Ljótur leikur í fallegu veðri

Alveg ömurlegur þessi ósiður sem alltaf hefur viðgengist að geta ekki séð eigur annarra í friði.  Við sonur minn gerðum okkur ferð í Laugardalinn í góða veðrinu í gær á hjólfáknum mínum góða sem ég fjárfesti í í vor.  Leið okkar lá að fyrstu í húsdýragarðinn til að skoða ferfætlinga, fiðurfénað og seli að leik.   Þegar ég var að renna að húsdýragarðinum tók ég eftir manni sem gekk að einu hjólinu sem var fyrir utan garðinn og hjólaði af stað.  Mér fannst hann engan veginn líta út fyrir að vera gestur úr garðinum.  Hann var ekki með neitt barn með sér og ég hugsaði.  Ætli hann sé að stela hjólinu?  Þegar ég sté af hjólinu mínu til að ganga inn í garðinn tók ég eftir því að sonur minn var alveg steinsofnaður aftan á hjólinu mínu og vissi ekki alveg hvað ég átti að gera við hann.  Ég hinkraði í smá stund og ákvað að leyfa honum alla vega að ná þessum 10 mínútum, korteri sem tekur fyrir mann að ná smá hvíld áður en ég myndi vekja hann.  Þá sé ég dreng sem ég kannaðist við úr Öskjuhlíðarskóla þar sem ég kenndi í nokkur ár.  Ég var ekki viss um að hann myndi eftir mér en hann heilsaði að fyrra bragði og þekkti mig alveg.  Hann leit ráðvilltur í kringum sig og ég sagði.  Ertu að leita að einhverju?  Já, hjólinu mínu.  Liturinn á því passaði alveg við hjólið sem ég hafði séð manninn taka af stað á nokkrum mínútum fyrr.  Ég varð svo reið.  Hann mátti ganga af stað í átt að tónleikunum reiðhjólslaus og ekki veit ég hvernig hann komst heim í Grafarvog.  Ég hugsaði stutthærða unga manninum á þrítugsaldri í ljósu hettupeysunni þegjandi þörfina.  Þetta var ekki óþroskaður krakki.  Ég ætla að reyna að hringja í einhverja á morgun sem væru fúsir að gefa nýtt hjól.  Ef þið eruð í samböndum og þekkið mann sem þekkir mann sem þekkir mann megið þið hjálpa mér og láta mig vita.  Netfang eru nöfnin mín tvö og simnet.is.

Annað er svo aðstaða dýranna í þessum blessaða húsdýragarði.  Þarna var ein gylta með átta grísi í alveg hroðalega lítilli stíu.  Svo fór að þegar aumingja grísamamman reyndi að leggjast niður þá lagðist hún ofan á einn grísinn, varla annað hægt, og hann hrein eins og stunginn grís.  Nú veit maður hvernig það hljómar.  Það var líka alveg ömurleg upplifun.  Lengi héldum við ég og einn pabbinn að hún lægi ofan á honum því hann grét í langan tíma og reyndum að stugga við henni en svo var ein stelpa þarna með tölu grísanna á hreinu og sagði að þeir væru þarna allir átta.  Vonandi verður gerð bragarbót á þessu. 

Það eru annars bara rólegir dagar og vel nýttir hér heima fyrir um helgina, kom að því.  Svoleiðis dagar eru nauðsyn líka.  Ætli hjólið hafi annars verið af þessarri sort og maðurinn misskilið eitthvað þegar hann las heitið?  Skamm bara.

450x450_mg07_villain 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband