Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008

Vestfirsk náttúra í allri sinni DÝRÐ

Ferðasagan okkar um Vestfirði.

Við lögðum þrjú í hann á sunnudagskvöldi, ég, Berglind Eva og Arnar Máni og var stefnan tekin alla leið á Strandirnar í fyrstu atrennu, norður fyrir Drangsnes þar sem fjölskylda Helgu vinkonu Berglindar á hús niðri á tanganum í Kaldbaksvík.  Húsið er kallað Svansbúð.  Þar sem Arnar Máni var með ljótan hósta fengum við að gista inni í húsi hjá þeim þó við værum með tjald meðferðis.  Á mánudeginum rúntuðum við svo enn norðar, alla leið í Norðurdal.  Við heimsóttum Djúpuvík þar sem er aflögð síldarverksmiðja, byggð árið 1933-34.  Afi hennar Helgu átti þessa verksmiðju svo það var skemmtileg tenging.  Svo héldum við áfram og áður en ég vissi af vorum við komin í Norðurdal og skoðuðum Krossaneslaug sem er sundlaug í fjöruborðinu.  Þar má skella sér ofan í og borga bara í bauk sem er til staðar.  Við gerðum það þó ekki.  Það skrítna var samt að ég var alltaf að bíða eftir að koma í Trékyllisvík.  Ók sem sagt þar fram hjá án þess að neitt skilti benti til að maður væri kominn þangað.  Svo sá ég mynd af Trékyllisvík inni í kaupfélaginu á Norðurfirði og sá hvaða kjarni það var.  Þar er Finnbogastaðaskóli, þar sem tvö börn eru víst í skóla og þar eru tvær kirkjur sitt hvoru megin við veginn, önnur gömul og hin ný en ekki eru mörg hús þarna eða mörg sóknarbörn svo þetta vakti furðu mína, ég á enn eftir að fá skýringu á þessu ef einhver veit.  Þetta var mjög skemmtilegt.  Kvöldinu eyddum við svo í Kaldbaksvík í fjöruferð og göngutúr um svæðið.  Daginn eftir var lagt í Djúpið og stefnan tekin á Ísafjörð þar sem ég ætlaði að hitta Bryndísi, Egil, Hrefnu og Viðar.  María var í Sviss að keppa fyrir Ísland í hrossamennsku og ekki með í för.  Við hittumst á bensínstöðinni í miðbænum og mér og okkur var boðið í ís þar sem ég átti afmæli þennan dag Tounge

Við gengum svo aðeins um Ísafjörð og ég sýndi þeim litla sæta húsið á Sólgötu 7, þar sem afi Ísak ólst upp en hann átti 12 systkini.  Að sögn bjó svo einnig önnur fjölskylda í þessu litla húsi.  Já, fólk mátti sætta sig við meiri þrengsli og minni flottheit en í dag, svo mikið er víst.  Svo fórum við að leiðinu hjá langömmu Bjarney Jónu og langafa Sigurgeiri.  Þegar þeirra minningu hafði verið sýnd virðing lá leiðin áfram í gegnum göngin til Suðureyrar og Flateyrar að berja þá staði augum.  Ég hef að vísu barið þá oft áður augum en ekki krílin mín tvö svo við fórum með þeim.  Það var nú hálf undarlegt að ferðast um alla Vestfirði, horfa aftur í bílinn og sjá tvö börn, þ.e. Berglindi og Arnar, en ekki þær sem áttu heima með okkur þar, Rakel og Írisi.  Þetta passaði eiginlega ekki við að vera á ferð á Vestfjörðum.  Mér leið eins og ég hefði selt börnin mín og keypt ný í staðinn.  Veit ég hljóma skringilega en þetta er ekki hægt að útskýra.  Þetta ágerðist því meira sem við nálguðumst Þingeyri en þar bjuggum við í þrjú ár (93-96) með stóru stelpurnar.  Við höfðum fengið boð um gistingu hjá Ninnu vinkonu sem við þáðum með þökkum.  (verð að viðurkenna að ég er ekki mikil tjaldkona).  Egill og Bryndís voru á tjaldstæðinu þar um nóttina.  Við Ninna rifjuðum upp gamla tíma og uppfærðum nýjar fréttir þessa góðu kvöldstund og ákveðið var að skella sér saman í sund morguninn eftir og þangað boðaði ég aðra Þingeyrska vinkonu mína Eyrúnu með tvíbbana sína 2ja ára Sigríði og Jóhann og Birtu Maríu.  Við spjölluðum í lauginni og eftir sundið kíkti ég svo á nýja húsið hennar Eyrúnar í smá kaffi áður en lagt var í hann áfram.  Þessum degi ætluðum við að eyða í að skoða Selárdal í Arnarfirði þar sem listamaðurinn með barnshjartað, Samúel Jónsson bjó og gerði einstæð listaverk og eftirminnileg að sjá.  Þetta var í 2. sinn sem ég kem þarna, síðast var allt að grotna niður og sorglegt um að litast, en þá var að verða vakning í þá átt að varðveita þessi verk og kominn söfnunarbaukur.  Nú þessum árum seinna hefur svo heilmikið gerst og mjög ánægjulegt að koma aftur og sjá breytinguna þó mér hafi fundist þessi akstur um Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði, gegnum Bíldudal og þarna út alveg rosalega seinfarin og aldrei ætla að taka enda. Sick  Að sjálfsögðu var stoppað aðeins við konung fossanna fyrir vestan Dynjanda, sem alltaf heillar mann upp úr skónum.  Við vorum svo á bakaleið frekar seint og byrjað að rigna svo gisting var pöntuð í svefnpokaplássi á Tálknafirði.  Morguninn eftir var ákveðið að setja upp tjöld/tjaldvagn þar og hafa það tilbúið að skríða í um kvöldið eftir að hafa eytt deginum á Rauðasandi og Látrabjargi.   Við byrjuðum á Rauðasandi og fengum fínasta veður þennan dag (undanfarna daga hafði verið smá úði flesta daga) þó mikil bleyta væri á sandinum.  Við fórum heillangt út sandinn og dunduðum okkur við listasmíðar og sullerí.  Yndislegt.  Svo var haldið áfram út þvottabrettisveginn út í Látrabjarg.  Sú lofthrædda lét sig nú hafa það að fara upp að fremsta bjarginu með soninn en lét sér það duga.  Mér dugar alveg að virða fyrir mér lundana spræku sem eru svo vel sjáanlegir þarna efst í bjarginu.  Svo passaði ég litlu pjakkana meðan þeir ólofthræddu hættu sér lengra í skoðunarferð.  Við alla vega sluppum í þetta sinn við alheimsþing viðbjóðslegra svartra flugna með rauðar hangandi lappir sem var þarna þegar ég var á ferð þarna fyrir þó nokkrum árum og fólk kom til baka með þær dauðar í skóm og buxnastrengjum og fuglahandbókin mín var nytsamleg í nýjum tilgangi sem barefli til að reyna að lemja frá sér eins margar og hægt var.  Þetta var algjör viðbjóður og okkur var sagt á Minjasafninu í Hnjóti af ábúendum þar þegar við lýstum atganginum fyrir fólki þar að þau hefðu aldrei lent í svona löguðu, búandi þarna í tugi ára.  Þetta hefur verið svona eins og óvelkominn lottóvinningur Bandit  Við sveigðum svo aðeins út af við Breiðuvík.  Mjög einangraður staður með leiðinlega sögu en mikið ofsalega er fallegt þarna.  Svo var haldið heim í tjaldið á Tálknafirði.  Daginn eftir dóluðum við okkur eftir Barðaströndinni, með langri viðkomu í eyðibýlinu að Fossi þar sem langamma og langafi bjuggu ásamt sjö börnum sínum, ömmu Gyðu þeirra á meðal og stefnan tekin á Reykhólasveit þar sem ættin hennar ætlaði einmitt að hittast á ættarmóti.  Mjög notalegt að eyða lunganum úr deginum þarna að dunda í fjörunni og leyfa krökkunum að sjá hvar þau bjuggu.  Við vorum komin á ættarmótið um kvöldmat.  Þessi ættarmót eru haldin á fjögurra ára fresti og alltaf jafn gaman, enda talað um að stytta jafnvel tímann á milli.  Á laugardeginum var okkur boðið að kíkja í fjósið á Stað þar sem Unnur systir ömmu bjó og fylgjast með þegar kýrnar voru mjólkaðar og heimalingunum, Vöndu, Pétri Pan og Skellibjöllu gefinn sopi.  Seinna um daginn var aftur hist þar og aðeins fjallað um hluta systkinanna og öllum boðið upp á selspik, ástarpunga, rúgbrauð, djús og fleira góðgæti.  Alveg frábært.  Á leiðinni þangað horfðum við mamma sem var með mér í bílnum á smyril neðan við veginn út að Stað en var svo sagt frá því að örn hefði sveimað hægra megin við veginn sem við tókum ekki eftir en var sagt frá þegar við vorum komin þangað :(.  Það hefði nú verið meira gaman að virða hann fyrir sér og sýna krökkunum.  Íris og Rakel fengu að sjá einn í návígi í Hestfirðinum forðum daga svo lengi verður  í minnum haft.  Hann sveif fyrst yfir sjávarborðinu við hliðina á bílnum og flaug svo upp fyrir framan bílinn okkar og á undan okkur  alllanga leið þar til hann settist í hlíðina fyrir ofan okkur og leyfði okkur að virða sig fyrir sér drjúga stund.  Flaug fyrst af stað þegar við ætluðum að fara út úr bílnum til að ná betri mynd.  Heppnin var ekki alveg með okkur núna Woundering

Svo var farið í gönguferð um Reykhóla með Gauta frænda sem leiðsögumann og farið í gönguferð sem við systur lengdum og gengum heillanga leið kringum vatn þarna niður frá um þýfi og mýri.  Sólin bakaði all svakalega á mér bringuna og veðrið lék við okkur.  Rakel María og Svenni komu svo og bættust í hópinn, en hún var að vinna alla vikuna.  Svo var ofgrillað læri og vangrillaðar kartöflur (smá humör Bryndís) um kvöldið og svo kvöldvaka með frásögnum af systkinunum á Fossi og fleiri skemmtiatriðum.  Arnar Máni var svo lukkulegur að finna þarna á ættarmótinu frænda með sama leiftrandi Leiftur McQueen áhugann og þeir dunduðu sér saman í bílaleik og ég vissi ekki af honum alla helgina.  Hann og Jón Ragnar Ernu- og Einarsson voru algjörar samlokur.  Við vorum svo bara róleg fram eftir degi á Reykhólum í góðu veðri og lögðum ekki af stað heim fyrr en um 4 leitið.  Við borðuðum saman í Hyrnunni og frábærri ferð lokið.

Í síðustu viku kíkti Briet í heimsókn og við heimsóttum Þóru vinkonu einn af frumbyggjunum í Úlfarsfellshverfinu.  Fórum í grill hjá systu og co á föstudag og með Rannveigu, Ísak og pjökkunum í langa gönguferð í Nauthólsvík í gær í góða, en vindasama veðrinu og grilluðum með þeim í gærkvöld.  Á morgun ætlum við Aðalheiður svo að taka upp þráðinn niðri í JSB og hreyfa skankana næstu vikur. 

Sjá má myndir frá Vestfjarðaferðalaginu í sérmerktu albúmi hér til hliðar.  Var svo að reyna að vista sem toppmynd sólarlag í hinum fagra Dýrafirði.  Veit fátt fegurra.

Þar til næst Heart 


Bloggleti

CIMG0274 Já eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Það eru orð að sönnu.

Ása vinkona bauð mér í mat í vikunni og ég lærði nýtt trikk hjá henni í grillsósugerð, lífræn mangójógúrt með olíu og smá kryddi var æðisleg með kjúklingnum. Hún er svo flink í eldhúsinu, er ein af þeim sem hefur þetta í sér. Svo kom Hjödda vinkona í heimsókn með ömmugullin sín. Deginum í dag ætlum við að eyða í faðmi ömmu minnar og afa í yndislega sumarbústaðnum þeirra á Þingvöllum, þaðan sem maður á margar dýrmætar æskuminningar af leik innan um blágresið, birkið, berjalyngið og allan villta gróðurinn á lóðinni þeirra. Mamma og Viðar Darri ætla með okkur en hún er að passa hann á meðan Bryndís systir, Íris og co. eru í mekka hestamanna á landsmóti í köflótta veðrinu sem þar hefur verið í vikunni. Ég heyrði í þeim í mestu rokhviðunum núna um daginn og sárfann til með þeim þar sem þau húktu inni í bíl. Hjá okkur á Þingvöllum í dag skein sól, þó ský hafi verið yfir Reykjavík.

Á morgun fær svo lítil hnáta nafn og við ætlum að mæta í skírn upp á Akranes. Þann dag er líka stór dagur hjá kunningjahjónum mínum sem hitta yngri dóttur sína í fyrsta sinni úti í Kína á morgun eftir langa bið. Hugurinn verður hjá þeim. Þetta hlýtur að vera alveg dásamleg upplifun, engu síðri en að fá hnoðrann sinn í fangið eftir níu mánaða meðgöngu.

Annars nennir maður ákaflega lítið að sinna netskrifum svona yfir hásumarið, var að reyna að setja inn myndir en það gekk ekki. Styttist í símamót í fótbolta (Berglind) og vestfjarðaferð með Bryndísi, Agli og börnum og verð eitthvað löt með færslur fyrr en að henni lokinni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband