Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Myndir

Það getur að líta myndir af baðherberginu hér til hliðar

Hvernig á ekki að innrétta bað

Ekki láta ykkur detta í hug að búa til voða smart rifflaða gifsáferð þegar þið innréttið baðherbergin ykkar, þó það komi í tísku aftur (hafi það einhvern tíma verið það). Þið fáið mjög langvarandi hiksta þegar nýi eigandinn baslar við að skrapa viðbjóðinn af. Ég sem sagt tók rispu í gær og það sá vart högg á vatni. Ætli þetta hafist fyrir jól?
Það dregst eitthvað innflutningsteitið, jæks.

Annars gerðist nú reyndar svo margt gott og skemmtilegt þessa helgina að maður ætti nú ekki að láta þetta blessaða baðherbergi spilla fyrir sér gleðinni.

Ég fór sem sagt á blakmót, bjóst við sem nýliði í liðinu, að sjá aðallega um að verma varamannabekkinn og bera vatn í liðsfélaga mína. Var mjög hissa þegar ég var kölluð inn á í fyrsta leik og hugsaði, ókei þetta hefur verið léttasta liðið. En svo bara spilaði ég helling í viðbót þangað til ég þurfti að fara á frumsýningu heimildamyndarinnar hennar Ástu frænku og eftir æfingu í dag kom ég heim með glansandi gullpening um hálsinn. Við sem sagt unnum 1. deildina á þessu frábæra öldungamóti í Garðabænum. Rosalega góður mórall og frábært spil. Var hins vegar hálf aum í bakinu á eftir og hálf fegin að hafa afsökun til að fara eftir rúmlega hálft mót. Vil ekki sýna veikleikamerkin, en vona að þetta langa bakeymslatímabil mitt eftir rófubeinsslys og árekstur á síðastlinu ári fari að lagast.
Er að fara í nálastungur á föstudag en ég á fráááábæran nálastungulækni sem ég fer til annað slagið og fæ yfirleitt talsverðan bata eftir hvert skipti. Það er bara svo dýrt að fara og buddan mín svo tóm (með yfirvofandi baðherbergiskostnað) að ég fer ekki eins oft og ég vildi og þar af leiðandi kannski lætur batinn á sér standa. Það er nefnilega þannig að ég var í 100% rétti í árekstrinum og ætti þar af leiðandi að fá lækniskostnað greiddan. En nei, ekki nálastungur sem eru óhefðbundnar. Mér finnst þetta rosalega svekkjandi. Las það einmitt í blöðunum um daginn að nálastungur væru besta lausnin við bakverkjum. Hvaða pólitík er þetta eiginlega.

Meðan ég var á blakmótinu, fóru Íris mín, Berglind Eva, Arnar Máni, Stormur og Sómi hins vegar í bíltúr í sveitina að kíkja á hestana, þannig að Íris var staðgengilsmóðir í heilan dag og fórst það vel úr hendi. Sendi mér sms frá Selfossi þar sem hún var að bjóða öllum upp á shake. Svo krúttlegt.

Svo fór ég s.s á frumsýningu heimildarmyndarinnar sem var svo sýnd í sjónvarpinu á sunnudagskvöld, mjög átakanleg saga tvítugrar stúlku sem þjáist af lotugræðgi. Mjög vel gerð mynd hjá Ástu og Berghildi. Þetta er svakalega ógnvekjandi sjúkdómur. Ég vona að henni gangi vel í bataferlinu.
Þaðan fórum við ungpíurnar úr Seljaskóla á Tapas-barinn. Við völdum allar rétt sem hét óvissuferð. Ja, næst vil ég bara vera viss um hvað ég er að fá. 50% gott og 50% lakara. Til dæmis var eftirrétturinn sem okkur var öllum skammtað nokkurs konar kakómassaköggull sem átti að heita súkkulaðiterta. Tek það fram að ég er ekki mikil súkkulaðikökukona í grunninn. Þetta var pínulítil sneið og engin okkar kláraði hana. Ég hef hins vegar enn trú á staðnum en næst vel ég kræsingarnar sjálf.

Þessi kvöldstund okkar skólasystra var mjög vel heppnuð í alla staði, þyrftum að eiga stórafmæli oftar, ja eða vera duglegri að finna önnur tilefni ;)

Því miður verður mín góða vinkona sem ég gat um í síðustu færslu ekki nágranni minn. Þvílíkar ókræsilegar útlistanir á húsnæði hef ég aldrei heyrt. Eldhúsið helmingi minna en mitt sem er ekki stórt, allir gluggar að fúna í sundur. Vatnsskemmdir í eldhúsinnréttingu vegna heitavatnsleka af efri hæð, furðulegir stokkar um allt hús, blautur kjallari o.s.frv. o.s.frv. Sem sagt þyrfti eiginlega að gera fokhelt fyrst en samt átti að borga 23 millur fyrir herlegheitin. Ég held áfram að skima eftir íbúðum hér í grenndinni. Við sláumst um hana ég og önnur vinkona hennar í Hafnarfirði og reynum að finna henni pláss hjá okkur :)

Farin að sinna heimili, börnum og dýrum


Dýrt að tala

Loksins kominn föstudagur.  Grin

Já, ég er nú enn niðri í vinnu að blogga á tölvuna hér því mín er í lamasessi heima þar sem ég er að skipta um síma- og tölvufyrirtæki.  Mér hefur blöskrað svo rosalega að það skuli kosta mann talið í hundruðum þúsunda yfir árið að spjalla í símann í smá stund á dag, svo ég er að reyna að skipta yfir í fyrirtæki sem gerir mér betra tilboð og vona það allra besta. 

Kári minn og Anna Lilja komu í heimsókn í gær með nýbakað gulrótarbrauð úr bakaríinu í Grímsbæ, víst meinhollt og alveg rosalega gott (mmm).  Við fylgdumst með öllu havaríinu sem gekk á í borgarstjórninni í sjónvarpinu.  Þetta virkaði voða skrítið á mann.

Svo á ég von á henni Lindu kennóvinkonu minni í heimsókn núna fljótlega svo ég þarf að fara að koma mér heim að búa um og svoleiðis.

Í fyrramálið snemma verður svo vaknað snemma og farið á blakmót með nýja liðinu sem ég er með núna, Þrótturum.  

 Svo er ég boðin á frumsýningu á nýrri heimildamynd annað kvöld sem hún Ásta Sól frænka mín gerði ásamt annarri og fjallar um stúlku sem er með anorexiu. 

Eftir það förum við 6 síungar úr Seljaskóla saman út að borða til að halda upp á 240 ára afmælin okkar.   

Elskuleg Írisin mín er búin að bjóða börnunum mínum og systkinum sínum í sveitaferð á morgun þar sem stjúpmamman hennar er svo bissí að það hálfa væri.

Á sunnudag er svo planið leikhús um kvöldið að fara að sjá Viltu finna milljón með Brieti vinkonu og Kristjáni kærastanum hennar.

Það eru nú ekki allar helgar svona mikið menningarlegar og útfylltar, enda eins gott.

Annars er vinkona mín að fara að skoða íbúð í dag sem er í sömu götu og minni, næstu lengju fyrir ofan.  Mikið væri það nú gaman að fá hana sem nágranna Wink

Til upplýsingar:  Ég er enn á sama bensíntankinum frá 23. september.

Góða og gæfuríka helgi  

 

 


Fjölbreytnin nauðsynleg

Ég tel það forréttindi mín af hafa starfað sem kennari í Öskjuhlíðarskóla í 6 ár og kynnst því frábæra fólki og yndislegu krökkum sem eru öll svo sérstök á sinn hátt. Einlægnin skín úr hverju andliti og þú getur treyst því að þau eru hreinskilin og heiðarleg við þig. Þau eru sko ekki steypt í sama mót eins og við hin erum oft :) Í hádegisgatinu mínu í dag kíkti ég til þeirra, það var æði, ég fékk sko mörg góð knús, þau eru nú alltaf góð.
Við nemendur mínir í Árbæjarskóla fórum hins vegar í skemmtilegt ferðalag í morgun (nema ég hélt sko að strætisvagnaferðir væru orðnar örari (ó mæ god). Við heimsóttum safnið niðri í Aðalstræti þar sem er að finna fornan landnámsbæ og ég verð nú að segja að þetta kom mér á óvart. Ég var mátulega spennt fyrir heimsókninni þangað en
þetta var ákveðið á árgangafundi eftir að við fengum kynningarbréf um þessa sýningu. Þetta er sko miklu meira en einhverjir mókögglar, grjót og grastorf. Lífi fólks á þessum tíma, byggingu slíkra húsa og umhverfi bæjarins eru gerð frábær skil með hjálp nútíma tækni, snertiskjám og videomyndum, líkönum, munum og fleiru á lifandi og skemmtilegan hátt.
Var á íþróttaæfingu áðan, ég prófaði allt mögulegt sem krakki. Fimleika (of lofthrædd), badminton (of langt að fara),
fótbolti, handbolti, körfubolti (höfðuðu ekki til mín, of mikið verið að kássast utan í og fyrir manni), sund (ekki mín deild). Það var ekki fyrr en í Kennó sem ég fann mig loks og prófaði blak. Hef ekki hætt síðan. Geggjað gaman.
Eins og ég sagði áðan, fjölbreytnin er nauðsynleg, einn fílar þetta annar hitt og gott að lenda loks á réttum hillum, þó langan tíma taki.

Hey, og svo tókst mér major klúður líka áðan. Var fengin sem bekkjarfulltrúi 4. bekkjar hjá Berglindi Evu til að senda póst á alla foreldra um afmælishald og dagskrá framundan, skrifaði bréfið upp og sendi sem viðhengi, alveg klár á að ég browsaði á rétt bréf. Nei, nei einhverju sló saman og foreldrar í hrönnum í uppnámi þar sem eitthvað bréf birtist frá einhverjum kennara, leiðbeiningar um íslensku og bíddu hey, komin nýr kennari í bekkinn ????
Tek það fram að bréfið kom ekki úr mínum fórum, hef aldrei séð það áður. Eitthvað samstuð í gangi.

En nú er komið að knúsutíma með börnunum mínum

Knúsið hvert annað


Tæknileg vandamál

Er búin að vera eitthvað svo syyyyyyyfjuð í allan dag, þannig að ég ætla að fara að skríða upp í fljótlega. Við Berglind Eva erum í gátuham en núna á íslensku. Þetta var einn af þeim dögum þar sem manni finnst maður á réttri hillu, börnin öll svo prúð í dag í skólanum. Maður spyr sig stundum eftir aðra daga og ekki síst þegar maður les í blöðunum að maður fengi sama kaup fyrir að vinna í sjoppu. Maður getur nú bara orðið sársvekktur yfir þessu launamisrétti sem yfir okkur kennara og aðra ríkisstarfsmenn gengur (grrrr).
Mig vantar bara smá aðstoð frá ofurbloggurum sem ég þekki. Ég hef verið að reyna að skrifa sjálf inn í athugasemdirnar hjá mér þegar ég fæ spurningar frá ykkur, en það bara vistast ekki. Svo var ég líka að reyna að setja inn mynd við bloggið en get það barasta ekki?? Veit einhver???
Þannig að til upplýsingar skrifa ég hér:
Já Linda mín, endilega kíktu í heimsókn á föstudaginn ég verð heima fram að kvöldmat og Ásta Sól, klukkan hvað er frumsýningin á myndinni þinni, væri frábært að ná því, en við gömlu skólasysturnar úr Seljaskóla sem allar náðum stóráfanga á árinu aldurslega séð erum að fara saman út að borða á laugardagskvöldið.

Góða nótt (eða kvöld)


Nafna

Það skemmtilega gerðist um daginn að ég kynntist nöfnu minni, hún er sem sagt nemandi minn í Árbæjarskóla.
Ég var alsæl og ánægð með það, alltaf verið eina Gyðan hvar sem leið mín hefur legið. Gyða Björk heitir s.s. stúlkan en með annað föðurnafn. Svo eru foreldraviðtöl í skólanum í síðustu viku og kona gengur að mér og segir sæl Gyða Björk og er móðir umræddrar nöfnu. Hún segir mér frá því að við bjuggum í sama stigagangi í Hraunbænum sem landnemar þegar hann byggðist upp. Þá er ég u.þ.b. 4-6 ára gömul. Við móðirin vorum s.s. leikfélagar þarna í um tvö ár. Svo flyt ég í Vesturbergið og nem land þar. Hún skírir dúkkuna sína nafninu mínu sem henni fannst mjög fallegt og ákvað þarna í frumbernsku að skíra dóttur sína Gyðu eigi hún einhvern tíma eftir að eignast dóttur. Sem hún gerir u.þ.b. 22 árum síðar og meira að segja bætti Björk við án þess að muna eftir því að ég hefði líka borið það nafn. Hún tjáði mér að móðir hennar hefði uppfrætt hana um það og brosað út í annað. Þær gerast nú varla skemmtilegri tilviljanirnar og ég mun vara mig á því að umrætt barn þurfi ekki að líða fyrir dálæti mitt á því í skólanum.
Að öðru, en ég s.s. yfirgaf Mosfellsbæinn nýlega eftir 10 ára ánægjulega dvöl þarna upp frá. Þar er mjög gott að vera að svo mörgu leiti en mér var bara farið að líða eins og atvinnubílstjóra. Leiðin löng í vinnuna, brunað upp eftir aftur og svo jafn vel aftur niður í bæ að erindast. Ég þurfti að leggja af stað í vinnuna upp úr hálf 8 og sat svo föst í bílalest í um hálf tíma. Ekki það skemmtilegasta sem ég veit. Forsendurnar fyrir búsetu þarna upp frá eru annað hvort þær að maður vinni þar upp frá/nær eða sé með tvo bílstjóra í aksturinn. Þessar forsendur voru ekki fyrir hendi hjá mér og því tók ég þessa örlagaríku ákvörðun. Mér finnst tíminn allt of dýrmætur til að eyða í bílferðalög heilu og hálfu dagana. Ég tók síðast bensín þann 23. september og á slatta eftir á tankinum, tveimur vikum síðar. Unbelievable. Og legg af stað í vinnuna 5 mínútur í 8, bruna á móti umferð uppeftir, komin um hæl.

Ég sakna samt mjög mikið krakkanna minna sem ég var búin að vera með sl. 5 ár í Öskjuhlíðarskóla, þau taka svo stórt hlutfall af hjartanu í pant þessir yndislegu krakkar. Verð að fara að kíkja á þau. Ætla að reyna á miðvikudag.
Svo vann ég líka með algjörum perlum, frábærum samstarfskonum/mönnum. Ætla að hóa þeim hingað til mín fljótlega, var búin að lofa því að lokinni baðuppgerð en hún gengur bara svo hægt. Ég verð ekkert smá fegin þegar henni lýkur.

Eyddi deginum í spjall hjá Þórunni vinkonu minni sem á núna heima svo skemmtilega nálægt mér og svo fengum við Arnar Máni ömmu með okkur í gönguferð í haustlitunum í Elliðaárdalnum. Gat ekki hugsað mér að vera inni í þessu yndislega haustveðri. Við þrömmuðum að heiman og alla leið upp í Laxakvísl í Árbænum. Mér fannst stuttu fæturnir á 3ja ára syni mínum ekkert smá duglegir að hafa þetta þessa löngu leið.

Vona svo að ég sjái Írisi gullmolann minn í kvöld. Vantar hjá henni hundabúr og ætla að reyna að bjóða henni í leikhús á Viltu finna milljón um næstu helgi ef hún á eftir að sjá það. Lánið hjá mér að kynnast henni í den, ómetanlegt.

knús og kveðja


Flutningar

Jæja,

Þá er flutningum okkar fjölskyldunnar á fyrirheitna staðinn í borginni lokið eftir tveggja mánaða hrakninga miðsumars, sem þó redduðust ótrúlega vel fyrir tilstilli vina og kunningja sem skutu yfir okkur skjólshúsi, hver um annan þveran svo við vorum alls í viku inni á öðrum. Kunnum við bestu þakkir fyrir það. Það gengur vel að koma okkur fyrir fyrir utan litla hryllingsbaðið, sem ég er að brjóta niður og breyta en gengur heldur hægt. Þar er þykk gifssmurning á efri hluta veggja sem ekki hefur verið þrifin sl. 15 ár eða svo, enda ekki hægt (jakk). Ég ætla að stækka það í leiðinni og taka út skáp í barnaherbergi í staðinn en þar verður samt alveg nóg pláss. Það verður þá alla vega hægt að skipta um skoðun þar inni, já og geyma hina ýmsustu baðtengda muni.
Ég er byrjuð í nýju starfi sem kennari við Árbæjarskóla, sem mér skilst að sé sá stærsti á landinu. Þar kenni ég ungviðinu að tjá sig á engilsaxneskri tungu og þar að auki kenni ég 5. bekk nokkra tíma. Mér líkar mjög vel þarna og þetta fer vel af stað.

Í síðustu viku vorum við með gátuþema í enskunni og hér eru nokkrar gátur fyrir ykkur til að leysa.

1. Why didn't the skeleton go to the dance?

2. What do you get when you put together a fish and an elephant?

3. What did the ground say to the earthquake?

4. Why did the little boy put lipstick on his head

5. Why can't a leopard hide?

6. Why did the picture go to jail?

7. What did the big chimney say to the little chimney?

8. Where did the spaghetti go to dance?

9. What crackers do firemen like in their soup?

10. What sort of star is dangerous?

Finnið nú rétta svarið:

You crack me up, You are too young to smoke, It was framed, A shooting star, he had no-body to go with, firecrackers, swimming trunks, the meat ball, it is always spotted, he wanted to make-up his mind.

Þarna fengu líka teiknisnillingar bekkjanna að njóta sín og margar flottar teikningar litu dagsins ljós.

Búið að vera frábært veður þessa helgi og vonandi verður það svo áfram. Við Briet vinkona fórum í göngutúr í góða veðrinu hér í nýja hverfinu mínu í gær.

Litli guttinn minn á frábærustu ömmu og afa í heimi, bara svo það sé á hreinu og þau hafa algjörlega bjargað okkur en við lentum í mannekluvandræðunum miklu á leikskólum landsins og hann hefur fengið skjól hjá ömmu og afa í Hellulandi á meðan. Þann 15. október má hann byrja í aðlögun loksins.
Rakel María er byrjuð í M.S. og líkar vistin vel og Berglind Eva er sátt í Breiðó, gamla skólanum hans afa Jóns en er þó dugleg að hitta Helguna sína úr Mosó.

Kveðjur úr netheimum,

Gyða Björk og co.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband