Fegurð vetrarins og drungi myrkursins

Ég og veturinn eigum svona ástar-, haturssamband. Það er fátt skemmtilegra en að renna sér í hvítri mjöll í faðmi fjalla á skíðum. Það var yndislegt að trítla í gærkvöld gegnum snjóinn niður í Bústaðakirkju og hlýða á fagra jólatóna Léttsveitar kvennakórs Reykjavíkur. Fönnin gefur fallega birtu og landslaginu hvíta og dulmagnaða dúnsæng.
EN ÉG GET EKKI VAKNAÐ Á MORGNANA.
Krefst 10 sinnum meiri orku en vanalega. Alveg ótrúlegt. Held ég fari að sækja dagsbirtulampann sem faðir minn gaf mér niður í kjallara. Veit ekki alveg hvar hann lenti við flutningana. Koma þessari biluðu lífsklukku minni á rétt ról.
En nú er að renna upp tímabil notalegheitanna, skemmtilegra samverustunda með fólkinu sem manni þykir vænt um,
umhverfið lýsist upp, ilmur í lofti og ja, pínu kaupæði. Held ég sé bara smám saman að komast í jólaskap.
Það gerðist mikið til upp frá jólabakstrinum á sunnudag. Jólaandinn kom með lyktinni af smákökunum sem hurfu reyndar ofan í gráðuga munna á aðeins 2 dögum. Gerðar úr hálfu kílói af púðursykri, hálfu af hveiti og hálfu af súkkulaðibitum. Ótrúlegt. Ég sagðist nú ekki myndu nenna að baka á 2ja daga fresti :) Mér finnst aðventan æðislegur tími þó ég viti ekki alveg með allt búðarrápið, en það er ekki efst á vinsældalistanum. Það bjargar því þó að maður er að kaupa eitthvað til að gleðja aðra svo það gerir verslunarferðirnar þolanlegri. Ég er ein af ca. 1% (skekkjumörk?) landsmanna sem enn hefur ekki komið í Toys'R'us. Á erfitt með úttroðna staði af fólki og biðraðir eru verri en pestin.
Mér er minnisstæð ein verslunarferð mín um páska fyrir margt löngu, þá ólétt að frumburðinum mínum. Komin heil 16 ár síðan. Þá meðgöngu hrjáði mig mikil ógleði og uppköst sem entust út alla óléttuna. Ég beið og beið spennt með dagatalið eftir að fyrstu 3 mánuðirnir liðu og þetta liði hjá, en það gerði það bara ekki neitt. Það voru komnir páskar, en frumburðurinn er fæddur 8. maí þannig að ég hef verið komin kringum 8 mánuði á leið. Ekki voru mikil auraráð þarna í upphafi búskapar og sá ég auglýst ódýr páskaegg í Bónus sem var þá að koma inn á markaðinn. Með stæl, búðin troðfull af fólki. Það var engar körfur að hafa svo ég tölti inn í búðina til að sækja mín 4 páskaegg og fór beint í röðina. Fyrir framan mig var fólk með troðfullar körfur af páskahaldsvörum, svo það tók dágóða stund að afgreiða hvern og einn. Þarna stóð ég með bumbuna út í loftið, alveg hrikalega óglatt og eftir að hafa staðið í röðinni í talsverðan tíma var svo komið að mér lá við yfirliði. Ekki einum einasta manni datt í hug að bjóða mér með mín 4 egg að koma framfyrir í röðinni þó kúlan mín væri mjög áberandi. Ég um mig frá mér til mín syndromið í algleymingi.

Tökum tillit í jólaösinni.

Það er eitt af fáu sem er ókeypis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband