Veðurhamur

Ég man nú ekki eftir svona miklum snjó síðan ég bjó á Vestfjörðunum í þrjú ár.  Árið 1995-1996 var sérstaklega rosalegt.  Ég fór í klippingu á Flateyri og það var búið að gera göng inn í húsið sem náðu upp að þaki.  Það svaf barn í barnavagni upp við þakbrún á einu húsinu.  Í raðhúsinu sem ég bjó í á Þingeyri náði snjórinn yfir hálfan stofugluggann, það var aðeins snjóléttara hjá okkur.  Ekki var möguleiki að hengja þvott út þar sem snúrurnar voru nánast á kafi og maður var allt vorið að dreifa úr stærsta hólnum svo maður kæmist að hengja út.  Síðasti snjórinn hvarf í byrjun júní.  Mér líkar vel við snjóinn og kann mun betur við snjóbirtuna en grámyglulegan rigningarsudda.  Það er hægt að gera svo margt skemmtilegt í snjónum að auki (þó þetta stanslausa rok megi missa sín).  Þarna keyrði maður enn Breiðadalsheiðina og óhætt að segja að litli Subaru justyinn minn hafi verið eins og krækiber í h...... ofan í ruðningnum sem var á við þann á myndinni hér fyrir neðan en mun minni bíll en þessi.  Blessunarlega er nýi bíllinn minn fjórhjóladrifinn og fer um allar trissur og ekkert mál.  Ég legg í órudd stæði án þess að hika.  Það er mikill munur að vera á góðum bíl í svona snjóþyngslum (VW Golf 4motion)  Hann fær mín bestu meðmæli.

 Svo er ég mun sáttari við snjó og kulda sem nágranna en slöngur, drekaflugur, sporðdreka og tarantúlur. 

Fékk góða heimsókn frá kærri vinkonu minni í vikunni henni Lindu og Elvu Maríu dóttur hennar.  Hún Linda er þannig að þegar Rakel María dóttir mín er að lýsa einhverju fólki sem hún kann sérstaklega vel við eins og þegar hún sagði mér frá konu sem kennir henni í FÁ nýlega sem henni finnst mjög góð og skemmtileg.  Þá kemur viðkvæðið: Hún er svona eins og Linda og þá eru það bestu meðmæli sem hægt er að fá Heart 

Við starfsfólkið í Árbæjarskóla erum á leið á árshátíð í kvöld ásamt mörgum fleiri skólum austanmegin í borginni.  Leiðin liggur í Gullhamra en þangað hef ég ekki áður komið.  Góður matur, skemmtilegt fólk og já vonandi rosa gaman.

Góða helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Viðarsdóttir

Nú skil ég í öllum þessum bílum við Nóatún á föstudaginn. Það var allt í kaos þar   En ég komst inn í Nóatún með því að láta karlinn bíða í bílnum og sæta færis.

En mikið svakalega er síðan þín orðin falleg. Hún er algjört augnkonfekt.

Anna Viðarsdóttir, 10.2.2008 kl. 11:00

2 identicon

Takk takk, ekki við öðru að búast þar sem ég fékk góða aðstoð frá uppáhalds málaranum mínum, franska impressionistanum Pierre Auguste Renoir, myndin í horninu er eftir hann og ég ætla að skipta reglulega og hafa hann í horninu næstu vikurnar.

Gyða Björk (IP-tala skráð) 10.2.2008 kl. 11:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband