Það var eitt sinn fyrir löngu

að ung móðir með 1 og hálfs árs gamalt barn var þunguð og átti um hálfan mánuð eftir af ætlaðri meðgöngu.  Unga fjölskyldan var að byggja sér húsnæði í efra-Breiðholtinu og var faðirinn upptekinn þar við smíðavinnu.  Þá fer krílið að gera heldur betur vart við sig í bumbunni svo móðurinni verður ekki um sel.  Faðirinn var ekki í símasambandi.  Þetta var löngu fyrir tíma gemsa og sú eina sem komið gat til bjargar var amman og var hóað í hana og kom hún í snarhasti að aðstoða hina ungu móður.  Búið var að hringja á sjúkrabíl sem var á leiðinni.  Þá var það nú svo að litla krílið sem reyndist stúlkubarn ákvað að bíða ekki boðanna en bara stinga sér af stað að kíkja á hina fögru veröld sem beið hennar.  Amman gerði það sem í hennar valdi stóð og allt fór þetta nú vel að lokum.  Hávær barnsgrátur barst um íbúðina á Bústaðaveginum og blessunarlega átti þetta litla barn umhyggjusama og góðlynda stóru systur sem kom stormandi með snuðið sitt til að lána nýfædda barninu sem grét svo sárt.

Þessi stóra systir á afmæli í dag.  Til hamingju og takk fyrir lánið á snuðinu í den systa Tounge

 http://erbinnuriarenaztarnak.wordpress.com/2007/06/

Amman sem stóð sig svo hetjulega og sem vildi alltaf allt fyrir mann gera hét Gyða Guðmundsdóttir og ber ábyrgð á því að ég ber nú nafnið hennar þar sem hún kom svo mikið við sögu þegar ég hélt innreið mína í veröldina.   Ég sakna hennar alltaf mikið.  Hún lét lítið yfir sér en vildi alltaf gefa manni meira en hún átti og hún gerði besta hrygg sem um getur og sá til þess að maginn væri vel mettur.  Ef maður neitaði einu sem hún bauð að borða þá hélt hún endalaust áfram þar til maður lét undan :).

Ég fór til Ásu vinkonu í brjálaða veðrinu í dag og við föndruðum jólakúlu úr þæfðri ull með skrautperlum, afmæliskort fyrir öll afmælin framundan og pappírskörfur til að hengja á jólatréð.  Við skreyttum líka piparkökur og notuðum sniðug glassúrkrem í litlum túbum sem fást í Hagkaup.  Kökurnar voru líka keyptar þar, karlar og kerlingar, jólatré, svín og hjörtu. Sara, Berglind Eva og Sólveig allar svipað gamlar voru í góðu stuði og nú loksins geta litlu strákarnir okkar svolítið leikið, en það munar tæpum 2 árum.

Varla hefur farið fram hjá neinum veðurofsinn sem geysaði á landinu í dag.  Hjá mér voru mætt 8 börn í kennslustund í morgun, það var ekki beysið.  En bara gaman hjá okkur í föndri og áhorfi á jólamynd.  Verra með leikritið sem átti að æfa.  Það var ekki hægt með 1/3 af leikarahópnum.  Annars rúllaði æfingin í gær svo vel að ég var geysistolt af krökkunum.  Þau voru svo frábær.  Búin að vera svolítið erfið fæðing og ekkert auðvelt að leikstýra 24 barna hóp þar sem allir eru með hlutverk Undecided  En þetta er að koma.

Góða helgi gott fólk


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fiðrildi

Til hamingju með stóru systur !   Bogamenn er yndislegir

Fiðrildi, 15.12.2007 kl. 00:01

2 identicon

Takk elsku systa fyrir afmæliskveðjuna, ég skal lána þér snuðið mitt hvenær sem er ..... ég held þó að þú sért eitthvað að ruglast, fæddist þú ekki í Bústaðahverfinu mín kæra ;)

Bryndís (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 11:18

3 identicon

úps, það er víst rétt, örfá skref héðan

Gyða Björk (IP-tala skráð) 16.12.2007 kl. 12:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband