Hvernig á ekki að innrétta bað

Ekki láta ykkur detta í hug að búa til voða smart rifflaða gifsáferð þegar þið innréttið baðherbergin ykkar, þó það komi í tísku aftur (hafi það einhvern tíma verið það). Þið fáið mjög langvarandi hiksta þegar nýi eigandinn baslar við að skrapa viðbjóðinn af. Ég sem sagt tók rispu í gær og það sá vart högg á vatni. Ætli þetta hafist fyrir jól?
Það dregst eitthvað innflutningsteitið, jæks.

Annars gerðist nú reyndar svo margt gott og skemmtilegt þessa helgina að maður ætti nú ekki að láta þetta blessaða baðherbergi spilla fyrir sér gleðinni.

Ég fór sem sagt á blakmót, bjóst við sem nýliði í liðinu, að sjá aðallega um að verma varamannabekkinn og bera vatn í liðsfélaga mína. Var mjög hissa þegar ég var kölluð inn á í fyrsta leik og hugsaði, ókei þetta hefur verið léttasta liðið. En svo bara spilaði ég helling í viðbót þangað til ég þurfti að fara á frumsýningu heimildamyndarinnar hennar Ástu frænku og eftir æfingu í dag kom ég heim með glansandi gullpening um hálsinn. Við sem sagt unnum 1. deildina á þessu frábæra öldungamóti í Garðabænum. Rosalega góður mórall og frábært spil. Var hins vegar hálf aum í bakinu á eftir og hálf fegin að hafa afsökun til að fara eftir rúmlega hálft mót. Vil ekki sýna veikleikamerkin, en vona að þetta langa bakeymslatímabil mitt eftir rófubeinsslys og árekstur á síðastlinu ári fari að lagast.
Er að fara í nálastungur á föstudag en ég á fráááábæran nálastungulækni sem ég fer til annað slagið og fæ yfirleitt talsverðan bata eftir hvert skipti. Það er bara svo dýrt að fara og buddan mín svo tóm (með yfirvofandi baðherbergiskostnað) að ég fer ekki eins oft og ég vildi og þar af leiðandi kannski lætur batinn á sér standa. Það er nefnilega þannig að ég var í 100% rétti í árekstrinum og ætti þar af leiðandi að fá lækniskostnað greiddan. En nei, ekki nálastungur sem eru óhefðbundnar. Mér finnst þetta rosalega svekkjandi. Las það einmitt í blöðunum um daginn að nálastungur væru besta lausnin við bakverkjum. Hvaða pólitík er þetta eiginlega.

Meðan ég var á blakmótinu, fóru Íris mín, Berglind Eva, Arnar Máni, Stormur og Sómi hins vegar í bíltúr í sveitina að kíkja á hestana, þannig að Íris var staðgengilsmóðir í heilan dag og fórst það vel úr hendi. Sendi mér sms frá Selfossi þar sem hún var að bjóða öllum upp á shake. Svo krúttlegt.

Svo fór ég s.s á frumsýningu heimildarmyndarinnar sem var svo sýnd í sjónvarpinu á sunnudagskvöld, mjög átakanleg saga tvítugrar stúlku sem þjáist af lotugræðgi. Mjög vel gerð mynd hjá Ástu og Berghildi. Þetta er svakalega ógnvekjandi sjúkdómur. Ég vona að henni gangi vel í bataferlinu.
Þaðan fórum við ungpíurnar úr Seljaskóla á Tapas-barinn. Við völdum allar rétt sem hét óvissuferð. Ja, næst vil ég bara vera viss um hvað ég er að fá. 50% gott og 50% lakara. Til dæmis var eftirrétturinn sem okkur var öllum skammtað nokkurs konar kakómassaköggull sem átti að heita súkkulaðiterta. Tek það fram að ég er ekki mikil súkkulaðikökukona í grunninn. Þetta var pínulítil sneið og engin okkar kláraði hana. Ég hef hins vegar enn trú á staðnum en næst vel ég kræsingarnar sjálf.

Þessi kvöldstund okkar skólasystra var mjög vel heppnuð í alla staði, þyrftum að eiga stórafmæli oftar, ja eða vera duglegri að finna önnur tilefni ;)

Því miður verður mín góða vinkona sem ég gat um í síðustu færslu ekki nágranni minn. Þvílíkar ókræsilegar útlistanir á húsnæði hef ég aldrei heyrt. Eldhúsið helmingi minna en mitt sem er ekki stórt, allir gluggar að fúna í sundur. Vatnsskemmdir í eldhúsinnréttingu vegna heitavatnsleka af efri hæð, furðulegir stokkar um allt hús, blautur kjallari o.s.frv. o.s.frv. Sem sagt þyrfti eiginlega að gera fokhelt fyrst en samt átti að borga 23 millur fyrir herlegheitin. Ég held áfram að skima eftir íbúðum hér í grenndinni. Við sláumst um hana ég og önnur vinkona hennar í Hafnarfirði og reynum að finna henni pláss hjá okkur :)

Farin að sinna heimili, börnum og dýrum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með þennan glæsilega árangur Gyða mín! Rosalega er ég fegin að heyra að þú ert komin í nýtt blaklið og gangi ykkur bara vel í vetur! Ég er sjálf byrjuð á fullu hjá 1. deildarliði hér í Sundsvall og hef þvílíkt gaman af. Reynum kannski að fá okkur göngutúr þegar ég kem næst til Íslands, hvernig væri það? Kem reyndar ekki fyrr en einhvern tímann í nóvember, en læt þig bara vita þegar nær dregur.

 Kærar kveðjur från Sverige,

Susanne

Susanne (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 09:24

2 identicon

Tek þig á orðinu Susanne mín og hlakka mikið til að sjá þig. Vonandi fara Svíarnir vel með þig :)

Gyða Björk (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband