12.12 12 dagar til jóla

Ég hef verið að spyrja börnin mín til hvers þau hlakka mest á jólunum.  Svörin hjá báðum stelpunum mínum voru á þá leið að þær hlökkuðu mest til að vera með fjölskyldunni.  Halo  Þær búa reyndar við það að eiga tvær fjölskyldur en samt eru hefðirnar eins hver einustu jól.  Þær eru hjá mömmu í möndlugrautnum í hádeginu og í jólamatnum, en fara til föður síns þegar þær eru búnar að taka upp pakkana hjá mér.  Mikill kostur að við búum bæði hér á höfuðborgarsvæðinu.  Þær gista þar og eru fram eftir degi og fara með honum í jólaboð hið fyrra hjá ömmu sinni í föðurætt sem á einmitt afmæli á jóladag og svo koma þær í jólaboðið mín megin þar sem er spilað á hljóðfæri, sungnir jólasöngvar og spilað fram eftir kvöldi.  Öll systkini pabba og afkomendur og amma og afi.  Mikil tilhlökkun ár hvertHeart

Og af því að hún Inga talaði um að sjá baðherbergið fræga, þá skal það tilkynnast að það er í hörmulegu ástandi.  S.s. búið að rífa allt niður og setja vegg í gat, en síðan hefur lítið gerst í uppbyggingu.  Húsmóðir þessa heimilis hefur ákveðið að jólin muni koma þrátt fyrir að baðherbergið sé ekki upp á marga fiska og það verða haldin gleðileg jól og ljóta baðherbergið bara skreytt með kertum og mottum á gólfin.  Það styttist í útsölurnar í janúar og eftir þeim verður beðið með að klára.  Það fer líka að verða meira gaman því það styttist í uppbyggjandi framkvæmdir, niðurrifið að verða búið.  Jólagjafakaup, kortaskrif, föndur og dúll verður bara tekið framyfir núna á aðventunni.  Ætlum í piparkökuskreytingar og föndur til Ásu vinkonu á föstudaginn.  Svo er dóttirin mín hún Berglind Eva nýbyrjuð að æfa fótbolta og fer á mót á laugardaginn.  Það verður gaman að fylgjast með því. Þreföld afmælisveisla á sunnudaginn.  Litli frændi, stóra systir og stóra frænkan sem verður 14.  Af þessari dagskrá er augljóst að baðherbergismál munu bíða betri tíma.  Annars eru það kannski öfugmæli því besti tíminn er núna, aðventan og jólin.  Nú eru sveinarnir góðu farnir á stjá.  Það var verið að reyna að uppfræða soninn um þá í gær og að maður yrði að vera góður, annars fengi maður kartöflu í skóinn.  Það tókst ekki betur til en hann sagðist glaður vilja fá eina slíka.  

Njótið - föndrið - bakið - borðið - veljið - hlustið - knúsið og skreytið - af hjartans lyst

Góðar stundir

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl ! Já það koma svo sannarlega jól þótt allt sé ekki í top standi við verðum bara að muna að hafa andan á réttum stað og lát stressið ekki taka völdin.  Mér finnst því miður sumstaðar fólk gleyma því. Það ættu allir að fara eftir síðustu orðunum þínum hérna fyrir ofan.

Við komum suður einhvern tíman eftir áramót. Þurfum að fara með Guðmund til augnlæknis. Við verðum í bandi.

Kveðja Inga.

inga (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 12:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband