Bloggleti

CIMG0274 Já eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Það eru orð að sönnu.

Ása vinkona bauð mér í mat í vikunni og ég lærði nýtt trikk hjá henni í grillsósugerð, lífræn mangójógúrt með olíu og smá kryddi var æðisleg með kjúklingnum. Hún er svo flink í eldhúsinu, er ein af þeim sem hefur þetta í sér. Svo kom Hjödda vinkona í heimsókn með ömmugullin sín. Deginum í dag ætlum við að eyða í faðmi ömmu minnar og afa í yndislega sumarbústaðnum þeirra á Þingvöllum, þaðan sem maður á margar dýrmætar æskuminningar af leik innan um blágresið, birkið, berjalyngið og allan villta gróðurinn á lóðinni þeirra. Mamma og Viðar Darri ætla með okkur en hún er að passa hann á meðan Bryndís systir, Íris og co. eru í mekka hestamanna á landsmóti í köflótta veðrinu sem þar hefur verið í vikunni. Ég heyrði í þeim í mestu rokhviðunum núna um daginn og sárfann til með þeim þar sem þau húktu inni í bíl. Hjá okkur á Þingvöllum í dag skein sól, þó ský hafi verið yfir Reykjavík.

Á morgun fær svo lítil hnáta nafn og við ætlum að mæta í skírn upp á Akranes. Þann dag er líka stór dagur hjá kunningjahjónum mínum sem hitta yngri dóttur sína í fyrsta sinni úti í Kína á morgun eftir langa bið. Hugurinn verður hjá þeim. Þetta hlýtur að vera alveg dásamleg upplifun, engu síðri en að fá hnoðrann sinn í fangið eftir níu mánaða meðgöngu.

Annars nennir maður ákaflega lítið að sinna netskrifum svona yfir hásumarið, var að reyna að setja inn myndir en það gekk ekki. Styttist í símamót í fótbolta (Berglind) og vestfjarðaferð með Bryndísi, Agli og börnum og verð eitthvað löt með færslur fyrr en að henni lokinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband