Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Englar

Við Marta noregsprinsessa erum bara alveg sammála. Það eru til englar í mannsmynd. Ég fékk símtal frá einum slíkum sl. föstudag. Þeir eru á meðal okkar. Það símtal yljaði mér um hjartarætur.
Ég sjálf hef hins vegar verið svona við það að tapa vitinu í vetrarfríinu mínu. Ég er búin að setja svo margt á hold út af þessu blessaða baðherbergi að ég var ákveðin í að klára að skrapa um helgina. Þessi blessaða gifshúð er farin að fara svo í taugarnar á mér að ég er búin að vera hálf manísk sem hefur bitnað óþyrmilega á hægri öxlinni og bakinu. Ég er meira að segja nýbúin í 2 nálastungutímum en samt í klessu. Fer aftur á þriðjudaginn.
En það er smá ljós í myrkrinu. Það er bara 20x30 cm bútur eftir. Og helgin ekki búin. Ég byrjaði í skrapa í morgun en öxlin sagði stopp. Eins gott að kíkja ekki í óvænta heimsókn í dag. Þú/þið verðið dregin í að hjálpa mér að klára. ÉG SKAL. Þá er hægt að fara að keyra framkvæmdir áfram. Það eru alla vega tvö stelputeiti komin á dagskrána núna í nóvember hvort sem baðherbergið verður búið eða ekki. Hlakka mikið til.
Við Þróttarakonur tökum þátt í 2. deildinni í blaki í vetur. Fyrsti leikurinn er í dag við ÍK en við nýjurnar 3 í liðinu erum ekki orðnar löglegar þar sem félagaskipti fóru ekki fram í tæka tíð svo við verðum í stuðningsmannaliðinu í dag. Það er eins gott að þær hinar standi sig. Kannski eins gott fyrir mig þar sem bakið er hálf ónýtt þessa dagana.
Það háir mér nefnilega stundum í blakinu :( Vonandi verður upprisa núna þegar sér fyrir endann á þessari óheilbrigðu skröpun alla daga.

Ef einhver veit um góð tilboð á hreinlætistækjum, flott á góðu verði, endilega láta mig vita.

Vonandi nýtist þessi fallegi dagur ykkur vel til góðra verka.


Veikindi í vetrarfríi

Arnar Máni með 40 stiga hita. Var orðinn lasinn þegar hann kom af leikskólanum í dag. Óðinn frændi og Rannveig komu í heimsókn að leika, það var löngu ákveðið. Þau löbbuðu til okkar yfir dalinn. Það var gaman að sjá þau. Kári frændi ætlar svo að kíkja í heimsókn á morgun en við ætluðum að passa hann meðan foreldrarnir skreppa í leikhús. Vonandi verður hann orðinn betri þá.
Tek það annars fram að ég er alveg saklaus af því að fara í bíó bara til að sjá skrautið hans Hilmis Snæs. Veit ekki með ykkur hinar (hmmmm) Er ekki einu sinni búin að sjá allar þessar umtöluðu myndir. En veðramót sá ég og sú mynd er alveg frábær.
Svo er það náttúrulega að bera í bakkafullan lækinn að tjá sig um 10 litla negrastráka, en ég er algjörlega á móti þessari endurútgáfu. Mér var eitt sinn sögð saga af tveimur börnum sem voru saman með mæðrum sínum hérlendis á strætisvagnastöð. Annað ljóst og hitt dökkt. Það dökka segir við hið ljósa í skammartón: ,,Þú ert svertingi". Alveg man ég eftir því þegar maður var lítill og vitlaus(ari) og kallaði á eftir öðrum hommi sem það versta skammaryrði sem maður vissi um, vitandi ekki baun hvað orðið fól í sér. Þá er það játning dagsins.
Ég vona að siðprúðir lesendur síðunnar minnar fái ekki flog yfir þessum málsháttum sem ég læt fylgja hér á eftir þar sem andleysi og syfja er farin að herja á mig. Klukkan orðin margt.

CIAO

Betra er að ganga fram að fólki en björgum.
Léttara er að sóla sig en skó.
Betra er langlífi en harðlífi.
Rangt er alltaf rangt, það er rétt.
Betri eru læti en ranglæti.
Betri er uppgangur en niðurgangur.
Oft er bankalán lán í óláni.
Sjaldan fara sköllóttir í hár saman.
Margur fer yfir Strikið - í Kaupmannahöfn.
Betri eru kynórar en tenórar.
Betra er að sofa hjá en sitja hjá.
Oft fer bakarinn í köku ef honum er gefið á snúðinn.
Margri nunnu er ábótavant.
Betri er utanför en útför.
Oft fara bændur út um þúfur.
Oft fer presturinn út í aðra sálma.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband