Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Vorverkin

Prísaðir séu veðurguðirnir með þetta frábæra veður sem þeir sköffuðu okkur í bekkjarafmæli dóttur minnar í dag.   Skvísurnar tíu gátu að miklum hluta verið úti í garði og Sómi var aðalskemmtikrafturinn og hefur aldrei í sínu tveggja ára lífi fengið jafn viljugan hóp til að leika við.  Ég sagði við stelpurnar að maður þyrfti ekki að panta trúð eða töframann þegar maður ætti svona klikkaðan hund. Hann er algjör orkuuppspretta, væri örugglega hægt að virkja hann.  Þetta var mjög skemmtilegt.  Rannveig mágkona og Óðinn komu labbandi til okkar um hádegi og tóku svo Arnar með sér til að gefa okkur skvísunum frið.  Takk þið, það var frábært.  Litli kútur svaf fyrir utan.

Kári, Anna og Andri kíktu við í gær í kaffi en seinni partinn fórum við í reiðhöllina að sjá sýninguna Æskan og hesturinn þar sem Hrefna Guðrún frænka tók þátt í sýningaratriði á honum Blesa Bryndísarsyni.  Þau voru appelsínugul og flott, hún í bol og hann með slaufu  

En endalaus stífla, hæsi og hósti??  Er komin með málið í nefnd og búin að panta tíma hjá ofnæmislækni 22. apríl.  Held þó í vonina að sú sé ekki raunin en þykir grunsamleg hnerrahrinan sem ég tók um daginn þegar Sómi minn sæti birtist.  Hnerraði 7 sinnum.  Vil ekki hugsa þá hugsun til enda og vona að þetta eigi sér veirukenndar skýringar.

Svo er ungi maðurinn að fara í hjartatékk aftur í vor en hann er með einhver aukahljóð sem eru víst algeng og mér er sagt að séu að öllum líkindum skaðlaus. 

Æ hef eitthvað lítið að blogga um.  Er bara að njóta vorsins, vinna vorverkin og sinna krílum og hundi.

Vonandi kemur bloggandinn fljótt svífandi með eitthvað meira krassandi í farteskinu.

Góðar stundir


10 ára afmæli

Það er náttúrulega stærsta fréttin þessa dagana.  Páskar og upprisa, hvað.  Hún litla dóttir mín varð sem sagt 10 ára núna á Páskadag, sem mér skilst að muni vera í eina skiptið sem svo hittist á í hennar ævi.  Við eyddum afmælisdeginum hennar mæðgurnar þrjár uppi í Bláfjöllum í fínasta veðri en svolítið blautu svo snjórinn var þungur en þetta var mjög hressandi eftir flensuinnihangsið undanfarið og ég tala nú ekki um páskaeggjaát.  Við vorum svo boðin í veislu til Bryndísar og Egils í Ennishvarf á Páskadag í nautasteik bernaise. 

Í dag verður svo lítið fjölskylduboð fyrir afmælisbarnið og verður hennar uppáhaldsmatur á boðstólum.  Þ.e. humarsúpa, brauð og humarhalar.  Hún EEEEELLLLLLSSSSSKKKKKKAAAAARRRR humar.  Þegar hún var fyrst byrjuð að fara í frí með pabba sínum var það eitt sinn að hún fór í tvö ferðalög með honum með dags millibili og kom heim þennan eina dag.  Þá var hún ca. 6 ára.  Móðirin sagði að hún mætti velja hvað yrði í kvöldmatinn þennan eina dag og hún bað um humar og fékk hann Cool

Þegar við förum á Fjöruborðið á Stokkseyri sem er frábær staður með æðislegan humar og súpu og við reynum að gera af og til þá borðar hún manna mest.

Ég dreif mig loksins á Brúðgumann í bíó í gær með Þóru vinkonu minni og je minn eini hvað ég hló.  Myndin er hreint út sagt bráðfyndin og frábærlega skemmtileg.  Algjör perla.

Gleðilega páskarest


Svefnleysi og upprisa

Já það er nú þannig að hér tekur hver við af öðrum, Berglind Eva orðin frísk og ég að skána, þá byrjar sá stutti.  Hann er búinn að vera með mikinn hita og óráð.  Sá flugur og dýr í rúminu og öskraði af lífs og sálar kröftum.  Ég fékk svona ofskynjanir vegna hita þegar ég var barn og bæði Berglind Eva og Arnar Máni fá þær líka.  Berglind Eva sá alltaf köngulær en ég sá svífandi fiska og froskdýr enda í vatnsmerkinu.  Þannig að svefnlausu næturnar halda áfram.  Nú er ég farin að skilja þessa pyntingaraðferð sem viðgekkst víst hjá þeim í þriðja ríkinu að leyfa fólki ekki að sofa.  Ég er nefnilega orðin nokkuð langþreytt á ástandinu og í gær var ég sem rúin allri orku og krafti, svona nokkurs konar zombie.  Það bjargaði geðheilsunni að mín elskulega stóra systir mætti hérna til mín með kínverska veislu í gærkvöld og með Hrefnu sætu og Viðar Darra með sér.  Það kostar sem sé heljar fórnir að skipta svona algjörlega um umhverfi.  Við bara sækjum allar veirur og bakteríur sem í boði eru.  Fjórar fyrir eina á tilboði Sick 

Þannig að skíða-, sund- og útivistarferðirnar sem við ætluðum að stunda yfir páskana bíða betri tíma.

En meðan þetta eru bara flensur og hitapestir sem þó læknast á endanum hefur maður ekki efni á að kvarta.  Bara þrauka, flísaleggja (sem gengur vel by the way :) ), lesa góðar bækur, taka til, horfa á góðar myndir, knúsast og þakka fyrir það sem maður hefur.

Jæja, er ekki bara Pollýanna mætt á svæðið.

Við upplifðum annars kraftaverk hér á heimilinu í gær.  Gæludýrið okkar, litla svarta músin Hendrix sem Íris Fríða gat sannfært okkur um að bjarga frá slöngugini þegar hún vann í gæludýraverslun, gaf upp öndina, að því er ég taldi að minnsta kosti.  Hún lá algerlega hreyfingarlaus í langan tíma, brást ekki við þegar ég hellti mat í búrið hennar með heljarhávaða.  Þá reyndi ég að meta stöðuna með því að hrista búrið og lyfta til og frá og músin lét sér fátt um finnast.  Verð að viðurkenna heigulshátt minn í að taka á dýrinu til að meta stöðuna.  Þannig að ég hringdi í upphaflegan eiganda (Rakel Maríu) til að tilkynna henni dauðsfall gæludýrsins og hringdi jafnframt í aðstoðarmann til að hjálpa mér að fjarlægja og grafa líkið þar sem Rakel María var að vinna til 9 í gærkvöld.  Fór því næst inn í eldhús og náði í poppkassa sem átti að þjóna hlutverki líkkistu.  Settist að því loknu með veikum syni mínum að horfa á bílamyndina meðan beðið var eftir líkmanninum.  En þá gerðist það þegar gætt var að henni talsvert seinna að hún ákvað að hlutverki hennar í þessu lífi væri ekki lokið og ákvað að snúa til okkar á ný.  Það varð því aftur að hringja í eigandann og segja henni að hún ætti ennþá mús og líkmaðurinn var afpantaður.  Svo var einhver sem minnti mig á það að ef það væri ekki hlaupár þá hefði verið uppstigningadagur í gær svo þetta er líklega Messías músanna sem hefur farið dagavillt.  Vonandi fyllist ekki húsið af músum í pílagrímaferðum.

p.s. sonur minn vildi fá Hendrix með sér inn í stofu til að horfa á Tomma og Jenna og þeir sitja í þessum skrifuðu orðum og fylgjast með ævintýrum frænda hans á skjánum :) 

Lifið heil


Morðingjaleikur/nafngift

Það er orðin grá og guggin mannvera sem stýrir heimilinu hér í 108, búin að vera hóstandi og hás í viku og hef ekki sofið heila nótt í 5 nætur vegna hóstakasta.  Ja, sem betur fer segi ég er nú komið páskafrí enda ekki besta staðan að vera hás í kennslustarfinu Sick

Skólinn og ég erum jafngömul eða urðum 40 ára á síðasta ári, af þeim sökum eru hátíðarhöld í skólanum (kannski aðallega vegna skólans) og síðasta vika var mjög skemmtileg ef horft er fram hjá hæsismálum.  Risasúkkulaðikaka, töframaður, þemaklæðnaður, morðingjaleikur starfsmanna (sem fór að vísu úr böndunum).  Ég var grunlaus drepin (með servíettu) eiginlega áður en ég var búin að lesa reglurnar um leikinn og nýbúin að fá blaðið með þeim sem ég átti að drepa og hvernig.  Ég stakk miðanum í vasann og hljóp inn á gang hjá unglingunum að ljósrita þar sem ritararnir voru að ljósrita í vinnurýminu okkar.  Var þá ekki minn morðingi unglingakennari sem af tilviljun labbaði framhjá þessar 2 mínútur sem ég var þarna að ljósrita.  Þvílík óheppni.  Hann fékk þá miðann með mínu fórnarlambi og drápsaðferð og þannig gerðust þeir duglegustu raðmorðingjar.  Fólk var ýmist drepið með kossi, faðmlagi, kústi, blýanti og bara hverju sem er, enginn með því sama.  Sumir fengu sér lífverði Joyful Reglurnar voru þær að enginn mátti sjá með hverju þú varst drepinn, en það mátti heyra þegar sagt var drepinn, enda skólinn opið rými og óhægt um vik að hafa það öðruvísi.  Verðlaunin voru páskaegg.  Það voru gerð þau mistök að fólk var látið skrá sig niður þegar það var drepið og með hverju svo þeir tveir síðustu vissu hvor af öðrum og það skapaðist umsátursástand í skólanum.  Endaði leikurinn svo að þeir deildu verðlaununum þar sem þetta fór úr böndunum eins og áður sagði.

 

Anna og Kári komu í notalegt spjall og kaffi á fimmtudag.

Báðar stelpurnar mínar fóru á skíði í Bláfjöll í góða veðrinu á föstudag með vinkonum sínum svo ég greip tækifærið og skaust í kaffi til Brietar meðan sá stutti svaf í bílnum.

Í gær töltum við svo í góða veðrinu niður Réttarholtsveginn niður að Fossvogsdal og þar yfir í Furugrundina þar sem litli bróðursonur minn mánaðargamli fékk nafn.  Hann heitir Bjarki og það var veisla honum til heiðurs.  Þannig að nú eiga systkini mín Gyðu og Bjarka.  Að sjálfsögðu tek ég það allt til mín þó ég viti að í hvorugu tilfellinu sé það meinið.  Maður er svo sjálfhverfur.

En jæja, ætla að mála, veggfóðra og dedúa í góða veðrinu í dag.  Langar svo að gera svolítið fínna áður en ég held afmælisboð fyrir 10 ára dúlluna mína en hún á afmæli á páskadag.  Við Rakel María erum að plotta svolítið í sambandi við afmælisveisluna hennar sem ég held að eigi eftir að koma henni skemmtilega á óvart. 

 

Vorkveðja


Dýralíf, pestarlíf og líf eftir dauðann

Þar sem ég er ákaflega lítill sjónvarpsglápari missti ég af öllum fræðsluþáttunum um jörðina okkar eftir snillinginn David Attenborough sem sýndir voru á RÚV nýlega.  Hins vegar eignaðist ég þá á spólum og þeir eru rosalega magnaðir.  Hreint konfekt fyrir augað og fræðandi um heimshluta og dýralíf.  Ég hélt að sonur minn 3ja og hálfs myndi ekki hafa úthald til að horfa með okkur Rakel núna áðan en hann horfði bísperrtur á og kom með hin ýmsu skondnu komment meðan á myndinni stóð, hann er orðinn svoddan páfagaukur.  Mamma, þetta er algjör blekking.  Svo kom einhver karlkynsfugl að sperra sig og dansa fyrir kvenfugl og sá stutti sagði.  Hann er að vera fínn fyrir stelpufuglinn.  Alveg með þetta á hreinu og verður einhvern tímann góður.  Frábærir þættir.  

Berglind Eva er búin að vera í verstu flensu sem ég bara man eftir hjá börnunum mínum, 39-40 stiga hiti stanslaust í 5 sólarhringa.  Öll helgin fór í þetta, sem var slæmt fyrir hana en gott fyrir mig því ég er búin að taka til fullt sem legið hefur á hakanum vegna sumarbústaðar- og skíðaferða.  T.d. hafa margir einstæðu sokkarnir mínir hitt félaga sinn á ný, þvottakarfan komin með tóman maga og herbergi beggja yngri barnanna minna fengu tiltekt og andlitslyftingu.  Það var líka ágætt fyrst flensuófétið þurfti að koma að velja svona rólega helgi þar sem ekkert var um að vera Blush  p.s. Hún fór í fyrsta skipti í skólann í dag eftir tvo hitalausa daga í dag og hún er í þessum töluðu orðum sofandi frá því klukkan 5 og klukkan er orðin rúmlega 8.  Alveg búin á því stelpuskottið Shocking

Hann faðir minn átti afmæli í gær, 62ja og síungur.  Við kíktum til hans með pakka ég, Rakel og Berglind og hittum á ömmu mina og afa en við erum svo lánsöm að eiga þau að þrælspræk og hress. 

Í dag kveiki ég líka á kerti fyrir englafrænku mína sem hefði orðið 29 ára í dag.  Það vantaði brosmildan og glaðværan engil í englakórinn en hún er í hjartanu.

Ég var einu sinni spurð af manni hvort ég tryði á líf eftir dauðann?  Einhvern veginn hélt ég að hann væri efasemdarmaður og myndi vilja fá svarið nei og svo sannfæra mig um að þetta væri tóm vitleysa.  Þetta var fyrrnefndur afi en hann hefur sterkar skoðanir á hlutunum.  Þá sagðist hann vera búinn að fá sönnun á því að það væri til líf eftir dauðann.  Svo sagði hann mér þessa sögu:  Það var um aldamótin þarsíðustu kringum 1900 að móðurbróðir hans fer til Ameríku með skipi og er að sigla um heimsins höf.  Hann skráir sig á skip sem á að fara til Kína en þetta var á tímum gullæðis í henni Ameríku og félagi hans telur hann á að koma frekar með sér upp í fjöllin að freista gæfunnar.  Það gerir hann en láist að láta vita á Kínaskipið sem ferst í þessari ferð sem hann átti að vera í og hann er talinn af.  Þar af leiðandi eru öll bréf til hans send til baka til Íslands þar sem hann sé dáinn.  Þegar hann hins vegar kemur til baka úr gullleiðangrinum (fylgdi ekki sögunni hvort hann gaf gull í mund) og sér að engin bréf bíða hans telur hann að fjölskyldan hafi snúið við sér baki og hefur ekkert samband heim í mörg ár.  Svo gerist það að móðir hans deyr en kemur til langömmu minnar (systur hans) í draumi og segir:  ,,Þetta er svo skrítið, ég finn hvergi hann Karvel"   Þá var móðirin dáin og bjóst s.s. við að hitta son sinn fyrir í himnaríki/þar sem maður fer? en þar var hann hvergi að finna, enda hann ekki dáinn eins og allir héldu.  Það var svo löngu seinna að eiginkona hans fer að spyrja hann út í fjölskylduna á Íslandi og hvetur hann til að hafa samband að hann gerir það. 

Þar með var komin sönnunin hans afa fyrir því að það sé eitthvað sem tekur við eftir þessa jarðvist. 


Að trúa á ástina

í öllum sínum myndum. 

Hún móðir mín átti að gera verkefni í skólanum sínum F.Á þar sem hún átti að flytja 5 ástarljóð.  Hún leitaði til mín því ég á bók sem heitir Íslensk ástarljóð.  Við flettum yfir þessa bók og það voru tvö eftirfarandi ljóð sem stóðu algjörlega upp úr að okkar mati.  Annað eftir Tómas Guðmundsson, sem er mitt uppáhalds ljóðskáld. 

„Fyrir þennan glugga hef ég gengið mörgum dögum.
Hef gengið þar að morgni dags, en oftar seint á kvöldin.
Og hikandi ég beið þess þá, að bærðust gluggatjöldin,
og brjóst mitt hefur skolfið af þungum æðaslögum.

 Og hvítir armar birtust og hjartað brann af gleði,
og hjartað brann af sorg, ef þeir fólu sig í skuggann.
Því hún var bara fimmtán ára og fyrir innan gluggann
og fallegust af öllu því, sem nokkru sinni skeði.

Og vorið kom í maí, eins og vorin komu forðum,
með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan.
Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann.
Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum.

Já, skrýtið er að hafa verið ungur einu sinni,
og að það skuli hafa verið þessi sami heimur.
Því þá var bara heimurinn handa okkur tveimur,
og hitt var bara ástin, sem brann í sálu minni.

Og stundum enn, er byrjar að vora um vesturbæinn,
mér verður á að reika þangað einsömlum á kvöldin.
En aldrei framar hvítir armar hreyfa gluggatjöldin
og húsið verður sjálfsagt rifið einhvern daginn.“

Tómas Guðmundsson, Fagra veröld 

Þar er líka þetta fallega ljóð eftir Sigurð Nordal ort árið 1917 eða fyrir um 90 árum síðan.

Sólin brennir nóttina,
og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir
og eftir sólarlag.

Þú ert yndi mitt áður
og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi
og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum
og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli
og söngur, ef allt er hljótt.

Söngur í þöglum skógum
og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið
og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin
og guð til að styrkja mig.
Eg fann ei, hvað lífið var fagurt,
fyrr en eg elskaði þig.

Eg fæddist til ljóssins og lífsins,
er lærði eg að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað
fyrr en með sjálfum mér.

Ást mín fær aldrei fölnað,
því eilíft líf mér hún gaf.
Aldirnar hrynja sem öldur
um endalaust tímans haf.

Aldir og andartök hrynja
með undursamlegum nið;
það er ekkert í heiminum öllum
nema eilífðin, guð — og við.


Þetta er til með söng Ragnheiðar Gröndal. 

Svo lifði þetta ljóð í minningunni allt frá í barnaskóla og er náttúrulega ein fallegasta mynd ástarinnar og sú sem skærast skín hjá mér um þessar mundir.  Þetta orti Jónas Hallgrímsson svo fallega árið 1837.

Móðurást

  • Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
  • í fjallinu dunar, en komið er él,
  • snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;
  • auganu hverfur um heldimma nótt
  • vegur á klakanum kalda.
  • Hvur er in grátna sem gengur um hjarn,
  • götunnar leitar, og sofandi barn
  • hylur í faðmi og frostinu ver,
  • fögur í tárum, en mátturinn þverr –
  • hún orkar ei áfram að halda.
  • „Sonur minn góði! þú sefur í værð,
  • sérð ei né skilur þá hörmunga stærð
  • sem að þér ógnar og á dynja fer;
  • eilífi guðssonur! hjálpaðu mér
  • saklausa barninu’ að bjarga.
  • Sonur minn blíðasti! sofðu nú rótt;
  • sofa vil eg líka þá skelfingarnótt;
  • sofðu! ég hjúkra og hlífi þér vel;
  • hjúkrar þér móðir, svo grimmasta él
  • má ekki fjörinu farga.“
  • Fýkur yfir hæðir og frostkalda leið,
  • fannburðinn eykur um miðnæturskeið;
  • snjóskýjabólstrunum blásvörtu frá
  • beljandi vindur um hauður og lá
  • í dimmunni þunglega þýtur.
  • Svo, þegar dagur úr dökkvanum rís,
  • dauð er hún fundin á kolbláum ís;
  • snjóhvíta fannblæju lagði’ yfir lík
  • líknandi vetur – en miskunnarrík
  • sól móti sveininum lítur.
  • Því að hann lifir og brosir og býr
  • bjargandi móður í skjólinu hlýr,
  • reifaður klæðnaði brúðar – sem bjó
  • barninu værðir, og lágt undir snjó
  • fölnuð í frostinu sefur.
  • Neisti guðs líknsemdar ljómandi skær,
  • lífinu bestan er unaðinn fær,
  • móðurást blíðasta! börnunum háð,
  • blessi þig jafnan og efli þitt ráð
  • guð, sem að ávöxtinn gefur.

Ástarkveðja,

ljóðaunnandinn

p.s  hér hefur Inflúensan bankað upp á og hrellir Berglindi Evu og þ.a.l. heimilislífið, svo það verða kósíheit hjá okkur hér heima um helgina.

p.s.s. FYRSTU 15 FLÍSARNAR KOMNAR Á BAÐHERBERGIР LoL

p.s.s.s. Brjóttu fót Íris mín í hestakeppninni um helgina.


Börn eldast

Þegar börnin verða FULLORÐIN ?? Hvað er í gangi eiginlega. Íris Fríða mín elskulega stjúpdóttir að eilífu var að keppa á töltmóti á ís á lánshesti frá Bryndísi systur og náði þeim frábæra árangri um helgina á Hvanneyri að verða í 2. sæti í flokki FULLORÐINNA. Er þetta grín eða??? Enda þegar hún sjálf heyrði tilkynnt um úrslit í ungmennaflokki þá fannst henni vera missagt þar sem ekkert var minnst á hana. Þetta stenst náttúrulega engan veginn miðað við stelpulegt útlit stjúpmóðurinnar stoltu. Frábær pizzuveisla hjá Önnu vinkonu á föstudagskvöld, takk fyrir okkur Sl. helgi var algjör sporthelgi, farið á blakmót á Skaganum, keppt við ÍK A í 2. deild í blakinu þar sem við unnum í odda 16-14, s.s. spennandi leikur og loksins drifum við okkur á skíði ég, Ása vinkona, Björn Þór, krakkarnir og Helga vinkona Berglindar. Í rjómablíðunni sem lék við landann á laugardaginn í Skálafelli. Yndislegt. Alla vega þegar í ljós kom að Helga var í lagi eftir flugferð beint á nefið eftir hraðabrun niður brekkuna, en mér var svolítið brugðið þegar ég sá skíðaverðina stumra yfir henni og tala í talstöðina um meiðslin hennar.  Hélt þeir væru að panta sjúkrabíl.  Sem betur fer var þetta ekki alvarlegt og hún jafnaði sig.  Svo fórum við Bryndís stóra systir með sængurgjöf til litla frænda í gær, var gaman að kíkja til þeirra, hann er svo vær og góður og yndislegur en eldri bróðirinn var eitt mesta kveisubarn sem sögur fara af og lífið dans á þyrnirósum. Vonum að stúfur litli eigi áframhaldandi góða magaflóru. Ilmur farinn að færast yfir húsið. Ég leyfði Berglindi Evu að spreyta sig á að baka kanilsnúða og eitthvað gerði hún þetta í öfugri röð blessunin en þeir líta nú bara vel út samt :) Metum börnin okkar, gefum þeim tíma og ást, þau stækka allt of hratt eins og dæmin sanna


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband