Siðferðiskennd banka

Hvar er hún eiginlega. Hvernig má það vera að það sé ekki hægt lengur að yfirtaka hagstæð lán. Er þetta hreinlega löglegt, ja alla vega siðlaust. Hvers lags innkoma er þetta á markaðinn að koma inn undir fölsku flaggi, bjóðandi góð lán og hagstæð kjör. Íbúðaverð rýkur upp, er mun hærra en það var fyrir nokkrum árum. Samt hækka þeir vexti, þó þeir séu að fá mun meira í sinn hlut þar sem íbúðaverð er hærra. Er ekki kominn tími á hávær mótmæli? Af hverju látum við þetta yfir okkur ganga. Börnin okkar og þeirra framtíð eru í húfi. Ég lýsi eftir skeleggum einstaklingi til að standa fyrir stórum mótmælum, ég kem.

Við systir mín stormuðum um allan bæ á laugardag að skoða það sem í boði er af baðherbergjagóssi. Urðum margs vísari og ég er búin að kaupa ný blöndunartæki fyrir bað og vask og komin með nokkuð góða hugmynd um hvar ég vil kaupa rest.
Svo hittumst við Lilla vinkona mín á kaffihúsinu í Smáralind. Sátum þar og reyndum að kjafta saman m.a. undir söng Geirs Ólafssonar. Það var einhver leikjasýning í gangi þarna og fyrir minn smekk finnst mér ekki notalegt að sitja á kaffihúsi og reyna að spjalla undir svona miklum hávaða eins og barst frá Vetrargarðinum. Samt skiptir félagsskapurinn meginmáli, en kannski annað staðarval næst.
Það bættist ennfremur í dagskrá helgarinnar. Hann faðir minn bauð mér ásamt ömmu og afa að sjá með þeim bíómynd um Edith Piaf, franska söngfuglinn, í Regnboganum. 2ja og hálfs tíma bíómynd (ekkert hlé) og maður naut hverrar mínútu. Frábær frönsk mynd um einstaka ,,litla" konu með ,,stóra" rödd. Sú fékk sérstakt uppeldi svo vægt sé til orða tekið og sinn skammt af sorg og erfiðleikum þó farsæl söngkona væri.
Þaðan rauk ég beint svo í leikhúsið að sjá skrifstofufarsann í norræna húsinu hjá Stúdentaleikhúsinu með mömmu, Bryndísi og Írisi. Það mátti alveg brosa út í annað þar.
Við Þróttarakonur unnum leikinn okkar við HK 3-1 í gær. Erum efstar í 2. deildinni. Svo gaman og ég fékk fullt að spila. Sjálfstraustið að komast í lag en ég fékk ekki orðið að spila mína stöðu í Mosó. Svo er mér treyst til þess hjá Þrótti í sterkara liði eftir að hafa verið svelt lengi og ekki fengið þá æfingu sem ég hefði kosið. Rosalega er það uppbyggilegt fyrir sálina. Mikil gleði og mikið gaman, því ég virkilega elska að fá að spila gott blak. Svakalega góður andi og samheldni í liðinu.
Svo fékk ég heimsókn mjög kærrar vinkonu minnar og dóttur hennar og dóttursonar á sunnudaginn hingað heim í Háagerði. Hún Hjödda kíkti í heimsókn með afkomendur sína og færði mér fínasta tesett í búið. Við áttum mjög góða stund saman gömlu en samt síungu vinkonurnar, búnar að vera vinkonur lengur en elstu menn muna.
Dæmið snerist svo við hjá okkur Önnu vinkonu. Í stað þess að hún kæmi hingað fór ég yfir til þeirra og var boðin í mat, fínasta kjúkling og svo fórum við í göngu um Fossvogsdalinn í gærkvöldi.
Þetta er sem sagt búin að vera annasöm en jafnframt mjög skemmtileg helgi.
Berglind Eva mín er orðin lasin með hálsbólgu og hita og við sitjum hér heima í dag. Ég spurði soninn þegar hann vaknaði hvort hann vildi fara í Vinagerði. Svarið hans var: Nei, ég er með gubbupest (hreinasti uppspuni) og mikinn hósta. Svo hóstaði hann af sannfæringarkrafti :) Maður kann að bjarga sér og fá sínu fram.

Adíós


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband