Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

Dýrðardagar

Er rosalega sátt við val þessarar glæsilegu íþróttakonu sem Margrét Lára Viðarsdóttir er sem íþróttamann ársins

og er mikill missir að stöllu hennar Ásthildi Helgadóttur henni við hlið í íslenska landsliðinu.  Grin

Ég hef verið dugleg að fara á landsleiki með kvennalandsliðinu undanfarin ár og hef oft fengið margfalt virði aðgangseyrisins í áhorfi á snilldartakta þess.

 Er þó engin fótboltaspíra sjálf, bara blakari en finnst gaman að horfa á hinar boltaíþróttirnar.

Á dagskránni núna á gamlársdag er að fara á árlegt Áramót, sem haldið er fyrir blakáhugamenn hvaðanæva að.  Það mætir hver sem einstaklingur og er dregið í lið milli hrina.  Mikið fjör og mikið gaman, er búin að vera með frá upphafi hver áramót í nær 10 ár.

Ég sat á glæsilegum rauðum barstólum í gær, þó ekki á knæpu eða öldurhúsi sem ég er mjög löt að sækja heim.  Heldur gegnt hafnfirskri (er líklega orðin það) vinkonu minni sem táningurinn minn sagði að væri krútt að lokinni heimsókn.  Er henni svo sammála.  

Í dag munum við sækja heim vini okkar í Seljahverfinu ásamt fleira spilasjúku fólki og einhverjum spilafælnum, en það er allt í lagi.  Ætlum að eiga góða stund saman.

Svo er í kvöld heljarinnar innflutningsteiti hjá stóru sys, sem lánaði mér dudduna sína hér í den, sbr. færslu hér fyrir neðan.  Þar kemur saman einvala lið vina og vandamanna að samfagna henni og Agli með nýja fallega húsið í Kópavoginum og með hið einstaka útsýni sem er milljón dollara virði Shocking

Margir eiga eftir að reka upp stór augu.  Þar munum við einnig vera gamlárskvöld.

Á morgun kemur svo kannski í heimsókn samnemandi minn úr 6. bekk í Menntaskólanum í Reykjavík sem þá var reyndar bara ómálga fóstur í móðurkviði.  Alla vega kemur mamma hans, en ég vonast til að fá aðeins að sjá þennan myndarlega unga mann sem gerði það að verkum að allt vorið 1987 tók ég tvöfaldar glósur, fyrir mig og mömmu hans sem var svo snjöll að ná að klára skólann.  En hann býr í Danmörku, pilturinn.   Já við sjáum til.

Á gamlársdag ætlar fósturmóðir Sóma míns og blakspíran hún Susanne að koma í brunch eftir áramótið sem við ætlum báðar að sprikla á.  Tökum örugglega góðan göngutúr saman ef ég þekki okkur rétt.  Eftir það er okkur boðið í kaffiboð í Álfatúninu í Kópavoginum hjá Önnu og Andra (Eins gott að okkur er boðið í mat um kvöldið). 

Á nýársdag ætla ég að bjóða Önnu vinkonu og Kára með mér að kíkja á hestana í Mosó, pant fá að koma þá Íris sæta og draga hana með mér í göngutúr í Mosóbæ og í kaffi.

Vel nýttir yndislegir hátíðisdagar.

 


Jólakveðja

Sendi þetta á fullt af fólki á tölvupósti í gær en þá var ég ekki búin að læra alveg að stilla myndirnar svo þetta er miklu flottara.

http://www.elfyourself.com/?id=1802280147

Álfakveðja frá álfadísinni


Blessuð jólin

stressuð ........ Ég, nei.  Nú eru kökurnar orðnar hreinar, búin að skrifa tréið, falda kortin, steikja marsipankonfektið, setja pakkana í ofninn, börnin liggja undir trénu og húsið komið í háttinn.  Nú mega jólin bara koma.  Ég er tilbúin með allt.  Gleðileg jól.

Fékk svona skondið sms skeyti í gærdag, aðfangadag frá vinkonu minni Halo

Við fengum skemmtilega heimsókn á Þorláksmessu.  Ketkrókur sjálfur mætti í Háagerðið á ljósaskreyttum jeppa.  Hér voru þrjú gapandi börn, Arnar Máni, Berglind Eva og Helga vinkona hennar.  Auk þess unglingurinn hún Rakel og var Ketkrókur með gjafir handa öllum.  Set hér myndir af þessari merkisheimsókn.

  desember 2007 004 035 desember 2007 004 032 desember 2007 004 034

Aðfangadagur í gær var hefðbundinn að venju og ekki tekið í mál að breyta hið minnsta út af með mat eða aðrar hefðir.  Möndlugrautur í hádeginu og dýrindis hamborgarhryggur með gómsætu meðlæti í gærkvöld.  Hér flæddu eins og sjálfsagt víðast annars staðar góðar gjafir gefnar af kostgæfni og hlýleik fyrir hvern og einn.

Megi ljós friðarins lýsa hjá ykkur, gleðilega hátíð 


Leikhúsferð

Já, við gáfum okkur tíma í annríkinu til að skella okkur í leikhús og njóta aðventunnar í litlu jólaskreyttu leikhúsi á Laufásveginum.  Þar hittum við Láp og Skráp syni Grýlu og hana Sunnu sem hjálpar þessum hrekkjóttu tröllum á vegferð sinni að finna jólaskapið.  Langaði til að mæla með þessari sýningu, hún er þrælskemmtileg, kostar bara 1.500 (1.200 ef fara 10 eða fleiri) og hægt að fá disk með leikritinu á 1.500 líka.  Gestir fá malt/appelsín, piparkökur og mandarínur og fá að hitta leikarana á eftir og fá eiginhandaráritun/myndir.  Notaleg stemming.  Hvatinn að okkar ferð var að við könnumst vel við annan Grýlusoninn og systur hans eina, þó ekki Leiðindaskjóðu Happy  Við vorum sko ekki svikin. Það er hægt að skoða heimasíðu www.kradak.is og það eru sýningar milli jóla- og nýárs.  (Ath. það er fyrirferð í þeim svo mjög lítil börn geta orðið hrædd :)

 Smelltu


Viðskiptatækifæri

Einföld lausn ef börnin ykkar eru mjög óþekk.  Leigist á 1.500 krónur á tímann.  

  Veit ekki hvað er svona spennandi við þetta. 

Og annað.  Það greinilega borgar sig að tala fornt mál.  Rakel María dóttir mín hneykslast og hváir ef ég nefni gömul orð.  Úr frægri verslunarferð okkar í Kringlunni.  Réttu mér skriffæri sagði ég: hva?  Það er bannað að handleika hlutina, hva?  Mér skilst að textinn í samræmdu prófi í 4. bekk hafi verið 40-50 ára gamall.  Dóttirin (Berglind Eva) brilleraði og aðeins örfá prósent talin á annarri hendi voru hærri en hún í íslenskuprófinu.  Grin  Vona að mér fyrirgefist að opinbera stolt mitt hér.

Það er kominn smá frumsýningarkvíði í mína, en æfingarnar tvær í dag gengu þrusuvel svo það ætti að vera óþarfiTounge  Nú ætti ég ekki að eiga á hættu að gestir jólaskemmtunarinnar á morgun rekist hér inn þar sem klukkan er rúmlega miðnætti.  Ég samdi leikrit þar sem allir nemendur bekkjarins eru með hlutverk.  Í stórum dráttum snýst leikritið um að þátturinn Allt í drasli kemur í heimsókn í Grýluhelli.   Allir jólasveinarnir eru settir í þrif m.a. við að tæma koppa, losa burt köngulóarvefi og ýmislegt.  Í lok leikritsins kemur svo þátturinn Innlit-útlit í heimsókn í Grýluhelli með alls konar brilljant komment.

Hlakka til að sýna

Mín dóttir var Þvörusleikir í jólasveinavísum Jóhannesar úr Kötlum á skemmtilegri jóladagskrá í Breiðagerðisskóla í dag.  Hún stóð sig vel.  Það var ball með lúðrasveit og svo sameiginlegt hlaðborð. 

Gangi ykkur vel að undirbúa heilög jól.


Hátíð ljóss og friðar nálgast

 og það er orðið áþreifanlegt í skólastarfinu.  Kirkjuferð á morgun.  Litlu jól á miðvikudag og jólaskemmtun á fimmtudag, þar sem leikritið okkar Allt í drasli í Grýluhelli verður frumsýnt og við fáum að njóta þess sem aðrir bekkir hafa verið að undirbúa.  Svo er komið langþráð JÓLAFRÍ. 

Fór á laugardag að fylgjast með Berglindi Evu stíga sín fyrstu skref í keppni í fótbolta í Egilshöllinni.  Fyrsta sinn sem ég kem þangað líka.  Þar var mikið líf og fjör og sú stutta stóð sig alveg ágætlega þó hún eigi margt ólært Joyful  Ég set Hrefnu fótboltafrænku í málið. 

  Þessi sæta frænka mín átti afmæli á sunnudaginn, 14 ára snót og það er ekki að því að spyrja en hún systir mín fær 5 stjörnur fyrir veisluhlaðborðið sem hefði sómt sér í hvaða fermingarveislu sem er.  Fyrir rúmum 14 árum síðan þegar systir mín tjáði mér eftir skírn sem ég komst ekki á fyrir norðan að hún héti bæði mínu nafni og dóttur minnar var alveg ótrúlegt hvað ég þuldi upp margar samsetningar nafna án þess að finna þá réttu:  Björk Rakel, Gyða María, Björk María, Gyða Rakel, Rakel Björk, Rakel Gyða, María Björk.

En hún fékk nafn sem ömmur hennar báru í báðar ættir: María Gyða 

 Hef þetta stutt, jólakortabunkinn bíður  W00t


Það var eitt sinn fyrir löngu

að ung móðir með 1 og hálfs árs gamalt barn var þunguð og átti um hálfan mánuð eftir af ætlaðri meðgöngu.  Unga fjölskyldan var að byggja sér húsnæði í efra-Breiðholtinu og var faðirinn upptekinn þar við smíðavinnu.  Þá fer krílið að gera heldur betur vart við sig í bumbunni svo móðurinni verður ekki um sel.  Faðirinn var ekki í símasambandi.  Þetta var löngu fyrir tíma gemsa og sú eina sem komið gat til bjargar var amman og var hóað í hana og kom hún í snarhasti að aðstoða hina ungu móður.  Búið var að hringja á sjúkrabíl sem var á leiðinni.  Þá var það nú svo að litla krílið sem reyndist stúlkubarn ákvað að bíða ekki boðanna en bara stinga sér af stað að kíkja á hina fögru veröld sem beið hennar.  Amman gerði það sem í hennar valdi stóð og allt fór þetta nú vel að lokum.  Hávær barnsgrátur barst um íbúðina á Bústaðaveginum og blessunarlega átti þetta litla barn umhyggjusama og góðlynda stóru systur sem kom stormandi með snuðið sitt til að lána nýfædda barninu sem grét svo sárt.

Þessi stóra systir á afmæli í dag.  Til hamingju og takk fyrir lánið á snuðinu í den systa Tounge

 http://erbinnuriarenaztarnak.wordpress.com/2007/06/

Amman sem stóð sig svo hetjulega og sem vildi alltaf allt fyrir mann gera hét Gyða Guðmundsdóttir og ber ábyrgð á því að ég ber nú nafnið hennar þar sem hún kom svo mikið við sögu þegar ég hélt innreið mína í veröldina.   Ég sakna hennar alltaf mikið.  Hún lét lítið yfir sér en vildi alltaf gefa manni meira en hún átti og hún gerði besta hrygg sem um getur og sá til þess að maginn væri vel mettur.  Ef maður neitaði einu sem hún bauð að borða þá hélt hún endalaust áfram þar til maður lét undan :).

Ég fór til Ásu vinkonu í brjálaða veðrinu í dag og við föndruðum jólakúlu úr þæfðri ull með skrautperlum, afmæliskort fyrir öll afmælin framundan og pappírskörfur til að hengja á jólatréð.  Við skreyttum líka piparkökur og notuðum sniðug glassúrkrem í litlum túbum sem fást í Hagkaup.  Kökurnar voru líka keyptar þar, karlar og kerlingar, jólatré, svín og hjörtu. Sara, Berglind Eva og Sólveig allar svipað gamlar voru í góðu stuði og nú loksins geta litlu strákarnir okkar svolítið leikið, en það munar tæpum 2 árum.

Varla hefur farið fram hjá neinum veðurofsinn sem geysaði á landinu í dag.  Hjá mér voru mætt 8 börn í kennslustund í morgun, það var ekki beysið.  En bara gaman hjá okkur í föndri og áhorfi á jólamynd.  Verra með leikritið sem átti að æfa.  Það var ekki hægt með 1/3 af leikarahópnum.  Annars rúllaði æfingin í gær svo vel að ég var geysistolt af krökkunum.  Þau voru svo frábær.  Búin að vera svolítið erfið fæðing og ekkert auðvelt að leikstýra 24 barna hóp þar sem allir eru með hlutverk Undecided  En þetta er að koma.

Góða helgi gott fólk


12.12 12 dagar til jóla

Ég hef verið að spyrja börnin mín til hvers þau hlakka mest á jólunum.  Svörin hjá báðum stelpunum mínum voru á þá leið að þær hlökkuðu mest til að vera með fjölskyldunni.  Halo  Þær búa reyndar við það að eiga tvær fjölskyldur en samt eru hefðirnar eins hver einustu jól.  Þær eru hjá mömmu í möndlugrautnum í hádeginu og í jólamatnum, en fara til föður síns þegar þær eru búnar að taka upp pakkana hjá mér.  Mikill kostur að við búum bæði hér á höfuðborgarsvæðinu.  Þær gista þar og eru fram eftir degi og fara með honum í jólaboð hið fyrra hjá ömmu sinni í föðurætt sem á einmitt afmæli á jóladag og svo koma þær í jólaboðið mín megin þar sem er spilað á hljóðfæri, sungnir jólasöngvar og spilað fram eftir kvöldi.  Öll systkini pabba og afkomendur og amma og afi.  Mikil tilhlökkun ár hvertHeart

Og af því að hún Inga talaði um að sjá baðherbergið fræga, þá skal það tilkynnast að það er í hörmulegu ástandi.  S.s. búið að rífa allt niður og setja vegg í gat, en síðan hefur lítið gerst í uppbyggingu.  Húsmóðir þessa heimilis hefur ákveðið að jólin muni koma þrátt fyrir að baðherbergið sé ekki upp á marga fiska og það verða haldin gleðileg jól og ljóta baðherbergið bara skreytt með kertum og mottum á gólfin.  Það styttist í útsölurnar í janúar og eftir þeim verður beðið með að klára.  Það fer líka að verða meira gaman því það styttist í uppbyggjandi framkvæmdir, niðurrifið að verða búið.  Jólagjafakaup, kortaskrif, föndur og dúll verður bara tekið framyfir núna á aðventunni.  Ætlum í piparkökuskreytingar og föndur til Ásu vinkonu á föstudaginn.  Svo er dóttirin mín hún Berglind Eva nýbyrjuð að æfa fótbolta og fer á mót á laugardaginn.  Það verður gaman að fylgjast með því. Þreföld afmælisveisla á sunnudaginn.  Litli frændi, stóra systir og stóra frænkan sem verður 14.  Af þessari dagskrá er augljóst að baðherbergismál munu bíða betri tíma.  Annars eru það kannski öfugmæli því besti tíminn er núna, aðventan og jólin.  Nú eru sveinarnir góðu farnir á stjá.  Það var verið að reyna að uppfræða soninn um þá í gær og að maður yrði að vera góður, annars fengi maður kartöflu í skóinn.  Það tókst ekki betur til en hann sagðist glaður vilja fá eina slíka.  

Njótið - föndrið - bakið - borðið - veljið - hlustið - knúsið og skreytið - af hjartans lyst

Góðar stundir

 


Félagsskíturinn ég

Eins og ég hef gaman af mannamótum, þá hefur mér enn ekki tekist að mæta á eina einustu uppákomu nýja vinnustaðarins.  Alltaf upptekin og loks ætlaði ég að mæta á föstudagskvöld í hangikjöt og skemmtilegheit, nema þá var sonurinn kominn með hita og við kúrðum saman allt föstudagskvöldið.  Íris mín og Stormur kíktu svo í heimsókn á laugardag og líka Anna og Kári sem var upplífgandi í heimasleninu.  Við bökuðum skammt 2 af súkkulaðibitakökum og svo var Helga síamstvíburinn hennar Berglindar Evu minnar líka hjá okkur og við áttum rólegt kvöld og spiluðum 7_up.   Bara notalegt.  Hins vegar fékk ég útrás í dag, keppti í blakinu og okkur gekk mjög vel og unnum 1. deildina :)  Rosa skemmtilegt.  Verðlaunin voru 1 bjór og nammipoki.  Sonurinn fékk öruggt skjól hjá ömmu Huldu á meðan.  Kíkti við hjá Brieti með innflutningsgjöf.  Upptalningu helgarinnar lokið.

Að hluta til lít ég á þetta blogg sem hálfgerð dagbókarskrif svo maður geti litið til baka og rifjað upp hvað maður hefur verið að aðhafast.  Til að skrifa niður skemmtilegar uppákomur og gullkorn tengd börnunum mínum og reyna að láta einhverjar gáfulegar hugrenningar fljóta með annað slagið ;). 

Læt hér fylgja eitt gullkorn af syni mínum sem var í baði að leika sér með uppáhaldsdótið, bílamyndabílana.  Pabbi hans var á vaktinni og var að raka sig í leiðinni.  Þá segir sá stutti skyndilega með mikilli áherslu:  ÞÚ ERT AÐ EYÐILEGGJA LÍMIÐ.  Ha, sagði pabbi hans.  þetta er ekki lím, þetta er raksápa.  Nei, ég er ekki að tala við þig, var svarið sem hann fékk.  Þeir eru að tala saman, þ.e. bílarnir.

Eftir að hafa fylgst með syninum að leik dágóða stund rann upp fyrir föðurnum ljós.  Arnar Máni var að fara með atriði úr myndinni Guffagrín þar sem bíll þeirra feðga Guffa og Max, rennur á fullri ferð niður brekku og út í á.  Þá hrópar Max til pabba síns.  Þú ert að eyðileggja líf mitt.  Bara skondið.

bless í bili  


Fegurð vetrarins og drungi myrkursins

Ég og veturinn eigum svona ástar-, haturssamband. Það er fátt skemmtilegra en að renna sér í hvítri mjöll í faðmi fjalla á skíðum. Það var yndislegt að trítla í gærkvöld gegnum snjóinn niður í Bústaðakirkju og hlýða á fagra jólatóna Léttsveitar kvennakórs Reykjavíkur. Fönnin gefur fallega birtu og landslaginu hvíta og dulmagnaða dúnsæng.
EN ÉG GET EKKI VAKNAÐ Á MORGNANA.
Krefst 10 sinnum meiri orku en vanalega. Alveg ótrúlegt. Held ég fari að sækja dagsbirtulampann sem faðir minn gaf mér niður í kjallara. Veit ekki alveg hvar hann lenti við flutningana. Koma þessari biluðu lífsklukku minni á rétt ról.
En nú er að renna upp tímabil notalegheitanna, skemmtilegra samverustunda með fólkinu sem manni þykir vænt um,
umhverfið lýsist upp, ilmur í lofti og ja, pínu kaupæði. Held ég sé bara smám saman að komast í jólaskap.
Það gerðist mikið til upp frá jólabakstrinum á sunnudag. Jólaandinn kom með lyktinni af smákökunum sem hurfu reyndar ofan í gráðuga munna á aðeins 2 dögum. Gerðar úr hálfu kílói af púðursykri, hálfu af hveiti og hálfu af súkkulaðibitum. Ótrúlegt. Ég sagðist nú ekki myndu nenna að baka á 2ja daga fresti :) Mér finnst aðventan æðislegur tími þó ég viti ekki alveg með allt búðarrápið, en það er ekki efst á vinsældalistanum. Það bjargar því þó að maður er að kaupa eitthvað til að gleðja aðra svo það gerir verslunarferðirnar þolanlegri. Ég er ein af ca. 1% (skekkjumörk?) landsmanna sem enn hefur ekki komið í Toys'R'us. Á erfitt með úttroðna staði af fólki og biðraðir eru verri en pestin.
Mér er minnisstæð ein verslunarferð mín um páska fyrir margt löngu, þá ólétt að frumburðinum mínum. Komin heil 16 ár síðan. Þá meðgöngu hrjáði mig mikil ógleði og uppköst sem entust út alla óléttuna. Ég beið og beið spennt með dagatalið eftir að fyrstu 3 mánuðirnir liðu og þetta liði hjá, en það gerði það bara ekki neitt. Það voru komnir páskar, en frumburðurinn er fæddur 8. maí þannig að ég hef verið komin kringum 8 mánuði á leið. Ekki voru mikil auraráð þarna í upphafi búskapar og sá ég auglýst ódýr páskaegg í Bónus sem var þá að koma inn á markaðinn. Með stæl, búðin troðfull af fólki. Það var engar körfur að hafa svo ég tölti inn í búðina til að sækja mín 4 páskaegg og fór beint í röðina. Fyrir framan mig var fólk með troðfullar körfur af páskahaldsvörum, svo það tók dágóða stund að afgreiða hvern og einn. Þarna stóð ég með bumbuna út í loftið, alveg hrikalega óglatt og eftir að hafa staðið í röðinni í talsverðan tíma var svo komið að mér lá við yfirliði. Ekki einum einasta manni datt í hug að bjóða mér með mín 4 egg að koma framfyrir í röðinni þó kúlan mín væri mjög áberandi. Ég um mig frá mér til mín syndromið í algleymingi.

Tökum tillit í jólaösinni.

Það er eitt af fáu sem er ókeypis.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband