hennar eftir kúrs í Kennó um hlutverk feðra í barnauppeldi. Við vorum nýbúin að kynnast. Mín var búin að halda mikla skammarræðu um óábyrga feður og fleira því tengdu. Finnst svoleiðis alltaf jafn skrítið nefnilega. Hafði ekki verið frædd um tilvist Írisar Fríðu enn. Svo klykkti ég út með orðunum. Átt þú kannski tíu (börn)? Sagt í djóki. Þá fékk ég mjóróma svar. Neeeei, bara eitt og þetta var eitt af þeim skiptum þegar andlitið datt af mér. Svo fyndið í minningunni og beint þýtt úr ensku: bara mín heppni (just my luck).


Óvissuferð og leiklistarstúss

nemenda minna í fyrramálið sem hafa staðið sig vel í mætingu og ástundun, verður í leikhús. Við erum að fara að sjá söngleikinn Gretti í Borgarleikhúsinu. Frábært hjá þeim, förum öll í bekknum og rúmlega 400 nemendur frá skólanum (efri bekkir) 3ja leikhúsferðin mín á skömmum tíma. Ég elska leikhús. Mamma er líka búin að lofa börnunum mínum (ég fæ að koma með :) ) í jólagjöf leikhúsmiða á Skilaboðaskjóðuna sem er frábært leikrit. Lögin eru svo skemmtileg og fjörug. Við höfum hlustað á spóluna margoft á ferðalögum, þegar við bjuggum fyrir vestan.
Svo börnin mín, allt upp í tæplega 17 ætla með í nostalgíuferð í leikhús og mikil tilhlökkun.
Mæli eindregið með þessari sýningu fyrir unga sem eldri.

Rannveig Vestmannaeyjapæja og mágkona mín með meiru átti afmæli í gær ;). Sæta mín, núverandi ástand fer henni svo vel, en það er tímabundið ástand, stendur fram í febrúar. Bara njóta þess og ég hlakka til að vera enn og aftur stóra frænka. Það að hún sé sæt er hins vegar alls ekki tímabundið ástand heldur augljós sannleikur alla daga.

Saumaklúbbur hjá mér í kvöld, mikið skrafað og minna saumað. Mikið borðað og minna .......... verið í megrun.

Við bekkurinn minn byrjuðum að æfa leikrit í morgun, sem ég sjálf skrifaði handritið að og datt niður á snilldarhugmynd (að mínu mati) til að allir fengju hlutverk. Það er stutt jólaleikrit sem gerist í Grýluhelli. Innihaldið leyndarmál þar til síðar, þar sem einhverjir gestir gætu villst hér inn. Krakkarnir eru svo spenntir og ánægðir. Þetta verður rosalega gaman og fjörugt.

Á morgun er á döfinni skautaferð hjá bekknum hennar Berglindar. Draga fram skautana og sýna gömlu taktana frá því á tjörninni og Melavellinum í gamla daga. Rosalega væri gaman að fara einhvern tíma aftur á skauta á tjörninni. Kannski maður geri það í vetur fyrst maður er fluttur doltið nær. Eða er hætt að frysta á Íslandi nógu mikið yfir veturinn?

Best að fara að skríða upp í. Svaf illa í nótt, þar sem Berglind Eva mín er enn með svo leiðinlegan hósta.
Samt búin að fara í vinnu, búa til gúmmulaði, fara í blak og taka á móti gestum. Ætli ég verði bara sofandi á Gretti í fyrramálið.

Vona ekki

zzzzzzzzzzzzzzzzzzzz


Siðferðiskennd banka

Hvar er hún eiginlega. Hvernig má það vera að það sé ekki hægt lengur að yfirtaka hagstæð lán. Er þetta hreinlega löglegt, ja alla vega siðlaust. Hvers lags innkoma er þetta á markaðinn að koma inn undir fölsku flaggi, bjóðandi góð lán og hagstæð kjör. Íbúðaverð rýkur upp, er mun hærra en það var fyrir nokkrum árum. Samt hækka þeir vexti, þó þeir séu að fá mun meira í sinn hlut þar sem íbúðaverð er hærra. Er ekki kominn tími á hávær mótmæli? Af hverju látum við þetta yfir okkur ganga. Börnin okkar og þeirra framtíð eru í húfi. Ég lýsi eftir skeleggum einstaklingi til að standa fyrir stórum mótmælum, ég kem.

Við systir mín stormuðum um allan bæ á laugardag að skoða það sem í boði er af baðherbergjagóssi. Urðum margs vísari og ég er búin að kaupa ný blöndunartæki fyrir bað og vask og komin með nokkuð góða hugmynd um hvar ég vil kaupa rest.
Svo hittumst við Lilla vinkona mín á kaffihúsinu í Smáralind. Sátum þar og reyndum að kjafta saman m.a. undir söng Geirs Ólafssonar. Það var einhver leikjasýning í gangi þarna og fyrir minn smekk finnst mér ekki notalegt að sitja á kaffihúsi og reyna að spjalla undir svona miklum hávaða eins og barst frá Vetrargarðinum. Samt skiptir félagsskapurinn meginmáli, en kannski annað staðarval næst.
Það bættist ennfremur í dagskrá helgarinnar. Hann faðir minn bauð mér ásamt ömmu og afa að sjá með þeim bíómynd um Edith Piaf, franska söngfuglinn, í Regnboganum. 2ja og hálfs tíma bíómynd (ekkert hlé) og maður naut hverrar mínútu. Frábær frönsk mynd um einstaka ,,litla" konu með ,,stóra" rödd. Sú fékk sérstakt uppeldi svo vægt sé til orða tekið og sinn skammt af sorg og erfiðleikum þó farsæl söngkona væri.
Þaðan rauk ég beint svo í leikhúsið að sjá skrifstofufarsann í norræna húsinu hjá Stúdentaleikhúsinu með mömmu, Bryndísi og Írisi. Það mátti alveg brosa út í annað þar.
Við Þróttarakonur unnum leikinn okkar við HK 3-1 í gær. Erum efstar í 2. deildinni. Svo gaman og ég fékk fullt að spila. Sjálfstraustið að komast í lag en ég fékk ekki orðið að spila mína stöðu í Mosó. Svo er mér treyst til þess hjá Þrótti í sterkara liði eftir að hafa verið svelt lengi og ekki fengið þá æfingu sem ég hefði kosið. Rosalega er það uppbyggilegt fyrir sálina. Mikil gleði og mikið gaman, því ég virkilega elska að fá að spila gott blak. Svakalega góður andi og samheldni í liðinu.
Svo fékk ég heimsókn mjög kærrar vinkonu minnar og dóttur hennar og dóttursonar á sunnudaginn hingað heim í Háagerði. Hún Hjödda kíkti í heimsókn með afkomendur sína og færði mér fínasta tesett í búið. Við áttum mjög góða stund saman gömlu en samt síungu vinkonurnar, búnar að vera vinkonur lengur en elstu menn muna.
Dæmið snerist svo við hjá okkur Önnu vinkonu. Í stað þess að hún kæmi hingað fór ég yfir til þeirra og var boðin í mat, fínasta kjúkling og svo fórum við í göngu um Fossvogsdalinn í gærkvöldi.
Þetta er sem sagt búin að vera annasöm en jafnframt mjög skemmtileg helgi.
Berglind Eva mín er orðin lasin með hálsbólgu og hita og við sitjum hér heima í dag. Ég spurði soninn þegar hann vaknaði hvort hann vildi fara í Vinagerði. Svarið hans var: Nei, ég er með gubbupest (hreinasti uppspuni) og mikinn hósta. Svo hóstaði hann af sannfæringarkrafti :) Maður kann að bjarga sér og fá sínu fram.

Adíós


Margfaldur afmælisdagur og eftirminnileg hestaferð

móður minnar, Jónasar nokkurs Hallgrímssonar, Jóns Sveinssonar og tímaritsins Eiðfaxa (30 ára)
Einnig Dagur hinnar ylhýru íslensku tungu sem var náttúrulega haldinn hátíðlegur í skólum landsins í dag.
Við fórum að sjá fákasýningu í Smáralind seinni partinn í dag. Alveg var ég hissa hvað þessir glæstu fákar sem þarna voru tóku ljósamergðinni, barnaskara og hávaða með stóískri ró. Þetta var sem sagt í tilefni 30 ára afmælis áðurnefnds tímarits.
Ég átti fagran fák í ein 20 ár. Nokkur ár síðan Skugginn minn féll frá. Þetta var rosalega skemmtileg íþrótt en það kom upp ofnæmi í familíunni og bara svo mikið að gera með börn og bú að það var ákveðið að gefa hestamennskunni hlé, en hvur veit hvort einhvern tíma berist maður aftur á fáki fráum fram um veg. Svona í ellinni, eða þannig????? Mín elskuleg systir og stjúpdóttir leyfa mér stundum að fá smá útrás og bjóða mér í reiðtúr.
Ég má til með að segja ykkur frá mjög skemmtilegri hestaferð sem ég hef stundum hugsað með mér að væri efni í barnabók, en kannski of mikil gamaldags sveitarómantík og ekki næg vandamál á kvarða nútímabóka :)
Við Skuggi áttum þá heima í Þingeyri city (in the west) og við ákváðum, eða ég kannski frekar, að skella okkur í útreiðartúr. Ég hafði ávallt riðið sömu leið og spurði Sigþór sem var þarna í hesthúsi með mér hvort hann vissi einhverja góða leið handa mér, svona til að breyta til. Hann benti mér á eina góða og við Skuggi héldum af stað glöð og sæl í félagsskap hvors annars. Við höfðum riðið dágóða stund þegar ég tók ranga beygju, vissi það náttúrulega ekki þá, ekki fyrr en ég kom að dead end, hefði sem sagt þurft að ríða talsverða leið til baka ef ég kæmist ekki með nokkru móti þarna áfram. Nú voru góð ráð dýr. Ég velti vöngum og leit í kringum mig. Framan við mig blasti við löng gaddavírsgirðing en svo kom ég auga á skurð, sem var ekki svo djúpur þarna nálægt og hugsaði með mér að þarna gæti ég dregið hestinn yfir með mér. Fór af baki, teymdi hestinn oní skurðinn, nema þá var hann aðeins dýpri en hann hafði virst og það flæddi yfir stígvélin mín og ég varð gegnblaut. Svo festist grey hesturinn í einhverju rusli þarna ofan í skurðinum og tók smá tíma að losa hann. Þegar við dauðfegin héldum áfram ferð okkar en höfðum ekki riðið lengi lentum við í fiðraðri árás af himnum ofan í formi bandbrjálaðra kría. Ég hélt písknum hátt á loft til að reyna að halda þeim frá okkur. Ekki æskilegur félagsskapur að mínu mati. Að smá tíma liðnum höfðum við yfirgefið verndarsvæði kríanna og riðum enn sæl í sinni áfram veginn. Skömmu síðar varð á vegi okkar Skugga lamb. Sýnilega eitthvað laskað, jafnvel fótbrotið. Lögðum við því lykkju á leið okkar á nálægan bæ til að láta vita af litla sjúklingnum. Héldum við nú að okkar vandræðum í þessum ágæta reiðtúr væri lokið. Það reyndist þó ekki vera því innan tíðar varð mér litið efst í brekku sem var framundan. Þá sá ég einhverja þúst á veginum sem ég var ekki viss um hvað var (ekki með brillurnar) þegar við Skuggi nálgumst á fullri ferð. Svo gaman að gefa aðeins í upp brekkur og fara á létt stökk. Valsar þá ekki bara heil gæsafjölskylda af stað og blessuðum hestinum mínum var nóg boðið. Honum krossbrá, hann stökk til hliðar og skildi knapann sinn (þ.e. mig) eftir í loftinu. Knapinn sem farið var að finnast þetta einum of skrönglaðist aftur á bak og gekk ferðin áfallalaust á áfangastað, þó ekki væri nú allt búið. Hnakkurinn var tekinn af fáknum og ég var að bera hann inn í hús. Verður mér ekki á að stíga á gjörðina og endasendist eftir allri heimreiðinni. Af einhverjum ástæðum varð gamla leiðin fyrir valinu eftir þetta og við Skuggi töltum og brokkuðum okkar veg út að Haukadal og þar áfram. Better be on the safe side.

Fór í heitan pott í gærkvöld með Önnu. Mikið skrafað og hlegið að okkar von og vísu. Svo endurnærandi að það er ótrúlegt.
Í dag eftir hestasýninguna fórum við saman á Fridays, afmælis,,barnið" hún mamma sem grínaðist með að brátt fengi hún bréf með tilboði í Félag eldri borgara en vinkona hennar er víst búin að fá svoleiðis. Við systur snæddum með henni til að fagna deginum ásamt börnum og honum Agli.

Á morgun ætla ég að versla ný hreinlætistæki, vonandi henda þeim gömlu út. Hitta Lillu vinkonu mína smá á kaffihúsi. Annað kvöld ætlum við saman í leikhús, ég, Bryndís systir, mamma og Íris Fríða. Við ætlum að sjá leikritið sem Stúdentaleikhúsið er með þetta árið. Skrifstofufarsi eftir Hlín Agnarsdóttur sem fær rosalega góða dóma. Það verður gaman. Svo fer ég að keppa í blaki á sunnudagsmorgun við HK og Anna ætlar að kíkja í heimsókn eftir það. Hún ætlar að sauma kjól á dóttur sína hérna hjá mér og við getum spjallað yfir saumaskapnum hennar og tiltektinni minni/baðframkvæmdum. Það eru tvö stelputeiti á dagskránni í næstu viku og ég ætla að reyna að gera huggulegra hérna hjá mér.

Megi stormarnir sem eiga að geysa um helgina blása ykkur í brjóst krafti og svo er náttúrulega ekkert betra en að kúra þegar vindarnir gnauða á gluggunum.

farvel hestar og menn


Sönghæfileikar af Guðs náð

Ég fer ekki ofan af því að Whitney Houston er barasta ein besta söngkona sem þessi heimur hefur alið. Ég sat úti í bíl þegar ég var að koma heim úr vinnunni í dag og var stopp fyrir utan heima hjá mér. Þá kom lagið Didn't we always have it all, ég hækkaði í botn og ég sver það, ég fór í trans! Rosalega er hún góð og Bobby Brown einn af mestu skaðvöldum 20. og 21. aldarinnar, kannski fyrir utan George gamla Bush. Ef einhver á eftir að kaupa jólagjöf handa mér, þá á ég gamla diskinn með henni bara á kassettu síðan í gamla daga.

Gullkornin geta hrotið af vörum manna fram eftir öllum aldri. Alveg eins og þegar ég sagði: Nei, þarna koma dvergar í stórum stíl (komu út úr rútu í bíómynd) og ég sagði þetta án þess að fatta fyrr en eftir á hvað ég var að segja. Var orðin rúmlega tvítug þarna og líka þegar ég var að segja voða dramatíska sögu og sagði. Svo keyrðu þau burt eins og fætur toguðu.

Dóttir mín 9 ára var nefnilega að rifja upp í dag, þegar við fórum í Toys'r'us í Danmörku sl. sumar. Æ manstu, þarna á Stönginni (Hún meinti Strikinu).

Við vorum í rúmlega tveggja vikna fríi í Danmörku í sumar í sumarhúsi í vægast sagt köflóttu veðri. Eina nóttina geysaði stormur og risatré rifnuðu upp með rótum. Eitt þeirra féll niður rétt við bílaleigubílinn okkar. Hér heima var bongóblíða allan tímann. Það komu þó góðir dagar inn á milli í Danmörkinni sem voru vel nýttir.
Þarsíðasta sumar var ég í Flórens og hefði betur tekið með mér regnhlíf. Æðisleg borg sem var búin að vera draumaborgin mín alveg síðan ég lærði listasögu í menntaskóla. Maður var ekki svikinn af Uffizi safninu og Venusi. Davíð stóð keikur um alla borg þó veðrið hafi hvorugu okkar verið hliðhollt. Næsta sumar stendur bara til að vera heima á Ísalandi og njóta þess sem fallega landið okkar hefur upp á að bjóða. Ætli næsta sumar verði rigningasumar????

Að lokum: Vitið þið um einhverja erlenda söngkonu sem slær Whitney Houston við. Ég lít náttúrulega svo á að þögn sé sama og samþykki :)


Hundalíf

Þar sem ég er umkringd hundavinum og hef verið vinsæl hundapössunarpía í gegnum árin.
Þetta eru sem sagt stærsti og minnsti hundur í heimi:

http://frisk.blog.is/users/23/frisk/img/gibsonpa_468x460.jpg

Frekar finnst mér sveitungi minn til síðustu 10 ára sniðgenginn á þessari Edduverðlaunahátíð, þ.e. Guðný nokkur Halldórsdóttir og myndin Veðramót. Mér fannst myndin eiga skilið að vera verðlaunuð og aðalleikonan sýna alveg ótrúlega takta. Verð þó að viðurkenna að ég hef ekki séð myndina foreldra en nú er deginum ljósara að maður verður að sjá hana. Í fyrra fannst mér þau einmitt mjög sniðgengin Vesturportshópurinn með Börn sem mér fannst miklu betri en Mýrin. En ég er nú enginn sérfræðingur!!

Hálf lúin, sonurinn hóstandi í alla nótt en samt mætti ég í vinnu.

Kveð að sinni


Þjóðþrifamál

Ja svei mér þá. Það er tekið mark á rödd litla mannsins í þessu landi. Arnar Máni veiktist hastarlega í sumar, nánar tiltekið 30.ágúst. Hann fór allt í einu að hósta nýsofnaður svo svakalega að hann vaknaði upp og mjög fljótlega átti hann orðið erfitt með andardrátt. Móðurinni var að vonum brugðið. Ég hringi í föður hans og segist ætla að bruna með hann á bráðamóttöku barna. Ég fer að aðalinnganginum og kem að læstri hurð, s.s. lokað eftir klukkan 12 á miðnætti en klukkan var um eitt. Pabbi hans mætir á svæðið. Við fengum einhverjar leiðbeiningar þegar við hringdum í 112 að koma inn að neðanverðu, Eiríksgötumegin. Ég viðurkenni fáfræði mína í því hvernig götur liggja í kringum spítalann enda Breiðhyltingur. Hljóp niður fyrir barnaspítalann. Allt harðlæst og lokað. Á endanum hafði maðurinn hjá 112 samband við vaktmann sem kom og opnaði fyrir okkur. Barnið var farið að skjálfa af kulda, en honum var samt farið að líða betur, enda loksins þegar við komum inn var hann greindur með barkabólgu sem lagast úti í köldu lofti. Þannig að þetta var heppilegasta veikin til að vera á hlaupunum ráðvilltur með veikt barn að næturlagi. Við vorum hins vegar mjög sjokkeruð á þessu fyrirkomulagi spítalans. Ekkert kort af svæðinu sem leiðbeinir manni og illa tilgreint hvert átti að leita. Pabbi hans skrifaði landlækni póst um að þetta fyrirkomulag væri óásættanlegt og bjóst svo sem ekki við neinu svari þar um. Í dag barst honum mjög formlegt bréf undirritað af háum herrum á Landspítalanum þar sem greint er frá aðgerðum til að bæta úr þessu. Með því að hafa útihurðina opna inn að millihurð. Þar á að setja bæði neyðarhnapp og myndavél og lokaorðin að með þessu sé vonast til að þessar breytingar verði til þess að auka öryggi sjúklinga á barnaspítalanum. Frábært .

Dagurinn hefur líka verið alveg einstaklega frábær. Hingað boðuðu sig þrjár konur í dag sem ekki hafa áður kíkt á nýja húsið mitt, svo ég hef haft nóg að gera í gestgjafahlutverkinu sem mér finnst reyndar alltaf skemmtilegt. Kjúklingasalatið í Ninnu heimsókn var rosa ljúffengt en ekki get ég hreykt mér af miklum trakteringum fyrir seinni gestina mína frá eigin hendi en ég hafði góða ástæðu til að heimsækja MOSFELLSBAKARÍ sem naut góðs af gestkvæmni minni í dag. Alveg æðislegt bakarí og sérstaklega kringlótta kryddbrauðið (sem var uppselt) og hvítlauksbrauðið.
Hún Susanne mín blak, hunda- og göngutúra vinkona sem passaði hundinn minn meðan ég var heimilislaus í sumar kíkti í heimsókn og augljóslega hefur hann Sómi haft það alveg rosalega gott hjá henni því hann vældi af gleði og var við það að tapa sér af fögnuði. Það besta var að hann gáði í kringum sig þegar hún kom að leita að Títusi vini sínum sem var þó ekki með henni. Hundar hafa sem sagt ágætis minni. Seinni partinn kom svo Ása vinkona mín með yngri börnin sín tvö í heimsókn.
Alltaf þarf ég að leiðbeina fólki ansi mikið með að rata hingað. Greinilegt að þó ég sé miðsvæðis eru ekki margir sem þekkja innvolsið í öllum þessum Gerðum.
Ég er svo þakklát fyrir vini mína sem eru duglegir að rækta vinskapinn. Góðir vinir eru betri en nokkuð ríkidæmi (fiðlutónlist)
Svo eru aðrir sem maður heyrir sjaldan í, mikið annríki hjá öllum, en það er einhver óslítanleg taug og fallegar hugsanir til viðkomandi. Maður hittist ekki oft en það er eins og maður hafi hist síðast í gær.

Það er bók sem er ein af mínum uppáhalds og ég hef meira að segja prangað upp á sumar vinkonur mínar. Þar eru pælingar um alla mögulega hluti, börn, foreldra, sorg, vináttu, bara allan pakkann. í Spámanninum eftir Kahlil Gibram segir um vináttuna:

"Vinur þinn er þér allt...

...Þegar vinur þinn talar, þá andmælir þú honum óttalaust eða ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvor annan. Því að í þögulli vináttu ykkar verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir ykkar til, og þeirra er notið í gleði, sem krefst einskis.

Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni.

Og láttu vináttuna ekki eiga sér neinn tilgang annan en að auðga anda þinn, því að sú vinátta, sem leitar einhvers annars en síns eigin leyndardóms, er ekki vinátta, heldur net, sem kastað er í vatn og veiddir í tómir undirmálsfiskar.

Og gefðu vini þínum það, sem þú átt best.
Ef hann verður að þekkja fátækt þína, lát hann þá einnig kynnst auðlegð þinni.

Því skyldir þú leita vinar þíns aðeins til að drepa tímann?

Leitaðu hans með áhugamál þín.

Því að það er hans að uppfylla þörf þína, en ekki tómleika þinn.

Og vertu glaður með vini þínum og njóttu með honum lífsins.

Því að í dögg lítilla hluta finnur sálin morgun sinn og endurnærist."

Á morgun er vinna á planinu. Þarf að fara niður í skóla að sýsla ýmislegt. Á eftir ætlum við Anna Lilja, ein af perlunum mínum að stinga okkur í sund og ræða lífsins gagn og nauðsynjar með fallegu litlu pjakkana með okkur (hörpusláttur)

Æ maður er eitthvað svo sentimental suma daga :)


Girls night in

Það verður svaka sleepover stemming í Háagerði 57 annað kvöld. Elsku vinkona mín hún Ninna kemur í heimsókn. Hef ekki séð hana síðan í skíðaferð vestur á firði um þarsíðustu páska svo það verða fagnaðarfundir. Svo ætlar Helga vinkona hennar Berglindar líka að gista hjá okkur annað kvöld. Stuð og huggulegheit. Hlakka mikið til.
Ég ætla að búa til alveg æðislegt kjúklingasalat handa okkur sem ég lærði hjá henni Maríu samstarfskonu minni úr Öskjuhlíðarskóla en þar er mesti meistarakokkur og bakari á ferð sem ég hef hitt og hefur báða hæfileikana á háu stigi, oft hefur fólk annað hvort.
Kjúklingur í strimlum (látinn liggja í sérstökum legi í 2-3 tíma)
Kálblanda
Gúrka
Rauðlaukur
Sveppir
Maís
Fetaostur
Rauð paprika
Ristaðar furuhnetur

Doritos flögur muldar yfir í lokin

Og svo æðisleg dressing úr sojasósu, hlynsýrópi og fl.

Best að gefa ekki allt upp svo ég verði ekki kærð fyrir brot á höfundarrétti. Vona að María mín fyrirgefi mér þetta.

Svo af því ég var að hrósa Degi nýja borgarstjóranum um daginn fyrir að ætla að gera sundlaug handa mér hérna í Fossvoginum. Þá er best að hrósa honum líka fyrir að ætla að drífa þessa blessuðu Sundabraut áfram. Það sem búið er að draga lappirnar í því. Til að gera enn styttra í norður- og vesturferðum.

Rakel María + Svenni hennar eru á 80's balli í kvöld. Þau voru ægilega flott. Hann í glansgalla og hún rosa flott með glimmer augnskugga, risaperlufesti og túberað hár.

Hvenær verður svona 80's ball fyrir okkur sem upplifðum þessa tíma ;)
Því miður er fjólublái glansgallinn minn, gulu jakkafötin og appelsínugula og vínrauða silkiskyrtan löngu farin til Afríku. Það sem ég sé eftir því núna. Aldrei datt manni í hug að þetta kæmi upp á yfirborðið á ný og ég er mjög lítið gefin fyrir óþarfa dót í geymslum eða skápum. Því miður, alla vega með ofangreinda hluti.

Það er svo mikið um fertugsafmæli núna. Ég sting upp á þessu þema, Michael Jackson, Duran Duran, Wham og allur pakkinn. Maður þyrfti þá bara að redda sér einhverju í Spútnik.

En ekki tími fyrir meira blaður því ég vil hafa húsið mitt fínt þegar langþráði gesturinn mætir á svæðið.

Ætla ekki að feta í fótspor nöfnu minnar úr síðasta Allt í drasli þætti ef ég kemst mögulega hjá því.

Tiltekt núna


Að búa úti á landi

Smá pistill til að gera grein fyrir KOSTUNUM sem fylgja því að búa úti á landi. Þar sem sumir eru haldnir þeirri bábilju að halda að það sé innantómt leiðindalíf.
Árið 1993 bauðst mér s.s. kennarastaða á Þingeyri. Ég ætlaði að búa þar í eitt ár en var í þrjú. Þar komst maður í nána snertingu við alveg svakalega stórbrotna náttúrufegurð. Ég held því fram að sólarlagið hér á þessu landi gerist hvergi fallegra en í Dýrafirði og læt fylgja þessa mynd því til sönnunar. Vona að hún opnist.

http://www.123.is/images/GenerateImageWatermark.aspx?fn=thingeyri&aid=-1368986752&i=005

Hér kemur upptalning fyrir þá sem halda að maður hafi ekkert að gera nema láta sér leiðast.
Ég var í kór. Ég fór að læra aftur á píanó. Ég fór á sundnámskeið (að læra skriðsund). Ég var með Skugga hestinn minn og stundaði útreiðar. Ég var í tveimur saumaklúbbum. Ég hóaði saman 4 hjónum til að spila blak með úti á Núpi 2var í viku. Ég var í skemmtilegum kennarahóp sem gerði margt skemmtilegt saman. Við fórum líka oft í skólaheimsóknir á hina staðina í kring og haustþingið á Ísafirði var alltaf skemmtilegt. Ég prjónaði lopapeysur, venjulegar peysur og meira að segja kjól á 5 ára dóttur mína. Þegar maður fékk gesti að sunnan var stoppað lengi og gist. Maður átti frábæra tíma með vinum sínum og keyrði þar um allt að sýna þeim, þannig að maður lærði á landið sitt í leiðinni og hvernig aðstæður fólk býr við, en göngin voru ekki komin, þannig að maður fór margar ferðir yfir hrikalegar heiðar. Maður kynntist fólki mun betur á eyrinni en maður gerir í hverfinu sínu í Reykjavík því það taka allir þátt í öllu saman ef eitthvað er um að vera í þorpinu. Það sem togaði mann aftur í bæinn var samt fjarlægðin frá vinum og fjölskyldu í Reykjavíkinni ef eitthvað var um að vera yfir vetrartímann. En alltaf býr maður að þessum tíma og við Íris fáum hálfgert nostalgíukast þegar við tölum um tímann sem hún bjó hjá okkur og lék sér uppi í fjalli með prikin sín sem hún var búin að skíra hestanöfnum. Í raðhúsinu þar sem við bjuggum voru ung pör öll með 1 stelpu hver á svipuðum aldri og þær náðu vel saman. Einu sinni voru þrjár þeirra komnar hálfa leið í sund. Þær höfðu 4-5 ára gamlar bara ákveðið að skella sér í sund, búnar að pakka oní tösku því helsta og lagðar af stað upp á eigin spýtur. Svona einfalt var það. Þar sem ég er ættuð að vestan og það stefnir í ættarmót, mikið vona ég að það verði stefnt vestur í þetta sinn. Ekki það að ég fer líka vestur á blakmót í apríl, það verður æði.

Tilefni þessara skrifa er reyndar að vinkona mín og sú sem hélt mér við efnið í prjónaskapnum er að koma í heimsókn til mín um helgina og ætlar að vera hjá mér á föstudagskvöld.

Á morgun ætla ég að kíkja í kaffi til Ástu Sólar frænku minnar, hún er á leið í Brasilíuferð og Íris Fríða mín ætlar að passa húsið hennar um mánaðartíma á meðan og Talíu sæta Beagle hundinn hennar.

Brietin mín var hér hjá mér í heimsókn í gær þegar hún fékk miklar gleðifréttir eftir langa og stranga íbúðaleit. Hjartanlega til hamingju og vonandi gengur allt vel. Svo sæt íbúð í Hlíðunum.

Ég bara verð eiginlega að monta mig pínu af sjálfri mér. Ég skrapaði og skrapaði og skrapaði meira, allt þar til gifshúðin var á bak og burt um helgina. Þá er því lokið loksins. Ég keypti steina og múrhúð í dag til að fylla upp í gatið eftir skápinn og fara að múra og gera fínt.

Þeir feðgar Arnar Máni og Björgvin voru á spjallinu í gær og Björgvin spurði Arnar Mána. Hvað er 1 + 1? Hvað eru ein karamella + ein karamella. Ef þú setur eina karamellu í vasann og svo aðra karamellu, hvað áttu þá margar karamellur??
Snáðinn var ekki alveg að skilja þetta svo pabbinn breytti dæminu í bíla. Ef þú átt einn Leiftur mcQueen bíl o.s.frv.
Eftir smá umhugsun svaraði hann. Karamellubílar. S.s. hvað er karamella + bíll. Að sjálfsögðu karamellubíll :)

Að lokum, ef þú átt eftir að heimsækja náttúrufegurðina fyrir vestan þá er bara að fara að drífa sig


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband