Margfaldur afmælisdagur og eftirminnileg hestaferð

móður minnar, Jónasar nokkurs Hallgrímssonar, Jóns Sveinssonar og tímaritsins Eiðfaxa (30 ára)
Einnig Dagur hinnar ylhýru íslensku tungu sem var náttúrulega haldinn hátíðlegur í skólum landsins í dag.
Við fórum að sjá fákasýningu í Smáralind seinni partinn í dag. Alveg var ég hissa hvað þessir glæstu fákar sem þarna voru tóku ljósamergðinni, barnaskara og hávaða með stóískri ró. Þetta var sem sagt í tilefni 30 ára afmælis áðurnefnds tímarits.
Ég átti fagran fák í ein 20 ár. Nokkur ár síðan Skugginn minn féll frá. Þetta var rosalega skemmtileg íþrótt en það kom upp ofnæmi í familíunni og bara svo mikið að gera með börn og bú að það var ákveðið að gefa hestamennskunni hlé, en hvur veit hvort einhvern tíma berist maður aftur á fáki fráum fram um veg. Svona í ellinni, eða þannig????? Mín elskuleg systir og stjúpdóttir leyfa mér stundum að fá smá útrás og bjóða mér í reiðtúr.
Ég má til með að segja ykkur frá mjög skemmtilegri hestaferð sem ég hef stundum hugsað með mér að væri efni í barnabók, en kannski of mikil gamaldags sveitarómantík og ekki næg vandamál á kvarða nútímabóka :)
Við Skuggi áttum þá heima í Þingeyri city (in the west) og við ákváðum, eða ég kannski frekar, að skella okkur í útreiðartúr. Ég hafði ávallt riðið sömu leið og spurði Sigþór sem var þarna í hesthúsi með mér hvort hann vissi einhverja góða leið handa mér, svona til að breyta til. Hann benti mér á eina góða og við Skuggi héldum af stað glöð og sæl í félagsskap hvors annars. Við höfðum riðið dágóða stund þegar ég tók ranga beygju, vissi það náttúrulega ekki þá, ekki fyrr en ég kom að dead end, hefði sem sagt þurft að ríða talsverða leið til baka ef ég kæmist ekki með nokkru móti þarna áfram. Nú voru góð ráð dýr. Ég velti vöngum og leit í kringum mig. Framan við mig blasti við löng gaddavírsgirðing en svo kom ég auga á skurð, sem var ekki svo djúpur þarna nálægt og hugsaði með mér að þarna gæti ég dregið hestinn yfir með mér. Fór af baki, teymdi hestinn oní skurðinn, nema þá var hann aðeins dýpri en hann hafði virst og það flæddi yfir stígvélin mín og ég varð gegnblaut. Svo festist grey hesturinn í einhverju rusli þarna ofan í skurðinum og tók smá tíma að losa hann. Þegar við dauðfegin héldum áfram ferð okkar en höfðum ekki riðið lengi lentum við í fiðraðri árás af himnum ofan í formi bandbrjálaðra kría. Ég hélt písknum hátt á loft til að reyna að halda þeim frá okkur. Ekki æskilegur félagsskapur að mínu mati. Að smá tíma liðnum höfðum við yfirgefið verndarsvæði kríanna og riðum enn sæl í sinni áfram veginn. Skömmu síðar varð á vegi okkar Skugga lamb. Sýnilega eitthvað laskað, jafnvel fótbrotið. Lögðum við því lykkju á leið okkar á nálægan bæ til að láta vita af litla sjúklingnum. Héldum við nú að okkar vandræðum í þessum ágæta reiðtúr væri lokið. Það reyndist þó ekki vera því innan tíðar varð mér litið efst í brekku sem var framundan. Þá sá ég einhverja þúst á veginum sem ég var ekki viss um hvað var (ekki með brillurnar) þegar við Skuggi nálgumst á fullri ferð. Svo gaman að gefa aðeins í upp brekkur og fara á létt stökk. Valsar þá ekki bara heil gæsafjölskylda af stað og blessuðum hestinum mínum var nóg boðið. Honum krossbrá, hann stökk til hliðar og skildi knapann sinn (þ.e. mig) eftir í loftinu. Knapinn sem farið var að finnast þetta einum of skrönglaðist aftur á bak og gekk ferðin áfallalaust á áfangastað, þó ekki væri nú allt búið. Hnakkurinn var tekinn af fáknum og ég var að bera hann inn í hús. Verður mér ekki á að stíga á gjörðina og endasendist eftir allri heimreiðinni. Af einhverjum ástæðum varð gamla leiðin fyrir valinu eftir þetta og við Skuggi töltum og brokkuðum okkar veg út að Haukadal og þar áfram. Better be on the safe side.

Fór í heitan pott í gærkvöld með Önnu. Mikið skrafað og hlegið að okkar von og vísu. Svo endurnærandi að það er ótrúlegt.
Í dag eftir hestasýninguna fórum við saman á Fridays, afmælis,,barnið" hún mamma sem grínaðist með að brátt fengi hún bréf með tilboði í Félag eldri borgara en vinkona hennar er víst búin að fá svoleiðis. Við systur snæddum með henni til að fagna deginum ásamt börnum og honum Agli.

Á morgun ætla ég að versla ný hreinlætistæki, vonandi henda þeim gömlu út. Hitta Lillu vinkonu mína smá á kaffihúsi. Annað kvöld ætlum við saman í leikhús, ég, Bryndís systir, mamma og Íris Fríða. Við ætlum að sjá leikritið sem Stúdentaleikhúsið er með þetta árið. Skrifstofufarsi eftir Hlín Agnarsdóttur sem fær rosalega góða dóma. Það verður gaman. Svo fer ég að keppa í blaki á sunnudagsmorgun við HK og Anna ætlar að kíkja í heimsókn eftir það. Hún ætlar að sauma kjól á dóttur sína hérna hjá mér og við getum spjallað yfir saumaskapnum hennar og tiltektinni minni/baðframkvæmdum. Það eru tvö stelputeiti á dagskránni í næstu viku og ég ætla að reyna að gera huggulegra hérna hjá mér.

Megi stormarnir sem eiga að geysa um helgina blása ykkur í brjóst krafti og svo er náttúrulega ekkert betra en að kúra þegar vindarnir gnauða á gluggunum.

farvel hestar og menn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló Gyða kennari

Datt inn á þessa síðu út frá krökkunum hennar Eyrúnar. Gaman að rekast á þig í bloggheiminum, ég var að skoða myndirnar þínar og vá hvað Rakel María er orðin stór og gaman að sjá Írisi Fríðu;)

Best að eiga heima á Þingeyri City;)

kveðja frá Aarhus

Bylgja Dögg

Bylgja Dögg Hafsteinsdóttir (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 12:40

2 identicon

Hehe, hlæ alltaf jafn mikið að þessum tímamótareiðtúr ykkar Skugga :)

Stóra sys (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 00:52

3 identicon

Þetta er skemmtileg saga af þér og Skugga. Ég hef trú á að börnunum mínum þætti hún skemmtileg í bók. Ættir að skoða það fyrir næstu jól. Veitir ekki af að drýgja kennartekjurnar, við þekkjum það.

Kveðja að norðan.

Inga.

Inga (IP-tala skráð) 18.11.2007 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband