Bíóveislur

Við Rakel María dóttir mín höfðum kósíkvöld á föstudagskvöldið og buðum Maríu Gyðu frænku minni að koma til okkar og horfa með okkur á mynd sem mér hafði fundist svo spennandi þegar ég las aftan á hulstrið. Þetta átti að vera þvílík spennumynd um konu sem hittir mann sem býður henni í heimsókn í bátinn sinn. Hún líður útaf og sofnar og uppgötvar þegar hún vaknar að þau eru komin á siglingu. Þau sigla út á eyju og hún áttar sig á þegar á líður að hann hefur rænt henni. Svo héldum við að þetta væri svaka flóttamynd. Við gláptum á þvílíkt spenntar en eitthvað var tækið leiðinlegt við okkur svo við þurftum að spóla yfir einn kaflann. Við gátum svo horft á hann í restina og sáum þá að við höfðum misst af þessum mest ,,spennandi kafla". Karlinn sem rændi henni drepst (hún drepur hann næstum því óvart) og hún fær þráhyggju, geymir hann í frystikistu og spjallar reglulega við hann. Veruleiki og ímyndun í bland.  Svo vill hún bara alls ekki láta bjarga sér af eyðieyjunni þegar hún fær kost á því, hálfdrepur bjargvætt sinn og það toppar fáránleikann þegar hún giftist honum í lokin (auðvitað ófrísk eftir hinn) og sér þann látna útundan sér allan brúðkaupsvalsinn og brosir leyndardómsfull.  Það er skemmst frá því að segja að spennumyndin var orðin að absúrd gamanmynd og við vorum að tapa okkur í krampakasti yfir fáránleikanum, fengum algjört hláturskast. Þessi ágæta gamanmynd heitir Perfect Strangers. 

Svo dreif ég mig loks að sjá Flugdrekahlauparann og dró Önnu Lilju vinkonu með mér. Ég las bókina og hún er ein af mínum uppáhalds. Svo áhrifarík og leikur á tilfinningaskalann allan. Ég var sem steinrunnin yfir myndinni allan tímann, tárin runnu í stríðum straumum. Algjör unun að horfa á þessa mynd þó hún sé erfið.  Óður um vináttu og tryggð og gaman að skyggnast inn í svona ólíkan menningarheim.  Geri ekki upp á milli myndar og bókar.  Ég gerði mér ekki miklar væntingar því manni finnst oftast bókin betri.  En þarna finnst mér þeim takast alveg sérstaklega vel upp.  

the+kite+runner_855_18380299_0_0_7008355_300

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Best að ég tjái mig sem minnst um blakmótið á Selfossi í gær, það var engin frægðarför.  Hins vegar styttu litli státni frændi minn, stóri bróðir hans og Rannveig mágkona mér stundir í dag og komu meira að segja með skonsugerðarefni með sér sem snarað var á pönnu. 

Sæl að sinni 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband