Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008

Lofthræðsla

er eitthvað sem hefur hrjáð mig um langa hríð.  Held að einhver jafnvægisskynpunktur sé brenglaður í hausnum á mér.  Þessi tilfinning er eitthvað sem sumir geta alls ekki skilið.  Ég man t.d. þegar ég hékk utan í klettabeltinu í Esjunni á niðurleið og hélt að mín síðasta stund væri upp runnin (í alvörunni) hvað einn ferðafélagi minn var pirraður á mér og fannst þetta óþarfa athyglissýki og væl.  Svo man ég af því ég vil alltaf ögra mér og bjóða þessaðri bannsettri lofthræðslu byrginn þegar ég hugðist ganga upp á hæsta fjall  Vestfjarða í hópi þriggja karla og eins 8 ára pjakks.  Skemmst er frá því að segja að sá stutti fór alla leið, meðan ég skreið á fjórum fótum, titrandi og sífrandi alein til baka þá leið sem ég þó hafði getað haft mig í að fara skíthrædd.  Eitt er þó frekar undarlegt og það er það að ég get farið í hvaða tryllitæki sem er í tívolíum, fallturna, parísarhjól, fór í Freak out í Danmörku í fyrra fyrir þá sem þekkja það.  Ein sem var svo óheppin að fara með mér í þá ferð kom úr henni útæld.  Hvað ætli valdi þessu????  Spyr sá sem ekki veit.  Kveikjan að þessari upprifjun var þetta myndband sem ég rakst á á netinu. http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=54&ba=leita&leit=laus&id=2493 Finnst með ólíkindum hvað sessunautur hennar getur endalaust hlegið í einhverju móðursýkiskasti meðan aumingja barnið engist um við hlið hennar.  Á ekki orð.

Ég lenti í svona lífsreynslu fyrir þremur árum á Spáni.  Var með Berglindi Evu í rússibana þar sem ég spennti mig fyrst og átti svo að spenna hana fyrir framan mig, nema sylgjan passaði ekki í og ekki séns að festa hana, bévítans tækið rauk af stað og ég mátti halda í hana dauðahaldi alla ferðina.  Þetta var hrææææææææðileg upplifun.

Ég er annars búin að pakka yngri kynslóðinni og sjálfri mér í töskur hnýta alla lausa enda varðandi pössun þar sem ég legg land undir fót á morgun og flýg vestur á Ísafjörð. Vonandi gerum við blaksystur í Þrótti góða ferð og náum ágætis árangri í 1. deildinni til að réttlæta það að setja börnin á annarra hendur í fjóra daga. Framundan er s.s. húsmæðraorlof í skemmtilegum félagsskap með smá sprikli inn á milli, hlakka svo mikið til. Öllum liðum var úthlutað landi sem er þema liðsins. Við verðum pólverjar. Spurning hvernig við spilum úr því. Ég alla vega lærði tvær setningar hjá pólskum nemendum mínum í morgun. Góðan dag og takk fyrir leikinn. Skrifaði það náttúrulega niður eftir framburði. Eigið góðan dag (Tjen dobry)


Gleðilegt sumar

Mikið er nú gott að sólin, fríið og ferðalögin eru framundan. Vináttan er merkilegt fyrirbæri, vinir koma og fara, sumum tengist maður snemma á lífsleiðinni, öðrum seint. Þeir seigustu standa með þér í gegnum þykkt og þunnt í lífsins ólgusjó. Í önnum nútímans hittir maður suma ekki eins oft og maður vildi. Þetta er það mikilvægasta af öllu í lífinu að eiga góða vini og fjölskyldu. Ein af þeim konum sem ég tengdist seint á lífsleiðinni og ég tel meðal minna allra bestu vina átti afmæli í gær sumardaginn fyrsta, enda ber hún með sér birtu eins og sumarkoman. Fer í hóf til hennar í kvöld og verð hófsöm að vanda Heart

Vona að ég eigi smá orkuforða eftir í löppunum eftir að hafa dansað samfleytt í rúma fjóra tíma í afmælinu á miðvikudag í  Gullhömrum, sem fær aftur fimm stjörnur fyrir matinn (smáréttina) (slurp slurp).  Lá með lappirnar upp í loft í gær með bólgna löpp eftir dansinn, sem tók sig upp eftir leiðinda dettigang fyrir rúmri viku.  Verð að fara varlega í dansinn í kvöld Cool  Enda langþráð blakmót framundan.

Þó ég sé oftast feministísk í hugsun eða öllu heldur ákaflega jafnréttissinnuð, ekki annað öðru framar.  Þá ætla ég að leyfa mér að vera ekki á móti fegurðarsamkeppnum, það er enginn neyddur til að taka þátt í þeim.  Vona að Mosfellsbæingurinn hún Jana Katrín (hinn helmingurinn af Írisi) beri sigur úr býtum í ungfrú Reykjavík í kvöld Halo

Ef ekki, er hún alltaf jafn sæt í okkar huga :)

Gætið hófs 


Skemmtileg sýning

Reiðhjólið góða kom að góðum notum um helgina.  Á laugardag fór ég s.s. hjólandi niður á Kjarvalsstaði að skoða útskriftarsýningu Listaháskólanema ásamt Heiðu frænku minni.  Þar bar að líta margvíslega mjög flotta hönnun, lampa sem skipta litum eftir því hvernig lýst er upp undir þá, krúttlegar prjónagúmmítúttur og lifandi skartgripi sem þarf að vökva Smile  Mjög skemmtileg sýning og áhrifaríkt listaverk þar sem ófrískri konu er varpað í botninn á baðkari og hún virðist liggja á botninum í vatni og hreyfir sig en þetta er allt í plati.  Sjón er sögu ríkari.  Sýningin stendur í nokkra daga í viðbót, til mánaðamóta.  Svo belgdum við magann út á Reykjavík pizza company, alltaf jafn góðar pizzurnar þar áður en hjólreiðaferð mín lá áfram með viðkomu hjá Brieti á leiðinni heim í kaffi.  Fékk hana með mér í bæinn á sunnudag að hjálpa mér að kaupa föt fyrir þrjú skröll framundan.  Mjög gott að fá aðstoð í svoleiðis málum og hitti svo Eyrúnu Hörpu mína og Torfa.

Ég fer í tvö afmæli í þessari viku á miðvikudag og föstudag þar sem vinafólk skríður yfir á fimmtugsaldurinn, tölti á tónleika í kvöld í Bústaðakirkju að hlusta á Léttsveitina syngja og hana mömmu mína.  Þannig að ætli markmiðið á sumardaginn fyrsta verði ekki bara að gera ekki neitt nema njóta dagsins með börnunum mínum. 

Ég fór í ofnæmispróf í morgun og sem betur fer er það ekki Sómi krútt sem er búinn að valda mér hnerrum, hálsryki og nefstíflu, heldur bara einhverjar Árbæjarskólaveirur.  Þungu fargi af öllum létt á heimilinu. 

 Sómi  

 


I wish

Flott mynd af fallegri konu hér  fyrir neðan.  Má ég frekar biðja um svona stjörnur en þær sem eru mest í blöðunum í dag.  Það er að vísu örugglega fullt af frambærilegum stjörnum með hausinn í lagi en af hverju er eftirsóknarverðast að flytja fréttir af ungum konum hálfsturluðum af dópneyslu.  Ég fer ekki einu sinni út í vinsælustu poppmyndböndin og dillibossana.  Maður situr uppi með þetta sem fyrirmyndir fyrir ungt fólk í dag.  Hver t.d. vissi haus eða sporð á Pete Doherty og hverjum er ekki sama þótt hann sofi hjá Kate Moss.  Ég bara er ekki að skilja þennan fréttaflutning. 

En fyrst maður er að tala um fyrirmyndir, þá væri ekki leiðinlegt að líta út eins og Audrey Hepburn, geta skrifað barnabækur eins og Astrid Lindgren, sungið eins og Whitney Houston á gullaldarárum hennar og málað eins og Renoir en hann sér mér fyrir myndunum hér uppi til vinstri.  Sé mig þannig fyrir mér í næsta lífi í hitabeltisloftslagi við sjávarröndina með kokkteil í hendi. 

audrey_hepburn

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Maður má nú láta sig dreyma í íslenskum ísköldum raunveruleika, kennaralaunum, kreppu, einkavinaklíkuþjóðfélagi og kuldatíð.

CoolGrin


Bíóveislur

Við Rakel María dóttir mín höfðum kósíkvöld á föstudagskvöldið og buðum Maríu Gyðu frænku minni að koma til okkar og horfa með okkur á mynd sem mér hafði fundist svo spennandi þegar ég las aftan á hulstrið. Þetta átti að vera þvílík spennumynd um konu sem hittir mann sem býður henni í heimsókn í bátinn sinn. Hún líður útaf og sofnar og uppgötvar þegar hún vaknar að þau eru komin á siglingu. Þau sigla út á eyju og hún áttar sig á þegar á líður að hann hefur rænt henni. Svo héldum við að þetta væri svaka flóttamynd. Við gláptum á þvílíkt spenntar en eitthvað var tækið leiðinlegt við okkur svo við þurftum að spóla yfir einn kaflann. Við gátum svo horft á hann í restina og sáum þá að við höfðum misst af þessum mest ,,spennandi kafla". Karlinn sem rændi henni drepst (hún drepur hann næstum því óvart) og hún fær þráhyggju, geymir hann í frystikistu og spjallar reglulega við hann. Veruleiki og ímyndun í bland.  Svo vill hún bara alls ekki láta bjarga sér af eyðieyjunni þegar hún fær kost á því, hálfdrepur bjargvætt sinn og það toppar fáránleikann þegar hún giftist honum í lokin (auðvitað ófrísk eftir hinn) og sér þann látna útundan sér allan brúðkaupsvalsinn og brosir leyndardómsfull.  Það er skemmst frá því að segja að spennumyndin var orðin að absúrd gamanmynd og við vorum að tapa okkur í krampakasti yfir fáránleikanum, fengum algjört hláturskast. Þessi ágæta gamanmynd heitir Perfect Strangers. 

Svo dreif ég mig loks að sjá Flugdrekahlauparann og dró Önnu Lilju vinkonu með mér. Ég las bókina og hún er ein af mínum uppáhalds. Svo áhrifarík og leikur á tilfinningaskalann allan. Ég var sem steinrunnin yfir myndinni allan tímann, tárin runnu í stríðum straumum. Algjör unun að horfa á þessa mynd þó hún sé erfið.  Óður um vináttu og tryggð og gaman að skyggnast inn í svona ólíkan menningarheim.  Geri ekki upp á milli myndar og bókar.  Ég gerði mér ekki miklar væntingar því manni finnst oftast bókin betri.  En þarna finnst mér þeim takast alveg sérstaklega vel upp.  

the+kite+runner_855_18380299_0_0_7008355_300

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Best að ég tjái mig sem minnst um blakmótið á Selfossi í gær, það var engin frægðarför.  Hins vegar styttu litli státni frændi minn, stóri bróðir hans og Rannveig mágkona mér stundir í dag og komu meira að segja með skonsugerðarefni með sér sem snarað var á pönnu. 

Sæl að sinni 


kímni

Sveinn Ingi heitir nýjasta viðbótin í fjölskyldunni. Hann er þó ekki enn eitt gæludýrið heldur kærastinn hennar Rakelar Maríu. Hann sýndi syni mínum eftirfarandi myndbút á kvikmynd.is um daginn og síðan biður hann oft um að sjá karlana með engar hendur. Okkur finnst þetta frekar skondið og ég vona að þetta nái að lyfta alla vega öðru munnvikinu eða báðum hjá ykkur líka.

http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=0&ba=leita&leit=Purple%20&id=5743


Myndagátur


 Ég ætla að leggja fyrir ykkur myndagátur í dag.  Hér er sú fyrsta.  Leitað er að persónum (eina þarf að þýða úr ensku yfir á íslensku):

12_56_4---Iris_web

  

 

 

 

 

19817

 

 

 

 

 

Hér kemur svo næsta 

rachelgreenfe3

 

 

 

 

oremus

 

 

 

 

 

 

Einhver búinn að fatta?  Hér kemur ein enn:

Wahlbergs%20Eagle%20268050

 

 

 

 

 

  

full_moon_small

 

 

 

 

Og sú síðasta:

CliffFace2

 

 

 

Most%20upstream%20FD

 

 

 

 adam-eve-snake

 

 

 

 

 

 

 Þetta er vonandi komið hjá ykkur.  Lausnin verður birt á næstunni.

Helgin hjá mér hefur nýst all svakalega vel og margt sem ég afrekaði:

Að pirra mig út í hvað menn sleppa vel með að nota konurnar sínar fyrir boxpúða

Briet og ég skunduðum í göngutúr um hverfið mitt í gær

Ég fór í góðan hjólatúr á nýja hjólinu 

Að fara í innflutningspartý 

Ég bakaði lummur til heiðurs Önnu vinkonu sem kom í heimsókn í dag

Að verða íslandsmeistari í 2. deild í blaki 

Að fara með ruslahrúguna frá páskatiltektinni í sorpu

Að vinna með stallsystur minni henni Aðalheiði í skólanum í 6 tíma í gær

Að fara yfir tæplega 100 próf hér heima hjá mér

Að þvo og ryksuga bílinn minn

Setti inn nýjar myndir á síðuna mína 

svo eitthvað sé talið en ég hef þetta ekki lengra :)   

Endilega ekki vera feimin að kvitta fyrir innlit, gaman að sjá hverjir droppa við.

kær kveðja frá Erilbæ 


Hringrásin

Já, hvernig hann sonur minn áttaði sig á hringrás líkamans veit ég ekki en við áttum skemmtilegt samtal þegar ég fór niður í Glitni í Mjódd í morgun að stússa í peningamálunum.  Ég keypti handa honum forláta bílamyndabolta í Toy'sRUs í gær þegar Berglind Eva var að velja sér dót fyrir afmælispeningana sína.  Við vorum að tala um boltann og ég sagði að við yrðum að passa að Sómi nagaði hann ekki.  Nei mamma, hann nagar ekki boltann var svarið sem ég fékk.  Þá sagði ég :,, hann Sómi nagar nú svo margt og svarið sem ég fékk um hæl var.  Nei mamma, þá kúkar hann bara bolta.  Mér fannst þetta ekkert smá fyndið, vissi ekki að ungi maðurinn 3ja og hálfs árs hefði vitneskju um þennan feril sem maturinn fer í gegnum líkamann.  Svo bætti hann um betur þegar við vorum komin út í bíl og setti móðurina á gat þegar hann sagði:  Mamma, förum í búðina þar sem blómin og trén eru.  Hún er við hliðina á bankanum (s.s. Garðheimar).  Nota bene, ég hef ekki farið í Garðheima í háa herrans tíð og fer þangað mjög sjaldan. 

Annars verslaði ég mér hjólhest áðan og hugsa mér gott til glóðarinnar að hjóla út um allt í nágrenni nýja heimilisins, um Elliðaárdalinn, Fossvoginn, niður í Nauthólsvík, í Laugardalinn og bara út um allt.  Ég keypti rest (2007 árgerð) af hjóli í Útilíf á 30% afslætti og þóttist ansi góð að sleppa með 18.000 rúmar í nýtt hjól og í uppáhaldslitnum (bláum) meira að segja.  Þannig að ef einhver er í heilsuhugleiðingum og vantar nýjan fótaknúinn fák þá vitið þið af þessu.

Yfir og út (að hjóla :) )


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband