Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Úr einu í annað

Sonurinn er loks byrjaður á leikskóla. Hann er nú ekkert of sáttur að fara þangað á morgnana enn sem komið er en það er víst í góðu um leið og maður labbar út um dyrnar. Það er svo þægilegt að leikskólinn er bara hinum megin við götuna. Fyrsta sinn sem ég þarf ekki að keyra barn í leikskóla. Finnst það þvílíkur lúxus. Annar skil ég bara ekkert í því hvað tíminn líður orðið hratt og börnin manns eru bara að hætta að vera börn, orðin menntskælingar. Ja sum, alla vega. Einhvern veginn finnst manni maður sjálfur ekkert eldast, en svo er maður nógu sleipur í reikningi til að vita betur. Einhverjar rúnir orðnar markaðar í speglinum líka sem koma manni niður á jörðina. En mér finnst reyndar þessi aldur hafa sinn sjarma alveg eins og þegar maður var yngri og mann langar ekkert endilega að spóla til baka.
Tvær vinkonur mínar fæddust þennan dag, 31. október fyrir 42 árum, árið 1965. Norður á Kópaskeri, yngstar í 8 systkina hóp. Hlýtur að vera gaman að vera í svona stórum systkinahópi, ja alla vega þegar allir eru komnir til vits og ára. En örugglega skrítið að eiga svona klón sem fylgir manni í gegnum lífið. Til hamingju systur (búin að senda þeim mail :) )
Maður er í skemmtilegu starfi sem kennari og líf manns markað af hinum ýmsu gullkornum sem koma úr munni eða penna nemenda.
Eitt sinn átti nemandi að telja upp alla dýraflokkana. Hún byrjaði svona Spendýr, Lindýr, Froskar, Fuglar, Hryggdýr og svo kom HUGLEYSINGJAR
Svo var ungur fallegur drengur sem var svo hugfanginn af brúnum augum samkennara míns og spurði andaktugur:
,,Sérðu allt brúnt?" Svo bætti hann við: ,,ef maður horfir nógu lengi í sólina fær maður þá brún augu?"
Svo brosir maður líka stundum út í annað þegar nemendur þýða í ensku. Þó nokkrir þýddu í síðasta prófi:
chess : ostur. Meira að segja sleipir nemendur í ensku.
Vetrarfrí, það þýðir að veturinn er framundan með sínum sjarma. ótrúlega stutt í jólin, undurfalleg vetrarbirtan, vonandi smá snjó annað slagið í fjöllum svo maður geti rifið fram GÖMLU skíðin og brúkað þau, farið á skauta o.s.frv. Blakið að komast á fullt. Veturinn er velkominn.

Loksins erum við í vetrarfríi á sama tíma ég og Berglind Eva en þegar hún var í skóla í Mosó og ég vann í Reykjavík hékk ég heima ein í vetrarfríi meðan hún var í skólanum og svo var ég að vinna meðan hún var í vetrarfríi. Alveg glatað. Ég er þá alla vega heima þó ég þurfi að eyða því í baðherbergið mitt í þetta sinn. Næst gerum við eitthvað skemmtilegt.


úps, gleymdi víst að peista :)

http://birdloversonly.blogspot.com/2007/09/may-i-have-this-dance.html

Algjör stuðbolti

 Fótafimur þessi.  Sonur minn rekur upp hrossahlátur þegar hann sér þennan.

W00t

Styttist í vetrarfrí fim. og fös. sem verður svo sem ekkert vetrarfrí, heldur smíðaskrapfrí á mínu margumtalaða, blessaða baðherbergi, en svo sem fínt að fá frí til þess :)

 

 


Helgarmas

Nú er ég að fara að verða Þróttari. Fór niður í íþróttahús til að láta gamla formanninn minn í Aftureldingu kvitta fyrir félagaskipti. Ekkert smá formlegt. Þar hitti ég Betuna mína úr Hólminum sem var að keppa í blaki og hún sagði. Já ert þú ekki orðin og svo hikstuðum við báðar. Ja, ekki er ég Grafarvogsbúi, Mosfellingur né Vesturbæingur. Hvað er ég eiginlega? Smáíbúðingur, ég bara spyr. Hvað heita þeir sem búa í Smáíbúðahverfinu. Linda mín og Eydís vinkona hennar kíktu í smá kaffi til mín og Eydís kom færandi hendi með fallega kertastjaka handa mér. Nýja íbúðin mín er að verða vel upplýst af fallegum hug. Yndislegt. Hana langar líka að finna sér íbúð hér nálægt mér, svo nú verð ég á útkikki fyrir tvær íbúðir af sitt hvorri stærðinni. en það er reyndar mjög lítið á sölu hér í kring. Linda kom með apabúning handa mér, er ekki halloween núna. Mig dauðlangaði á Halloween kvöld hjá enskukennarafélaginu í gærkvöld en við Anna Lilja vorum svo lengi að þvælast í bæjarstússi saman í gær að ég nennti ekki að fara aftur út. Svona bæjarferðir taka svo mikið á mig, finnst þær frekar leiðinlegar. Það sleppur betur þegar maður ferð með þjáningarsystur með sér og kíkir á kaffihús. Hins vegar kom Linda með apabúninginn af annarri ástæðu. Ég kom mér nefnilega í mikla klípu. Ég var orðin svo yfir mig hneyksluð á sjálfri mér hvað mér gekk illa að læra nöfnin á nemendum mínum í ensku, sem eru um 100 talsins. Ég fór í stórátak, þuldi nöfnin þeirra yfir fram og til baka og lofaði að ef ég yrði ekki búin að læra nöfnin þeirra á viku myndi ég mæta með bleikan hanakamb í skólann. Mér gekk þetta bara nokkuð vel. Nema, ég rugla stundum saman nöfnum á áþekkum nemendum milli bekkja. Það s.s. henti mig að ruglast í bekknum þar sem ég sagði þetta í einhverju bríaríi og var um leið krafin þess að mæta með bleika hanakambinn og það ætla ég sem sagt að gera. Veit ekki hvort ég toppa þetta með apabúning og bleikan hanakamb. Alla vega ætla nokkrir nemendur að mæta með myndavél. Ætli ég fái vinnu þarna áfram næsta vetur?

Ég ætla ekki að labba svona um skólann allan daginn en mæta svona í tímann hjá þeim, þess vegna er ég að reyna að sleppa vel með lítilli fyrirhöfn. Veit ekki alveg með bleikt hársprey og gel og eitthvað. En það kemur í ljós.

Var plötuð í bíó í kvöld af Þóru vinkonu minni og við skelltum okkur í Álfabakkann að sjá mynd með stórleikurunum Daniel Craig og Nicole Kidman, Invasion. Æ, hún var nú ekkert spes, einhverjar geimveirur og eltingarleikir.
Það kemur svona gúrkutímabil í bíóin fyrir jólin. Beðið með allar stórmyndir þar til jólin koma. Það var laugardagskvöld og ég hugsaði. Er nú runnið upp lokaskeið kvikmyndahúsanna. Það voru 10 hræður með okkur í sal 1 á nýrri mynd. Kom mér rosalega á óvart.

Á morgun er 11 ára afmælispartý fyrir Hrefnu Guðrúnu frænku mína í nýja húsinu hennar stóru systu. Alveg ææææðislega flott og vel hannað hús. Leitun að öðru eins verð ég að segja. Eins og hannað út úr mínu höfði.
Ekki þessi flati, nýi bárujárns, flísastíll. Þau fá alveg 10+ fyrir smekklegheit.

Að lokum: Hvað gerir hús að heimili?


Sigurvegari

Ætlaði alltaf að láta fylgja myndbandinu sem ég setti inn fyrir nokkrum dögum af Paul Potts að hann vann keppnina, Britain's got talent og litla sæta dúllan sem ég setti líka inn var með honum í úrslitum ásamt nokkrum fleirum.
Þegar hann birtist á skjánum hjá mér fyrst þegar ég sá þetta hugsaði ég strax. Æ æ á nú að fara að gera grín að þessum og hlæja að því hvað hann er bjánalegur. Nei nei, þá hefur ljóti andarunginn sig bara si svona til flugs og fer á háaloft og breytist í svan. Talandi um að vera háfleyg, en ég á stundum vanda til þess sjálf. Þetta er eiginlega svolítið karlkyns öskubuskuævintýri finnst mér. Vonandi gengur honum vel á söngferlinum. Sýnir svo glögglega hvað útlitið getur blekkt og hvað maður setur það á háan stall því miður.

Annars er ég eitthvað frekar slöpp og sloj í dag, er að fara yfir 50 enskupróf hér heima hjá mér. Svo eru önnur 50 á morgun svo það verður nóg að gera um helgina að fara yfir. Vona að ég hressist fyrir helgina, það eru afmæli á dagskránni og svo þarf ég að versla inn innflutningsgjöf líka og þakkargjöf fyrir yndislegu ömmuna og afann í Fossvoginum sem björguðu mér algjörlega þegar það leit út fyrir að ég hefði ekki pössun í tvo mánuði. Sem sagt nóg framundan og klipping á morgun þar að auki.

Ætla áfram í sófann að druslast og safna orku.


Varúð, leiðinlegt

Smá launaþras. Það urðu miklar umræður í dag á kennarastofunni í dag um okkar blessuðu launakjör. Samþykktir voru kjarasamningar undir pressu frá gerðardómi. Við erum á launaskrá sveitarfélaga til nokkurra ára og hvað hefur gerst. Við höfum dregist langt aftur úr þeim sem þiggja laun frá ríkinu. Það sem mér og fleirum þykir verst er að umræðunni er of oft snúið á þann veg að við séum ekki að sinna vinnunni okkar af því við erum ekki bundin í vinnunni til 4 alla daga. Okkur er sýnt vantraust og það á að skella á okkur stimpilklukku svo við séum ekki að ,,svindla" og þá á að hækka okkur í staðinn um eitthvað lítilræði. Ég verð nú bara að viðurkenna það að einn af bestu kostunum sem ég hef séð við þetta starf hefur að mörgu leiti verið sveigjanleikinn sérstaklega þegar maður hefur verið með lítil börn. Einu sinni fékk ég dagmömmu sem vann ekki nema ákveðið lengi yfir daginn. Þá var gott að geta tekið vinnuna með sér heim og unnið hana á kvöldin þegar börnin voru sofnuð, oft fór maður líka um helgar til að vinna upp. Þetta geri ég stundum núna, ég er stundum þreytt eftir vikuna og fer heim eftir kennslu upp úr tvö á föstudögum (eini dagurinn sem er möguleiki á því vegna bundins tíma og anna í starfinu). Síðan skólinn byrjaði hef ég líka eytt þremur laugardögum í vinnunni í ca. 4-5 tíma. Þá er ég aðeins búin að anda eftir törnina og er miklu ferskari. Minni truflun en þegar vinnustaðurinn er fullur af fólki og maður fer í algjöra akkorðsvinnu.
Þessir kennarar eru alltaf farnir heim klukkan tvö er frasi sem heyrist því miður reglulega og stutt síðan ég heyrði hann útundan mér í litlum hóp. Oft á það kannski líka við kennara sem eru í hlutastarfi en þeir eru nokkuð margir. Það vill gleymast. Ég leyfi mér að halda því fram að langstærstur hluti kennara séu að vinna vinnuna sína mjög vel.
Ég er orðin pínu þreytt á að vera að réttlæta sjálfa mig og vinnuna mína, en samt er ég að því. I wonder why???

Á morgun fáum við í bekknum góða heimsókn. Guðrún Helgadóttir og Kristín Steinsdóttir mæta báðar og lesa fyrir okkur.

Það bara rokgengur á baðinu þessa dagana. Hálfgerður rykstormur. Nú er komið að því að rífa niður vaskaskápinn og klósettið. Hvað gera bændur þá, það á nú eftir að finna út úr því. Familían getur nú kannski reddað mér útikamri þar sem hún er innundir hjá Gámaþjónustunni. Ég lýsi eftir svoleiðis tilboði.

Eftir öll leiðindin og launaþrasið ætla ég að bæta ykkur upp með alveg rosalega fallegu ljóði sem dóttir mín valdi í ljóðabók eftir Tómas Guðmundsson og skrifaði upp fyrir skólann. Ég veit það er off season, en veitir okkur nokkuð af yl í kroppinn fyrir veturinn framundan.

Árla reis sólin og sumarið kom um leið.
Löndin skiptu litum og loftin urðu heið.
Og allra hugir lyftust í leitandi þrá.
og allir hlutu eitthvað sem yndi var að fá.


Leyfið þessum líka að koma ykkur á óvart :)

http://www.youtube.com/watch?v=o7glOGq82xQ

Æðisleg stelpa

Írisin mín kom í mat til okkar í kvöld og Rakel María eldaði kjúklingasalat handa okkur. Íris sýndi mér ýmis myndbönd sem hafa hreyft við henni og tárin runnu í stríðum straumum þegar ég horfði á þetta.

http://www.youtube.com/watch?v=QWNoiVrJDsE


Ánægð með Dag borgarstjóra og Baltasar Kormák

Ég held að Dagur minn fái regluleg hugskeyti frá mér. Fyrir það fyrsta vill hann laga launin mín og nú er hann búinn að stela hugmyndinni minni. Ég var einmitt búin að sjá fyrir mér sundlaug í Fossvogsdalnum, þar sem það er engin sundlaug hér nálægt nýja heimilinu mínu. Svei mér þá, ef hann heldur svona áfram verð ég innan tíðar innmúruð og innvígð í Samfylkinguna.
Svo er Baltasar loks búinn að fatta að Grafarþögn er 1000 sinnum betri bók en Mýrin og ætlar að fara að kvikmynda hana. Rosalega hlakka ég til að sjá myndina sem verður gerð eftir einni af uppáhaldsbókunum mínum. Persónurnar náðu gjörsamlega inn að innstu hjartarótum og ef einhver er ekki búinn að lesa bókina, þá mæli ég 100% með henni.
Sem sagt margt að hlakka til.
Í gær skrapaði ég og skrapaði á baðherberginu, er að reyna að setja í fluggír. Svo fór ég niður í skóla að vinna. Búa til enskupróf, líma verkefni eftir nemendur á plaköt um uppáhaldshljómsveitina sína (á ensku) og fleira. Ætlaði aðeins að reyna að minnka óreiðubunkann á borðinu mínu. Þó ég hafi dvalið í skólanum u.þ.b. 4 klukkutíma minnkaði óreiðubunkinn samt of lítið fyrir minn smekk. Þaðan skelltum við Arnar Máni okkur í sund í Árbæjarlaugina en Svenni kærastinn hennar Rakelar Maríu keyrði hann til mín. Anna Lilja vinkona var með okkur í sundi.
Við skutumst í búðina að kaupa inn í mexíkóskan mat og buðum mömmu og Viðari Darra yngsta sæta frænda í mat en foreldrarnir eru á ermalausum bol í Madrid. Rosalega margir í útlöndum þessa helgina.
Við erum boðin til pabba og Gunnu í brunch núna á eftir. Reynum svo að kíkja á Lindu vinkonu sem kom hér við meðan ég var að vinna í gær.

Læt fylgja mynd af fallegu börnunum mínum. Gleðigjöfunum fjórum


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hva, bara pása

Klukkan að verða 7 á matmálstíma og enginn erill í húsinu. Smá stund til að setjast niður og hripa inn á tölvuna.
Arnar sofandi, Berglind Eva hjá Mosóvinkonu og Rakel María í prufu fyrir vinnu. Hálf hljóðlegt og skrítið. Við fórum nefnilega í fyrstu tannlæknaheimsóknina hjá litla stúf í dag hjá tannlækninum okkar í Mosó og Berglindi Evu langaði að sjálfsögðu að kíkja í heimsókn til vinkonu sinnar þar uppfrá. Sem betur fer voru tennur þeirra beggja í góðu lagi eða það sem tannlæknirinn sá af samanbitnu brosi sonar míns þegar hann var beðinn um að sýna lækninum tennurnar. Ekki séns að hleypa honum lengra með einhvern spegil eða eitthvað en hann lét skína í tennurnar í freðnu brosi og fyrir það fékk hann s.s. verðlaun. Guð hvað ég vona að ekki sé í uppsiglingu sama tannlæknafóbían og hjá undirritaðri í den. Við erum að tala um mörg skipti þar sem ekki var hægt að gera neitt vegna þvermóðskukasta (launfrek þá og er líklega enn). Eitt skipi faldi ég mig bak við blokkina upp í Vesturbergi þegar ég vissi að til stóð tannlæknaheimsókn. Ég heyrði mömmu kalla margoft en kom ekki fyrr en eftir dúk og disk. Við náttúrulega orðnar allt of seinar og móðir mín réttilega ekki sátt (vægt tekið til orða :) ).
Núna er maður búinn að læra að láta sig hafa þetta eins og svo margt annað þó maður láti sig ekki hafa hvað sem er.
Var göbbuð í heitan pott af henni Önnu minni seint á þriðjudagskvöld í spjall í sundlaugunum í Kópavogi. Var búin að vera frekar þreytt og kannski strengjuð eftir blakmótið bæði mánud. og þriðjudag í vinnunni. Rosalega hressti þetta mann við. Mæli með svona kvöldpottheimsóknum, fyrir þá sem ekki búa svo vel að stökkva út í eigin garð í pott. Fékk innlit frá góðri vinkonu minni af gamla vinnustaðnum í dag henni Þóru. Gaman að heyra frá henni en jafnframt erfitt að heyra að mannekluvandræðin sem ganga yfir allt núna koma ekki vel við skólann. Bara skömm að því hvað fólki sem vinnur með börnum/fólki er boðið upp á meðan það þykir sjálfsagt að sumir fái ómældar upphæðir bara við að skrifa nafnið sitt á blað liggur við í einhverjum illa skilgreindum kaup(réttar)samningum.
Nýi borgarstjórinn hann Dagur er búinn að lofa öllu fögru, sjáum hvort hann fái einhverju breytt. Smá efi læðist nú samt í minn huga.

Farin að sækja Berglindi í Mosóinn.

Góða helgi framundan

Mín ætlar að verða róleg sýnist mér, sem er gott


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband