Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Tíminn hleypur í hringi

7. áratugurinn

Já fötin gefa það víst upp hvort þetta er mynd af mér eða yngstu dótturinni tekin við Þingvallavatn fyrir um 30 árum síðan, þótt ótrúlegt sé.  Ekki voru aukakílóin mikið að stríða manni á þessum árum.

Ég þykist nú eiga slatta í litlu snúllunni minni.

Er annars vart orðin góð eftir pest númer 2 nú í janúarmánuði.  Búin að vera með leiðindahitapest og uppköst.  Orðin nokkuð orkulítil og lúin en vonandi fer að lifna yfir manni um leið og sól hækkar á lofti. 

Happy


Vertíð

Í borg og bí

borgarstjórn ný    

Skipt æ og sí

stjórninni í 

Hugurinn hví

hvarflar að því

Björn fór í frí

Föt fékk sér hlý

Hver á næsta leik? Hver er skákmeistarinn í þessari refskák?

 

W00t  Þá er farið að sjá fyrir endann á námsmati nemenda minna.  Það var unnið til 10 á föstudagskvöld niðri í skóla og í gærkvöld hér heima og verður unnið smá meira í dag.  Hún Susanne vinkona gerði mér samt stóran greiða í gær.  Ég var búin að redda pössun fyrir guttann því ég ætlaði niður í skóla að vinna.  Þá gerði hún mér gönguferðartilboð sem ég gat ekki hafnað.  Við löbbuðum með hundana okkar og pjakkinn minn á sleða hringinn í kringum Rauðavatn í snjósköflum.  Á við besta eróbikktíma og að sjálfsögðu kærkomin súrefnisinnspýting eftir allt prófastússið.  Mig langaði nefnilega svo á skíði um helgina en var búin að ákveða að ég gæti ekki boðið syni mínum upp á meiri pössun en sem nam vinnutörn móðurinnar svo það var kærkomið að gera þá eitthvað skemmtilegt saman úti.  Oft þarf maður einhvern góðan til að draga sig af stað.  Takk Susanne og Títus.Halo

Ég á svo skondinn hund sem gæti hlaupið upp og niður Everest án þess að blása úr nös.  Hann er svo orkumikill að það er ótrúlegt.  Susanne líkti honum við Canonball sem er góð samlíking.  Svo þegar maður kallar á hann þegar hann er rokinn út í buskann kemur hann um leið stökkvandi til baka og ber framfæturnar svo hátt að hann minnir á kengúru og er eiginlega bara fyndinn.  Tala nú ekki um hvað hann er sætur svona kolbikasvartur í hvítum snjónum.  Við erum á fullu að reyna að fita hann því hann er svo grannur  en það er ekki von að það gangi hratt að fita hann miðað við alla orkuna sem hann eyðir Shocking

Annars er það manni nú efst í huga þessa dagana að það styttist í að maður verði frænka enn á ný. Níundi gullmolinn á leiðinni í okkar þriggja systkina hópi.  Nokkuð vel af sér vikið.  Skemmtilegt líka að ekkert þessara níu á afmæli í sama mánuði, svo það eru þrír mánuðir enn lausir Joyful  Greinilega enginn sérstakur fengitími í familíunni.  Við bíðum spennt eftir litla krílinu.  Ætlum að fá foreldrana tilvonandi í hrygg til okkar í kvöld, bróður minn, mágkonu og Óðinn litla.

Að lokum bið ég bara allar góðar vættir að vernda þá sem mér þykir vænt um sem fer fjölgandi 

 


Mæli með

Já, þá er það leiklistarrýni bloggsins.  Þið bara verðið að fara að sjá Ivanov.  Leikurinn hjá leikurunum er frábær, söguþráðurinn grátbroslegur og skondnir karakterar snilldarlega leiknir af Ilmi, Ólafíu Hrönn, Ólafi Darra og Jóhanni Sigurðar svo nokkrir séu nefndir.  Maður hló, fann til og var sem steinrunninn yfir öllu saman.  Ég ætla að kíkja á brúðkaupið í bíó fljótlega en sú mynd á sér fyrirmynd í þessu leikriti og það eru sömu leikarar. 

Sýningin í gær á Skilaboðaskjóðunni var líka alveg æðisleg.  Lögin eru svo skemmtileg og allt illþýðið og ævintýraliðið og dvergarnir eftirminnilegt litlum barnssálum sem skemmtu sér rosalega vel.  Má eiginlega segja að maður sé í skýjunum eftir þessar frábæru upplifanir.

That's life InLoveLoLUndecidedAngryCrying  Búið að spila á allan tilfinningaskalann.  Alveg rosalega gaman.

 Jesus Christ var líka hin þokkalegasta skemmtun og Singstar partýið á föstudagskvöld með skrítnu fiskisnittunum bara alveg frábært.  Ég fór síðust heim og það er nýtt met.  Hér er nefnilega viðkvæðið þegar ég fer eitthvað út, já mamma mín, þú verður sem sagt komin heim hálf tólf.  Mitt fólk hefur enga trú á mér í djamminu.  Ekki það að ég sé að reyna að sanna neitt.  Það var bara svo gaman að syngja.

Svo fórum við öll út að borða á Ask í gærkvöldi eftir leikritið og sá staður stendur alltaf fyrir sínu.  Gott verð og góður matur.

Þessa vikuna verður svo kliiiiikkað að gera við að fara yfir próf, er aðeins byrjuð en á heeeeelling eftir. Sat í tvo tíma í kvöld og bærði ekki á mér með prófabunkann.

Það eru kannski ekki meðmæli með mér sem enskukennara eftirfarandi tilvitnanir, en þetta er tekið upp úr prófum ónefndra krakka:

I went to Greece last summer.  Þýð: Ég fór að sjá Grís síðasta sumar.

She had long, blond hair.  Þýð:  Hún var með langt, blúndað hár.  annar sagði blandað.

Sunny hlaut nýyrðið sólskynjað

9,5 nemandi hjá mér þýddi supermarket sem ofurmarkað.  

Og svo var það hún Pamela is tall.  Þýð: Pamela er að tala.

Gott hjá þeim að vera dugleg að bjarga sér og well, we can't all be perfect.

Good night good people


Menningarsukk

Jæja, nú á að auðga andann almennilega.  Taka bara út leikhúslífið í þessari borg með trukki og dýfu.

Skólinn minn er svo rausnarlegur að bjóða starfsfólki sínu að fara og sjá látúnsbarka þessa lands þenja raddböndin í söngleiknum um son Guðs.  Ég bauð hins vegar eldri dætrum mínum með, þ.e. Írisi og Rakel Maríu.  Mikið sem það verður fjör vona ég og heimapartý á eftir.

Svo er hún Anna vinkona mín þessi öðlingur búin að bjóða mér með sér í leikhús á laugardagskvöld en hún átti inneign í Þjóðleikhúsinu og við ætlum að sjá lærisveina Baltasars fara með Ivanov eftir Tsjekov.  Búin að heyra margt gott og sjá góða dóma um það.  

Að endingu er móðir mín búin að bjóða öllu slektinu, börnunum og barnabörnum í leikhús að sjá skilaboðaskjóðuna á sunnudag.  Við áttum leikritið á spólu og hlustuðum gjarnan á hana á ferðalögum, svo allir í fjölskyldunni kunna lögin og söguþráðinn og eru mjög spenntir að fara.  Háir sem lágir, í lofti.  Meira að segja Íris sæta ætlar að koma með þó hún sé komin á þrítugsaldur Wink

 Þannig að ég er að fara 3var í leikhús um helgina og borga ekki krónu (nema fyrir stelpurnar annað kvöld).  Geri aðrir betur segi ég nú bara.  Mér líður bara eins og Jóni Viðari hlýtur að hafa liðið meðan hann var í náðinni, já og öðrum menningarvitum.  

Ekki veitir annars af upplyftingu þar sem undirritaðri líður nú hálfpartinn eins og hún sé ósyndur andarungi í nýju vinnunni sinni og við það að drukkna.

Það eru próf á skólatíma.   Það þarf að búa þau til, fara yfir, færa inn, fara yfir vinnubækur, skrá hegðunareinkunn fyrir alla mína 130 nemendur, en samt undirbúa kennslu, vera í fullri kennslu, sjá um fundarritun og gera frétt á heimasíðu skólans.  En maður göslast þetta áfram og heldur sér á flotiSideways Þetta hlýtur að verða auðveldara í næstu umferð 

Farin að sinna ungum og heimili áður en Ísland-Svíþjóð skellur á klukkan 7. ÁFRAM ÍSLAND

 

Litli andarunginn


Þrælsmitandi

Ekki pestin mín sem er að líða undir lok, sem betur fer.  Heldur hláturinn í honum Ethan litla. 

www.youtube.com/watch?v=cXXm696UbKY&feature=related

Það er líka annað sem vekur hjá mér bros.  Að sameinuðu þjóðirnar skuli vera búnar að gefa það út að kvótakerfið sé svindl.  Ég vissi að það hlaut að koma að þessu.

Vorum boðin í mat á föstudag í Álfatúnið en gærdagurinn fór í að koma þessu heimili á réttan kjöl eftir  veikindi húsmóðurinnar sl. daga.  Þvo himinháar þvottahrúgurnar og taka til.  Svo var lufsast á blakmót  í dag, sem betur fer vorum við nógu margar til að ég gæti verið mátulega mikið með, orkan í lágmarki.  

Er að fara að þjóta í sund með Rannveigu, Ísak og Óðni með krílin mín. Komin aftur og langaði bara að bæta því við að Salalaug í Kópavogi er hreinasta dásemd.  Risamishæðóttur nuddpottur og stór innisundlaug þar sem litlir 3ja ára fætur botna í öðrum endanum.  Algjört æði og gott fyrir aum bök, enda ætla ég fljótlega aftur. 

Meira síðar


Góð heilsa gulli betri

Það var nú ekki hluti af hernaðaráætlunum mínum að senda alla litlu rauðu hermennina mína í hörkubardaga við flensuveirur, en á vígvellinum hefur verið háð blóðug styrjöld síðastliðna tvo daga, sem mér sýnist að duglega rauða herdeildin mín sé á góðri leið með að vinna.  Líðanin búin að vera all svakaleg, með hita, beinverki, bakverk, hausverk, ógleði og bara hreint afleit.  Ég er aðeins að rakna úr rotinu. 

Annars er það nú helst títt að fallegasta og unglegasta amman sem ég þekki á fertugsaldri (til að styggja ekki aðrar ömmur :) á stórafmæli á morgun, mælt í heilum fjórum tugum og heldur kaffiboð.  Mun ég mæta þar og skála í kaffi fyrir henni og Ninnu vinkonu líka en þær eiga afmæli sama dag.  Þ.e. ef heilsan verður komin í lag - sem hún er ekki .  Annars mæti ég í afganga á föstudag.  Þarf víst að láta mér það nægja :(.

Rakel María dóttir mín tók þá ákvörðun eftir hálft ár í M.S. að skipta um skóla og prófa að fara í áfangakerfi.  Fyrir valinu varð F.Á. og ég vona bara að skólaganga hennar þar verði farsæl.  Henni gekk samt vel í M.S. fyrir utan stærðfræði.  Gleymdist víst að planta áhugageninu í hana eins og fleiri í þessari fjölskyldu.  Það skemmtilega er hins vegar að amma hennar er að fara að taka fög í skólanum í læknaritaranum þannig að þær verða skólasystur, dóttir mín og móðir.  Rekast að vísu bara á í 1 hálftíma í viku því mamma tekur fögin eftir 3 á daginn.  En skemmtilegt samt. 

Held ég sé orðin hálf rugluð af þessu baðherbergisveseni.  Þegar ég lá í baðinu síðast var ég farin að semja heljar ljóðabálk um baðframkvæmdirnar mínar.  Man hann nú ekki lengur en djísus hvað maður er farinn að fá þetta á heilann.  Hvað er það, að gera við bað var ein línan Sick

Greinilega komin með grænar á ástandinu.  Búið að planleggja flísalögn í næstu viku þannig að vonandi kemur betri tíð með blóm í haga og ég get farið að yrkja um öllu heilbrigðari og áhugaverðari tilefni næst þegar skáldagyðjan bankar upp á.   

Ætlaði að setja hér inn sæta mynd af Berglindi minni og honum Glæsi, hestinum sem hún Íris fékk frá okkur í fermingargjöf síðan við heimsóttum Írisi í hesthúsið um daginn.  Hún birtist hins vegar bara hér til hliðar.  Þau eru eitthvað svo sæt bæði.   

Adíós,

Rauða herdeildin


Álfagleði á morgun.

 

Ég ætla að fara á morgun og bregða mér upp í Mosfellsbæ að kveðja jólin með álfunum og öðru venjulegu fólki.  Aldrei að vita nema maður rekist á þennan.  Það væri gaman.  Það er svo fín brenna þar og flugeldasýning sem er orðin hefð hjá manni að fara á eftir að hafa búið í bænum í 10 ár. Það linar aðeins söknuðinn eftir Þingeyrarflugeldasýningunni á þrettándanum þar sem fjöllin taka undir sprengjulætin sem býr til alveg magnaða stemningu.  Þar banka öll þorpsbörnin upp á á þrettándanum uppáklædd í grímubúninga, eins og hér í bænum á öskudag.  Nema þar er farið á heimilin svo maður var búinn að pakka í sælgætispoka og tók á móti uppábúnum börnum allan daginn.  Svo gaman.  Þetta er hægt í svona fámenni.  Mínar stóru stelpur fóru eitt sinn svo sætar sem Ronja ræningjadóttir (Íris) og Birkir Borkason (Rakel).  Smellpössuðu í hlutverkin, útkrassaðar og reyttar.  

Ég er byrjuð að pakka saman jólunum og eiginlega snúa öllu á hvolf hjá mér í leiðinni. Eyddi deginum í dag við að bera til skápa big time og breyta hjá mér, með aðstoð góðra manna. Byrja nýtt ár á nýrri uppröðun. Kemur flott út, ég er mjög ánægð með afraksturinn. Sjón er sögu ríkari.  Eftir atganginn bíður mín heljar tiltekt af skápadóti svo ég kveð að sinni.

Góða skemmtun á morgun og gangi ykkur vel að standa við áramótaheitin á nýju ári, með ofurárás á jólaskvap, einhverjir býst ég við, ja eða bara hvað sem er í átt að sjálfsþroska og gleðiríku lífi.  Allt þetta er á stefnuskránni hjá mér og ég er búin að útbúa hernaðaráætlanir í átt að settu marki.  Kommander Gyða on the go Police einn tveir einn tveir


Hið eftirminnilega ár 2007

Þetta árið var nú eiginlega eitt það rótlausasta sem undirrituð hefur upplifað á sinni fertugu ævi.

Skipti um heimili og var heimilislaus í tvo mánuði.  Á ferðalagi með börn og buru í ferðatöskum milli heimila vinafólks sem það var svo góðhjartað að lána okkur.

Á baðherbergi sem er eilífðarverkefni að gera upp að því er virðist

Skipti um vinnu

Skipti um bíl

Skipti um blakfélag eftir nærri 10 ára vist hjá Aftureldingu og gekk í Þrótt. 

Fór inn á nýjan áratug í aldri 

Elsta barnið kláraði grunnskólann og gerðist menntskælingur eins og stóra systir reyndar sem ég á stóran hlut í

Það eina sem eftir stendur eftir árið er að ég skipti ekki um börn, enda ekki gott við það að eigaGrin 

Þykir enda undurvænt um krílin mín stór og smá og þykir mínir fuglar ægifagrir og engin önnur kríli sem standast þeim snúning í mínum huga, ó nei. 

Fór í frábært ferðalag til Danaveldis með þessum frábæru krílum, krílum systkina minna, systkinum mínum og mömmu.

Fór í nostalgíuferð í Munaðarnes, mikið rosalega er það yndislegur staður, alveg eins og í rósrauðri minningunni.

Fór og lagðist hjá álfum rétt hjá Klaustri og átti dýrðardaga hjá Evunni minni og co. í Efri-Vík.  Fór þangað hölt og kom heil heim, þökk sé álfunum.  Þar er yndisfagurt nýtt hótel, golfvöllur, veiðivatn og alls kyns önnur afþreying.  

Missi líklega góða vini mína á nýja árinu sem við lestur þessa pistils halda að ég sé endanlega orðin klikk.

Áramótaheit nýja ársins að hafa status quo í lífinu, þ.e ekki of miklar breytingar takk.  Vonast til að eiga gott, hamingjuríkt líf með börnunum mínum, sem eru mér allt, fjölskyldu og góðum vinum.

Óska ykkur þess hins sama, Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir gamlar stundir (seinni partinn taki þeir til sín sem eiga)   Wizard

Farin að sökkva mér niður í Mosfellsbæjarkrimmann, Skipið eftir Stefán Mána, með ljóta krimmanum Óðni.  Þrælspennandi bók í kunnuglegu umhverfi, meira að segja nafngiftirnar í bókinni hringja nokkrum bjöllum, frekar skondið. 

Að lokum, kíkið á þetta: http://www.youtube.com/watch?v=dcLMH8pwusw

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband