Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ljótur leikur í fallegu veðri

Alveg ömurlegur þessi ósiður sem alltaf hefur viðgengist að geta ekki séð eigur annarra í friði.  Við sonur minn gerðum okkur ferð í Laugardalinn í góða veðrinu í gær á hjólfáknum mínum góða sem ég fjárfesti í í vor.  Leið okkar lá að fyrstu í húsdýragarðinn til að skoða ferfætlinga, fiðurfénað og seli að leik.   Þegar ég var að renna að húsdýragarðinum tók ég eftir manni sem gekk að einu hjólinu sem var fyrir utan garðinn og hjólaði af stað.  Mér fannst hann engan veginn líta út fyrir að vera gestur úr garðinum.  Hann var ekki með neitt barn með sér og ég hugsaði.  Ætli hann sé að stela hjólinu?  Þegar ég sté af hjólinu mínu til að ganga inn í garðinn tók ég eftir því að sonur minn var alveg steinsofnaður aftan á hjólinu mínu og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera við hann.  Ég hinkraði í smá stund og ákvað að leyfa honum alla vega að ná þessum 10 mínútum, korteri sem tekur fyrir mann að ná smá hvíld áður en ég myndi vekja hann.  Þá sé ég dreng sem ég kannaðist við úr Öskjuhlíðarskóla þar sem ég kenndi í nokkur ár.  Ég var ekki viss um að hann myndi eftir mér en hann heilsaði að fyrra bragði og þekkti mig alveg.  Hann leit ráðvilltur í kringum sig og ég sagði.  Ertu að leita að einhverju?  Já, hjólinu mínu.  Liturinn á því passaði alveg við hjólið sem ég hafði séð manninn taka af stað á nokkrum mínútum fyrr.  Ég varð svo reið.  Hann mátti ganga af stað í átt að tónleikunum reiðhjólslaus og ekki veit ég hvernig hann komst heim í Grafarvog.  Ég hugsaði stutthærða unga manninum á þrítugsaldri í ljósu hettupeysunni þegjandi þörfina.  Þetta var ekki óþroskaður krakki.  Ég ætla að reyna að hringja í einhverja á morgun sem væru fúsir að gefa nýtt hjól.  Ef þið eruð í samböndum og þekkið mann sem þekkir mann sem þekkir mann megið þið hjálpa mér og láta mig vita.  Netfang eru nöfnin mín tvö og simnet.is.

Annað er svo aðstaða dýranna í þessum blessaða húsdýragarði.  Þarna var ein gylta með átta grísi í alveg hroðalega lítilli stíu.  Svo fór að þegar aumingja grísamamman reyndi að leggjast niður þá lagðist hún ofan á einn grísinn, varla annað hægt, og hann hrein eins og stunginn grís.  Nú veit maður hvernig það hljómar.  Það var líka alveg ömurleg upplifun.  Lengi héldum við ég og einn pabbinn að hún lægi ofan á honum því hann grét í langan tíma og reyndum að stugga við henni en svo var ein stelpa þarna með tölu grísanna á hreinu og sagði að þeir væru þarna allir átta.  Vonandi verður gerð bragarbót á þessu. 

Það eru annars bara rólegir dagar og vel nýttir hér heima fyrir um helgina, kom að því.  Svoleiðis dagar eru nauðsyn líka.  Ætli hjólið hafi annars verið af þessarri sort og maðurinn misskilið eitthvað þegar hann las heitið?  Skamm bara.

450x450_mg07_villain 


Afmæli og fótbolti

Já það eru bara bráðum komin 20 ár síðan ég kynntist henni Írisi stjúpdóttur minni, en hún var bara tveggja ára rófuskott þegar ég sá hana í fyrsta sinn. Hún átti afmæli í gær og er orðin 22ja ára. Til hamingju sæta Írisin mín. Mér er enn í fersku minni fyrsta sinn er við hittumst og áttum samræðurnar um vínberið (smá einkahúmor) nicole_5_smfile

 

 

 

 

Við ætlum að sæta færis að fara út að borða á næstunni í tilefni þess en að sjálfsögðu er hún í einhverju hrossastússi á afmælisdaginn en eins og allir vita sem þekkja hana vel elskar hún dýrin af öllum stærðum og gerðum. Það er spurning hvar maður kemur í forgangsröðinni á eftir Storminum, Örinni, kettlingunum og páfagaukunum. Henni er þetta í blóð borið og þegar við áttum heima á Þingeyrinni forðum daga voru hennar bestu stundir að príla upp í fjall með prikin sín sem öll táknuðu glæsta fáka og báru höfðingleg nöfn. Hún las ekki mikið sér til ánægju, nema hestabækur. Ja ekki eru hún Bryndís systir blóðtengdar en svo sannarlega andlega skyldar á þessu sviði.

tallest-smallest-horse

 

 

 

 

 

 

 Hér er skemmtileg mynd af minnsta og stærsta hesti líklegast í the U.S. of A. Dálítill munur

Það eru annars allar þjóðirnar sem maður hélt með að detta út af EM. Tyrkirnir komast áfram á Tyrkjaráni endalaust og ganga svo af göflunum heima og skjóta út í loftið og senda samlanda sína á sjúkrahús. Við skulum bara rétt vona að þeir verði ekki Evrópumeistarar, það yrði rosalegt. Farið alla vega varlega ef þið eruð á leið til Tyrklands. Sem betur fer unnu Spánverjar sætan sigur á Ítölum í gær, í fjórðu tilraun, en þeir hafa tapað þann 22. júní þrívegis í vítaspyrnukeppni á stórmóti en léttu bölvuninni í gær. Þá getur maður haldið með einhverjum. Kom í 4. tilraun hjá þeim á afmælisdeginum hennar Írisar en hún er líka 1/4 Spánverji svo það hlaut að koma að þessu (smá langlokuútúrdúr hjá mér) Vonandi fara þeir alla leið.

Gengum endilangan Elliðaárdalinn við Rannveig með pjakkana okkar upp í  Árbæ á föstudaginn. Alveg er yndislega fallegt að ganga um þennan dal og mér fannst þeir nú frekar duglegir að leggja þetta allt undir fót litlu stúfarnir en það gekk frekar hægt hjá þeim því það var svo margt að sjá og skoða í náttúrunni.

Framundan er nú bara meira strandblak, fórum í síðustu viku líka og að sjálfsögðu að mæta á völlinn á fimmtudag til að styðja íslensku landsliðsstelpurnar aftur en þær buðu upp á veislu um helgina eins og fótboltaáhugamenn vita. Svo er fyrirhugað saumógrill í Heiðmörk.

Farið varlega í umferðinni og á heiðum þar sem von er á ísbjörnum og eigið góða daga í sólinni.


Sólríkir sumardagar

Af óviðráðanlegum orsökum styttist ferð okkar í Munaðarnes og við ákváðum að dvelja bara um helgina. Komum heim á sunnudag til að mæta í grill með karli föður mínum, ömmu og afa og öllum. Erum búin að eiga mjög góða daga hér heima í góða veðrinu. Fórum á 17. júní í Árbæjarsafn með Bryndísi, Agli, mömmu og Viðari Darra. Við höfum oft eytt þjóðhátíðardeginum á safninu. Mér finnst það eitthvað svo viðeigandi að fagna þessum degi eins og komin aftur í gamla tíma. Berglind Eva klæddist þjóðbúningi sem amma mín heitin og nafna saumaði á mig. Það eru gjarnan skemmtilegar hliðarsýningar á safninu. Núna var hægt að sjá andstæðurnar diskó og pönk, herbergi frá þessum tíma, klæðnað, myndir og fróðleik. Diskómegin var svo komið ekta dansgólfið úr gamla Hollywood sem vakti upp gamlar minningar. Þar vann ég sem barstúlka og minn fyrrverandi eiginmaður sem dyravörður þegar við kynntumst forðum daga. Svo er þar leikfangasýning á gömlum leikföngum. Þegar við mættum var þjóðdansafélagið að byrja með sýningu og svo var öllum viðstöddum boðið í 2 hringdansa. Að sjálfsögðu var svo staldrað við í kaffihúsinu og snæddar pönnukökur með rjóma og sultu og flatbrauð með hangikjöti. Skolað niður með rjómakakói.  Svo gaman.

Í dag ætlum við að bruna í Hafnarfjörð sem er nú einhvern veginn ekki eins mikið mál og þegar við bjuggum í Mosó, en þá ætlaði allur dagurinn að fara í það. Heimsækja vinkonu mína Hjöddu með alla gullmolana sína og eiga góðar stundir saman í blíðunni.

Framundan er svo skyldumæting á kvennalandsliðsleikinn á laugardaginn. Ég hef oft mætt á leiki hjá þeim. Þær hafa verið að vinna svo góða sigra á undanförnum árum og gaman að fylgjast með þeim. Vona ég að áhrínsorð margra í fjölmiðlum undanfarið hafi þau áhrif að völlurinn verði fullur af eldheitum stuðningsmönnum. Ég læt mig ekki vanta.

Svo er fertugsafmæli hjá Brieti minni sem byrjar að leik loknum. Mikið fjör og mikil stemming framundan.

Yngri molarnir mínir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

916484011_111

 

 

 

 

 

 

 

 

 

ÁFRAM ÍSLAND 


Horfnar gersemar og munaður í uppsiglingu

Það er mér lífsins ómögulegt að muna hverjum ég lánaði eitt sinn þrjár eðalmyndbandsspólur frá stelpunum mínum. Við söknum þeirra nefnilega svolítið og vildum gjarnan fá þær aftur til áhorfs og skemmtunar. Ef einhver minna vina eða vandamanna kannast við að hafa þær í fórum sínum, þá megið þið endilega láta mig vita og ég nálgast þær svo við tækifæri.  Þessar myndir eru Balto, Sverðið í steininum og járnrisinn.  Einmitt tilvaldar fyrir pjakka sem eru alveg að verða fjögurra ára, svo ótrúlegt sem það hljómar nú. 

Já munaðurinn sem er í uppsiglingu er dvöl í sumarhúsi frá föstudegi með heitum potti á hinum dýrðlega stað Munaðarnesi eins og við gerðum líka í fyrra með Önnu, Andra og Kára, auk þess sem von er á einhverjum gestum til okkar.  Við erum náttúrulega rétt við þjóðveginn ef einhverjir eru á ferðinni í Borgarfirðinum, þá er bara að taka upp tólið og kaffisopi er vís.  Þarna eru tvær sætar myndir frá síðasta sumri.

 

 

 

 

 

 

 

 

Svo verður náttúrulega fylgst með Em sparksnillingunum og vonað að Portúgalir og annað hvort Spánverjar eða Hollendingar leiki til úrslita.  Það væri draumurinn. 

Smá bloggpása, alla vega til 20. júní.  Daginn sem við komum heim frá Munaðarnesi.

Þann dag fyrir 40 árum fæddust tvær af mínum allra bestu vinkonum, þær Eva Björk og Briet.  Önnur menntaskólavinkona og hin Kennóvinkona.  Báðar tvær með hjarta úr gulli, duglegar og flottar konur.

Um daginn þegar við blakvinkonurnar hittumst var ein góð kona í hópnum sem gaf okkur öllum litla bók sem heitir vinir.  Við skyldum allar opna bókina einhvers staðar og lesa það sem fyrir augu bar.

Mín lesning var svona:

Góð vinkona er eina manneskjan sem þú vilt að berji að dyrum hjá þér þegar þú ert illa kvefuð, með nefrennsli, hósta og hálsbólgu og ert ekki sjón að sjá.  Þú ert vís með að segja: ,, Í hamingju bænum ekki koma inn."  En þú vonar með sjálfri þér að hún segi:  ,,Enga vitleysu.  Upp í með þig aftur.  Ég hita tesopa." 


Matarsmekkur

tekur stórstígum breytingum ævina alla, það lærist svo lengi sem maður lifir og maður hefur nú bara nú þegar fengið úthlutað heilum 40 árum og er þakklátur fyrir. Þegar ég ólst upp og gekk í skóla var málið brauð með kavíar, leit ekki við osti, borða hann í bílförmum í dag. Ég var mikil kjötæta, kjöt var algjörlega málið. Þegar ég var 16 ára fór ég erlendis í mánuð með foreldrunum í Evrópureisu og það var oftar en ekki farið út að borða eins og gengur. Vínarsnitsel var mjög vinsælt í Mið-Evrópu og pantað oftar en ekki. Það endaði með því að ég þurfti að leita læknis í Austurríki. Þrátt fyrir illsára magaverkina þegar ég engdist um af kvölum man ég enn hvað læknirinn var hrikalega myndarlegur, eins og klipptur út úr Rauðu ástarsögunum. InLove  Næstu daga var mér skipað að borða þurrt brauð, vatn og epli þegar hinir sátu með veisluföngin. Sem sagt brasað kjöt í of miklum mæli er líklega ekki of hollt fyrir mann. Það gerðist aldrei að maður færi út að borða árin sem ég var milli 18 til að verða þrítug að manni dytti í hug að panta sér fiskrétt þegar maður fór út að borða. Blessunarlega hefur þetta líka breyst og ég veit ekki betra og léttara í maga en að fara á góóóða fiskistaði og panta sér fiskrétti. Tek það fram að ef ég er að fara á milli fína staði panta ég mér yfirleitt frekar kjöt en á gourmet fiskistöðum er fátt betra en góður fiskréttur. Inn fyrir mínar varir fóru ekki: laukur paprika hnetur ólífur Tvennt það síðastnefnda er enn á bannlista að vísu en laukur og paprika sleppa alveg saman við góðan mat. Nú grillar maður jafn oft yfir sumarið lax eins og kjöt og ég grillaði lax í gær fyrir vini mína Ásu og Björn Þór og krílin þeirra. Þau urðu hvumsa þegar þau sáu púðursykurinn (bara smá) ofan á laxinum en bara prófa, það er rosa gott (og smá hvítlaukssmjör líka). Fór svo í ís á eftir til snillinganna sem voru að vinna með mér í Öskjuhlíðarskóla, en við hittumst aðeins í gærkvöld.

Fyrir nokkrum vikum síðan fékk ég boð frá vinkonu minni um að verða vinur hennar á vefsvæðinu facebook.com. Ég samþykkti það fúslega en vissi ekkert út á hvað þetta gekk í fyrstu. Þar er hægt að leita uppi gamla vini/ættingja og hafa link inn á þeirra síður. Þar er svo hægt að sjá hvað þeir eru að gera, kíkja á myndir og senda skilaboð og jafnvel spjalla. Mér finnst þetta bara rosalega skemmtilegt og gaman væri að fá fleiri. Endilega kíkið á þetta ef þið eruð ekki þegar komin á facebook. Síðast í dag bankaði upp hjá mér gömul skólasystir úr M.R.

 BCcomputer1017

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ætla samt ekki að hætta að hafa face to face samskipti við fólk, síður en svo en þetta er bara skemmtileg viðbót.

Búin að skipta Renoir út í toppmyndinni fyrir ítalska snillinginn Botticelli, sem ég heimsótti í Flórens á Uffizi safninu í hitteð fyrra.  Mynd sem heitir Three graces. 

Sjáumst Smile


Farin til Bahama eyja

í huganum. Sól og sæla framundan, ég er viss um að sumarið verður gott. Það er stefnan að dvelja á pallinum í sumar í góða veðrinu, slaka á, njóta þess að eiga heimili og já kannski sletta smá málningu á pallinn. (minntist einhver á baðherbergi Sideways).  Já og svo ferðast eitthvað hér innanlands, í Munaðarnes, vestur á firði og kannski á humarhátíð.  

Búin að kveðja frábæra barnahópinn minn í skólanum - í bili alla vega - en ég verð alla vega með þau í ensku á næsta ári.

Á leið í átak í sumar með henni Aðalheiði, vinkonu minni úr skólanum. Hef alltaf hnussað og hrist hausinn yfir skrítnu liði sem fer í einhverjar líkamsræktarstöðvar yfir sumartímann. Nú verð ég ein af þessu undarlega fólki og ætla að fara í JSB hjá henni Írisi minni sætu. En ég ætla líka að labba og hjóla úti, alveg fullt. Nú skal skvapinu sagt stríð á hendur. þetta mun samt ekki breytast í átaksblogg en kannski drífur það mann áfram að opinbera sig. Hvur veit.

Svei mér þá, ég held barasta að Steven Spielberg hafi verið að gera myndina Close Encounters of the third kind um sjálfan sig, ef einhverjir muna eftir áráttu aðalsöguhetjunnar úr þeirri mynd. Fór á Indiana Jones í gær og myndin er mjög góð, fyndin og spennandi en je minn eini. Segi ekki meira fyrir þá sem eiga eftir að sjá hana.

Skammast mín ekki fyrir að segja frá því að mér fannst platan hans Michel Jackson Thriller algjört æði fyrir öllum þessum árum sem ótrúlegt er að liðin séu síðan hún kom út.

Mæli með þessu krúttlega myndbandi til að brosa út í annað:

http://www.youtube.com/watch?v=GweUjzhUwNw

Eigið góða daga í sólinni, alla vega í sinni

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband