Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Annasamt

Ég var s.s. að rakna úr rotinu eftir að leggja mig um miðjan daginn á laugardegi.  Ástæðan: þemavika í skólanum, æfingar á leikriti sem ég skrifaði til að sýna sögu skólans með 20 ára millibili og þar sem hver nemandi var með hlutverk.  Skólinn á 40 ára afmæli og það er búið að vera húllumhæ í skólanum alla vikuna, mjög gaman, Páll Óskar kom og söng fyrir okkur á fimmtudaginn og var æðislegur, eins og hann er nú alltaf.  Núna áðan var s.s. afraksturinn sýndur gestum og gangandi, sýningaratriði, grillaðar pilsur og heimabakstur úr skólanum.  Ég held að starfsfólk og kennarar hafi flestallir skriðið heim í flet, frekar lúnir en ánægðir með frábæra uppskeru.  Svo ætlar skólinn að gera vel við okkur  í kvöld í mat og drykk svo honum fyrirgefst nú tilstandið Wizard Enda var frábært að sjá hvað krakkarnir stóðu sig vel, alveg fyrirhafnarinnar virði.

Við blaksystur í Þrótti hittumst á fimmtudag og grilluðum í sumarbústað við Hafravatn, frábæran mat.  Við færum létt með að reka hágæða veitingastað með glans í mat og drykk ef við tækjum saman.  þvílíkt gourmet (ég get nú ekki eignað mér heiðurinn en ég átti bara að koma með ís og rjóma : )

Svo var útskriftarveisla í gær hjá Stefáni frænda mínum.

Er búin að fá Brieti vinkonu með mér í fjallgöngu á morgun til að reyna að vega upp á móti veisluföngunum. 

Þetta verða bara einföld dagbókarskrif í þetta sinni.  Annirnar leyfa ekki djúpar pælingar til að setja hér inn - í bili.  Ljúffengur matur bíður á hótel Loftleiðum.  Farin að gera mig fína. 

the-beauty-shop-cover-screen


Stikilsberja-Finnur

Nemendur mínir í 6. bekk í ensku lásu bók um Tom Sawyer og hans félaga, þar fremstan í flokki Stikilsberja-Finn, þann hraðlygna 19. aldar villing.  Ég leigði spólu handa þeim um ævintýri hans og við höfum verið að horfa á hana í vikunni.  Krakkarnir höfðu mjög gaman af því að fylgjast með flótta og raunum hans og þrælsins Jims.  Þetta vakti upp minningar mínar, annars vegar um þættina Rætur sem gaman væri að ná endursýningum á og hins vegar um bókina um kofa Tómasar frænda sem ég las fyrir all mörgum árum.  Bókin sú var rituð fyrir 156 árum síðan og seldist þá þegar í milljónum eintaka.  Hún þótti átakanleg lýsing á hlutskipti þræla og varð til þess að upp úr sauð milli andstæðinga og fylgjenda þrælahalds sem leiddi til borgarastyrjaldar.  Í kjölfarið var svo þrælahald afnumið, enda alveg hreint ótrúlegt að það hafi eitt sinn viðgengist og þótt eðlilegt að versla með fólk eins og hvern annað varning.   Þegar Lincoln forseti hitti höfund bókarinnar Harriet Stowe, á hann að hafa sagt við hana: ,,Ert þú þessi litla kona sem komst af stað þessu stóra stríði?"  Eflaust má finna eitthvað að þessum gamla ritstíl í dag en þetta er skyldulesning engu að síður í sögulegu samhengi.

Að öðru leiti en að komast í sagnabrunn Mark Twain's enn á ný hefur þessi vika náttúrulega haft upp á heilmikið að bjóða.  Alveg hreint snilldarlegan fótboltaleik þar sem himnarnir grétu með Chelsea mönnum, þvílík dramatík.  Og að auki frábæra frammistöðu okkar manna í Eurovision.  Mér hefur aldrei fundist þetta lag neitt æði, en flutningurinn, í gær, gleðin og fagmennskan sem skein í gegn skilaði því að ég fékk gæsahúð á kafla og hlakka bara til að fá að sjá þau aftur annað kvöld.  Mér er slétt sama um sæti, það á bara að líta a þetta sem eina stóra skemmtidagskrá (sletta show) til að hafa gaman að, þó manni finnist svo sem ekkert öll lögin neitt frábær, þá er bara að fara fram og vaska upp á meðan en við Anna vinkona ætlum að deila stundinni með börnum okkar og grilluðum kjúklingi annað kvöld.

Hér er mynd sem sýnir hvað það er gaman að sumarið sé aaaaalveg að bresta á.  Það væri gaman að skreppa austur á Egilsstaði um helgina í sólina og 27 stiga hitann sem er spáð þar. Cool

kálfar að vori

 

 

 

 

 

 

 

 

Önnur sæt, tekin við gamla húsið í Mosó

 Ökuþór

 

 

 


Fjölskrúðugt dýralíf

er eitthvað sem hefur fylgt mér frá blautu barnsbeini. Ég hef átt kanínur, naggrísi, fiska, hest, kött og nú síðast hund. Þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg, sumum tengist maður órjúfanlegum böndum en önnur eru miður skemmtilegur félagsskapur, bíta og klóra. Flóran jafn misjöfn þar eins og hjá mannfólkinu. Hins vegar er ég búin að heyra af dýralífi hér við Réttarholtsveginn sem ég veit ekki alveg hvort ég kann að meta, en þar ku hluti af rottustofni Íslands vera á sveimi. Sick

Björgin sem vinnur við að aka um götur bæjarins hefur séð tvær á sveimi nýverið, reyndar í hæfilegri fjarlægð héðan, aðra á Vesturgötunni og hina fyrir utan Baðhúsið. Vona að það sé ekki faraldur í uppsiglingu.

Ég á annars son sem er verðugur kandidat í Stasi, FBI eða bara hvaða leyniþjónustu sem er.  Hann þjáist alveg örugglega ekki af athyglisbresti. Hann nemur aaaaalllllt sem sagt er þó maður haldi að hann sé einn að leik víðs fjarri í eigin heimi.
Rakel María skyldi eftir opið út á pall í gær í dágóðan tíma og ég svona meira í stríðni sagði við hana. Af hverju er opið út, ætlarðu að hleypa inn flugunum og rottunum, þar sem það var í fréttum nýverið að þær hefðu sést í nágrenninu.

Næsta korterið fór í að róa soninn niður og sannfæra hann um að hér inni væri engar slíkar að finna.

Dýrin í öllum sínum myndum, rottur eða ekki, eru náttúrulega dýrðleg fjölbreytt, litskrúðug og skemmtileg sköpun þess sem alls skapaði.
Umgengni við dýrin auðgar lífið og gefur svo mikið af sér.

Ef þið farið inn á þessa síðu sjáið þið valið á 10 furðulegustu dýrum veraldar: http://www.youtube.com/watch?v=TCDv3jU-VgA
 
Fór annars í heimsókn í gær og frétti að það er jafnvel von á yndislegum litlum Beagle hnoðrum um miðjan júlí. Kannski fæ ég þá í afmælisgjöf, hver veit Smile
 
index


Prófaflóð

Þá eru mínir elskulegu nemendur að þreyta próf í hinum ýmsustu greinum og prófabunkinn á vinnuborðinu hefur bara stækkað og stækkað og varð að risastjóru fjalli á endanum. Sem betur fer eru 3 sérstakir prófadagar þar sem nemendur eru bara í prófi og fara svo heim. Þá getur maður sest við og ég hætti á miðvikudag í vinnunni klukkan sex og í gær klukkan fjögur eftir að hafa setið í akkorði allan daginn og hef varla farið í kaffi. Bæði verið að semja próf og fara yfir. Ég þakka mínum sæla fyrir að þetta lagðist ekki ofan á venjulega skóladaga. Þá veit ég hvernig helgin mín hefði farið. Fyrir lítið býst ég við. Ég man eftir einni svona vinnuhelgi þegar ég var að kenna unglingum í gagnfræðaskóla. Þá átti kona sem er mér mjög kær í hjartanu níræðisafmæli norðaustur í Þistilfirði og af því varð ég að missa vegna vinnunnar. Þetta varð hennar síðasta stórafmæli. Ég er ennþá sár yfir að hafa ekki komist. Ég var búin að vera með próf í ensku hjá 167 nemendum mán. til mið. Það eru aðeins tæplega 1000 blaðsíður að fara yfir. Kenna fulla kennslu fim. og fös. og mátti gjöra svo vel að skila öllu yfirförnu og vera búin a setja inn kennaraeinkunnir og skila herlegheitunum á mánudagsmorgni. Eftir þennan vetur tók ég mér frí frá kennslunni í 1 ár. En þrátt fyrir allt er þetta starf mjög gefandi og getur verið svo skemmtilegt og mér fer betur að vinna í erli en í skrifstofuvinnunni sem átti sína dauðu punkta. Það átti ekki við mig að sitja með hendur í skauti svo maður skilaði sér til baka, í bili alla vega.

Vona að mér fyrirgefist að birta svör nemenda af prófum fyrir mörgum árum síðan, ekki núverandi nemendur sem sagt og enginn veit hver átti hlut að máli.

Spurt var: Hver sagði út vil ek og af hverju? Svar: Snorri Sturluson þegar það átti að brenna hann inni.

Spurt var um dýraflokkana. Svar: fiskar, froskar, fuglar, spendýr, hryggdýr og hugleysingjar :)

Skólinn sem ég starfa við á merkisafmæli, 40 ára, við erum s.s. jafngömul og verður heil afmælisvika núna í lok maí og mikið að hlakka til.

Á morgun er sumarhátíð í leikskólanum hjá prinsinum, pylsupartý og tilheyrandi. Gleði og gaman


Loksins frí í augsýn

Síðasta sumar hjá mér og mínum verður náttúrulega lengi í minnum haft. Við bjuggum í ferðatöskum allt sumarið og ferðuðumst milli heimila hugulsams vinafólks. Vissulega frábær vinargreiði en þetta er náttúrulega ekki beinlínis eins og að vera í fríi þó ég hafi verið í fríi allt síðasta sumar. Þannig að ég horfi með svo mikilli eftirvæntingu til komandi sumars að njóta þess að vera hér heima að dunda við heimilið og bara hafa það gott. Grillið var tekið í notkun í dag, fengum hele familien í grill til okkar, svo er ég búin að vera alla helgina að skrapa handriðið hér fyrir utan því það var svo ryðgað og ógeðslegt og tók ekki fallega á móti fólki. Ég ætla að nota þetta fallega kvöld í að mála eina umferð :)
Búin að fara hjólandi út um allt, til Rannveigar og co., í frábæra kökuveislu til Önnu, Andra og Kára og út að borða með Björgvini og yngri börnunum á Aski í tilefni afmælis bæði hans og Sóma, en þeir eru fæddir með akkúrat 40 ára millibili, þann 11. Svei mér það er eins og þessi helgi hafi verið heilt sumarfrí. Greinilega mikið að hlakka til.

Á móti ykkur tekur vonandi fallegt grámálað handrið næst þegar þið kíkið við. (Um leið og ég var búin að skrifa þetta fór að rigna :) Gengur betur næst.

Megi geislar sólar ylja ykkur um vanga og í sinni.

Sæl að sinni.


Fyrirmenni á ferð

Það dugði náttúrulega ekkert minna en lúxus bankastjóraíbúð í vetrarríkinu á Ísafirði undir blaklið Þróttar Reykjavík á öldungamóti.  Þvílíkt gaman og þvílík skemmtun og ekki skemmdi fyrir að við náðum að krækja okkur í pening, þ.e. þriðja sætið í 1. deildinni eftir að hafa haldið heillengi að við hefðum lent í fjórða sæti.  Það var extra gaman.  Líka sérlega gaman að vera fyrir vestan og ná aðeins að hitta vestfjarðagengið.  Lokahófið var frábært og ánægðar konur sem flugu heim um kvöldmat á sunnudeginum en fyrr var ekki flogið vegna óhagstæðrar vindáttar en við áttum að fara heim um hádegi.  Sunnanfólk var látið ganga fyrir en þeir sem ætluðu norður eða austur máttu bíða til morguns.

Það var annars fyrir 17 árum síðan að hún Rakel María mín leit fyrst dagsins ljós nákvæmlega í dag.  Afmælisdagurinn runninn upp.  Hún og kærastinn ætla út að borða í tilefni dagsins en spurning hvenær við getum grillað fyrir familíuna eða gert eitthvað sniðugt.  

Ein frænka mín er mjög líklega að fara að eignast barn í dag.  Frétti í gærkvöldi að hún væri komin af stað og verður spennandi að sjá hvort kynið er og hvort það muni eiga afmæli þann 8.

happy_birthday


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband