Úr einu í annað

Sonurinn er loks byrjaður á leikskóla. Hann er nú ekkert of sáttur að fara þangað á morgnana enn sem komið er en það er víst í góðu um leið og maður labbar út um dyrnar. Það er svo þægilegt að leikskólinn er bara hinum megin við götuna. Fyrsta sinn sem ég þarf ekki að keyra barn í leikskóla. Finnst það þvílíkur lúxus. Annar skil ég bara ekkert í því hvað tíminn líður orðið hratt og börnin manns eru bara að hætta að vera börn, orðin menntskælingar. Ja sum, alla vega. Einhvern veginn finnst manni maður sjálfur ekkert eldast, en svo er maður nógu sleipur í reikningi til að vita betur. Einhverjar rúnir orðnar markaðar í speglinum líka sem koma manni niður á jörðina. En mér finnst reyndar þessi aldur hafa sinn sjarma alveg eins og þegar maður var yngri og mann langar ekkert endilega að spóla til baka.
Tvær vinkonur mínar fæddust þennan dag, 31. október fyrir 42 árum, árið 1965. Norður á Kópaskeri, yngstar í 8 systkina hóp. Hlýtur að vera gaman að vera í svona stórum systkinahópi, ja alla vega þegar allir eru komnir til vits og ára. En örugglega skrítið að eiga svona klón sem fylgir manni í gegnum lífið. Til hamingju systur (búin að senda þeim mail :) )
Maður er í skemmtilegu starfi sem kennari og líf manns markað af hinum ýmsu gullkornum sem koma úr munni eða penna nemenda.
Eitt sinn átti nemandi að telja upp alla dýraflokkana. Hún byrjaði svona Spendýr, Lindýr, Froskar, Fuglar, Hryggdýr og svo kom HUGLEYSINGJAR
Svo var ungur fallegur drengur sem var svo hugfanginn af brúnum augum samkennara míns og spurði andaktugur:
,,Sérðu allt brúnt?" Svo bætti hann við: ,,ef maður horfir nógu lengi í sólina fær maður þá brún augu?"
Svo brosir maður líka stundum út í annað þegar nemendur þýða í ensku. Þó nokkrir þýddu í síðasta prófi:
chess : ostur. Meira að segja sleipir nemendur í ensku.
Vetrarfrí, það þýðir að veturinn er framundan með sínum sjarma. ótrúlega stutt í jólin, undurfalleg vetrarbirtan, vonandi smá snjó annað slagið í fjöllum svo maður geti rifið fram GÖMLU skíðin og brúkað þau, farið á skauta o.s.frv. Blakið að komast á fullt. Veturinn er velkominn.

Loksins erum við í vetrarfríi á sama tíma ég og Berglind Eva en þegar hún var í skóla í Mosó og ég vann í Reykjavík hékk ég heima ein í vetrarfríi meðan hún var í skólanum og svo var ég að vinna meðan hún var í vetrarfríi. Alveg glatað. Ég er þá alla vega heima þó ég þurfi að eyða því í baðherbergið mitt í þetta sinn. Næst gerum við eitthvað skemmtilegt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband