Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Kveðjustund?

Þar sem ég er nú farin að eyða svolitlum tíma í að tengjast vinum og kunningjum á Facebook síðunni, þá ætla ég að lýsa yfir því að þetta blogg verður tekið út af dagskránni þar sem ég hef einfaldlega ekki nægan tíma í sólarhringnum fyrir hvoru tveggja.  Ég geymi þetta fyrir mig til að eiga gamlar minningar frá þessu rúma ári sem þetta varði.  Kannski lifnar þetta einhvern tíma við á ný.  Veit ekki, en takk fyrir samveruna.

InLove

 


Ástkæra ylhýra málið

er mál málanna hjá mér þessa dagana þar sem ég er sem stigstjóri á miðstigi að undirbúa 45 mínútna dagskrá fyrir dag íslenskrar tungu sem er vanalega 16. nóvember (afmælisdag mömmu). Hann er hins vegar á sunnudegi núna svo dagskráin verður á fimmtudag. Við munum tala aðeins um skáldið sem á afmæli þann 16. og á heiðurinn af því að þessi dagur var valinn, Jónas Hallgrímsson. Hins vegar ætlum við að tala enn meira, leika og syngja um ljóð eftir Stein Steinarr. Hann hefði orðið 100 ára þann 13. okt. síðastliðinn.  Ég er búin að vera að undirbúa mig og lesa um hann og lesa yfir ljóðin hans. Mér finnst hann frábær og hefur alltaf fundist. Hann og Tómas Guðmundsson eru í miklu uppáhaldi þó fleiri séu góðir. Steinn kemur til Reykjavíkur 18 ára í algjöra fátækt og atvinnuleysi og yfirvofandi kreppu. Hann er með róttækar skoðanir á stöðu þeirra sem minna mega sín og yrkir frábær ljóð eins og þetta:

Svo var ég búin að gleyma því að þetta ljóð sem hann samdi er um barn hans sem hann kynntist aldrei og ólst upp úti á landi: Það vex eitt blóm fyrir vestan

Það vex eitt blóm fyrir vestan,

og vornóttin mild og góð

kemur á ljósum klæðum

og kveður því vögguljóð.

 

Ég ann þessu eina blómi,

sem aldrei ég fékk að sjá.

Og þangað horfir minn hugur

í hljóðri og einmana þrá.

 

Og því geng ég fár og fölur

með framandi jörð við il.

Það vex eitt blóm fyrir vestan

og veit ekki, að ég er til.

Ég hef haldið fleiri en eina ræðu yfir afskiptalausum feðrum en það er nú önnur saga og þær náttúrulega jafn misjafnar og þær eru margar og ég ætla ekki út í þá sálma hér og út á þann hála ís.

Annars líður mér eins og ég hafi fengið stóra happdrættisvinninginn, því ég eignaðist frystikistu í gær.  Hún smellpassar bak við hurðina í þvottahúsinu eins og hún hafi alltaf verið þar Grin

Elsku amma og afi gáfu mér þennan dýrgrip og nú verður keypt í kistuna á tilboðum og ég þarf ekki lengur að eltast við eitt og eitt læri til Bryndísar systur með tilheyrandi veseni því hjá henni á ég kindaskrokk.  Jibbí.

Lítur út fyrir annasama og skemmtilega helgi framundan.  Göngutúr með Susanne vinkonu og Títusi á laugardag, boð til Brietar um kvöldið og svo gerum við familían nú örugglega eitthvað skemmtilegt saman í tilefni afmælisbarnsins þann 16. nóvember, ekki Jónasar heldur mömmu.


Álfakirkja

Ég er s.s. á leiðinni austur til elskulegu vinkonu minnar hennar Evu Bjarkar sem varð fertug í sumar.     Hún er að byggja og rekur Hótel Laka rétt hjá Kirkjubæjarklaustri svo það mun ekki væsa um mig í þeim fallegu salarkynnum í nótt.  Ég fór til Evu í fyrrasumar í afslöppunarferð eftir Danmerkurferðina, búin að labba um alla Danmörku með krílin og var orðin frekar lúin.  Ég var búin að vera eitthvað hölt og var farin að hugsa sem svo að ég hlyti að vera komin með brjósklos, því ég var bakveik á þessum tíma og svo oft spurð af læknum hvort ég hefði verk niður í fót sem er víst einkenni þess.  Eva Björk var önnum kafin eins og alltaf yfir sumartímann og sagði mér að fara í afslöppunargöngutúr niður að álfakirkjunni sem er þarna rétt fyrir neðan hótelið.  Sú er með stíg sem liggur milli smárra hamrabelta.  Eva sagði mér að banka létt á kirkjudyrnar og vita hvort ég fengi á tilfinninguna að ég væri boðin velkomin.  Ég gerði það og gekk inn í álfakirkjuna og lagðist þar í grasið í svolítinn tíma í algjöra afslöppun.  Það var ekki fyrr en ég var komin vel á veg áleiðis heim að hótelinu aftur sem ég fattaði að ég var ekki lengur hölt Shocking

Hlakka ekkert smávegis til að fagna með þeim hjónakornum og fleira vinafólki Wizard

Þau reka smáhýsi einnig og hafa gert í mörg ár.  Við hótelið er bæði veiðivatn og golfvöllur og verið að byggja upp flotta spa aðstöðu.  Já og svo er fallegi hundurinn minn ættaður þaðan en Rakel María vann hjá þeim þarsíðasta sumar og þau komu tvö til baka.

Ein flott mynd af Sómanum okkar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Berglind Eva er byrjuð í skátunum og það er rosa mikið við að vera í því og hún er farin í fjórðu ferðina með þeim á þessu hausti.  Rosa fjör.  Pjakkurinn verður hjá ömmu og afa og unglingarnir munu leika lausum hala, en Rakel María er að fara í afmæli í kvöld til vinkonu sinnar. 

Þar til síðar Cool


Da Vinci, Margrét Lára, Heiða frænka og fleiri snillingar

Búið að vera mjög gaman undanfarna daga, svo gaman að kreppan er komin einhvers staðar langt inn í heilahvelið og er þar dormandi.

Mætti á völlinn þegar íslenska kvennalandsliðið tryggði sér farseðil til Finnlands.  Við mættum fjölmörg úr famelíunni með kakóbrúsa og vel klædd og nutum þess sem fyrir augu bar.  Þessa frábæra samspils, leikgleði og stemmingar. 

_margret_laraog-holmfridhur

 

 

 

 

 

 

Svo var farið í keiluferð og partý með vinnufélögum á föstudaginn.  Keilan gekk hörmulega en playstation tækið var mér mun hliðhollara í stigagjöf í singstar svo það bætti það upp.  Þetta var mjög skemmtilegt.

Heiðan mín Jónsdóttir var mér svo ferðafélagi niður Laugaveg í dag og átti stóran og vel þeginn part í því að ég studdi íslenska hönnun og keypti mér ofsalega fallega jólapeysu, sem ég er svoooo ánægð með og loksins fann ég fína kápu á viðráðanlegu verði í þokkabót.  Ótrúlega sæl með þessi kaup.  Báðar hinar kápurnar mínar voru orðnar rifnar af elli.  Við kíktum á Súfistann í kaffi og fylgdumst með þeim 1100 Íslendingum sem vildu mótmæla stjórnvöldum í stúkusæti koma niður Laugaveginn.  Við hins vegar horfðum bara á og fengum okkur desert í staðinn fyrir að storma út með spjöld og fána.  Algjört kæruleysi Crying  Frábær dagur og við enduðum á hönnunarsýningu í Ráðhúsinu.

Á morgun ætlum við að heimsækja Ísak og Rannveigu og svo er Hjödda mín elskulega vinkona að koma í mat með sinni fjölskyldu til okkar.  

Ég fór með nemendur mína á Leonardo da Vinci sýninguna í Orkuveitunni.  Það var alveg rosalega gaman að sjá líkönin af uppfinningum sem hann teiknaði.  Sumar hverjar urðu aldrei að veruleika en maður sá hvað hann á í raun og veru upphafshugmyndina að mörgu í þessari veröld og hvað enginn flötur mannlegs lífs var honum óviðkomandi.  S.s. þyrlan, skip nútímans, fallhlífin, prentvélar, vindubrýr og svo margs konar hernaðarleg tól eins og skriðdreki, hríðskotabyssa og stigi til að fara upp í kastala sem ekki er hægt að ýta frá kastalaveggjunum.  Manni finnst það nú hálf fyndið að það skuli hafa verið þörf til að finna svoleiðis upp.  Krakkarnir voru mjög áhugasamir og við vorum búin að ræða hann heilmikið, líka um listamanninn og náttúrufræðinginn.  Vorum búin að grannskoða Monu Lisu og síðustu kvöld máltíðina.  Lofum meistaranum að eiga síðasta orðið Halo Blessuð sé hálfrar þúsaldar minning hans.monalarge

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband