Skemmtileg áhugamál og ein á ferð upp á heiði

Áhugamálin geta verið af ýmsum toga og þegar maður er orðin ráðsett móðir með margar skyldur er ekki rými fyrir þau mörg, eins og er alla vega eru ærin verkefnin. 

Áhugamál nr. 1 hjá mér er að ferðast og sem betur fer er nú hægt um vik að taka krakkasúpuna með sér í það áhugamál, t.d. skíðaferðir og bústaðaferðir, að skoða landið og fleira.

Áhugamál nr. 2 er svo blakið (kemur á undan söngnum, skíðunum, dansinum, spilunum, badmintoninu, hestamennskunni og öllu hinu skemmtilega sem hægt er að aðhafast í henni veröld).

Við blaksystur í Þrótti hittumst í vikunni til að ræða mót sem eru nokkur framundan, búningamál og fleira.

Árlega á hverju vori eru haldin stór öldungamót þar sem meira en þúsund manns yfir 30 koma saman til að keppa, stunda kvöldvökur, náttfatapartý og hið besta húsmæðra- og -feðra orlof.  Bara eins og að fara 35 ár aftur í tímann og fara í skólaferðalag.  Aðrir blakarar eru orðnir eins og bekkurinn þinn, maður þekkir eða kannast við annan hvern mann og þetta er gríðarlegt fjör.   Einstaka dæmi til um Á sama tíma að ári sambönd en það er nú eins og nálin í heystakknum.

Ég rifjaði nefnilega upp fyrir stelpunum sögulega ferð mína á þarsíðasta blakmót, en þau eru oft haldin út á landi sem er rosa stemning, að fylla litla bæi af fólki og þá rekst maður líka meira á fólk á förnum vegi.

Það næsta verður haldið á Vestfjörðum fyrstu dagana í maí en í hitteðfyrra þegar saga mín gerist var það á Ólafsvík.   Ég var ein á ferðinni í Toyota Hilux bíl og gekk ferðin vel þar til ég kom að Fróðárheiði sem liggur yfir á Ólafsvík ef maður fer syðri leiðina.  Var ég búin að keyra í 10-15 mínútur löturhægt í niðaþoku á heiðinni þegar ljósin í bifreiðinni minni slökknuðu si svona og ég var eins og í svartholi í geimnum og vissi hvorki stað né stund og gat mig hvergi hreyft.  Það er alls ekki hægt að keyra með hazard ljós, ég reyndi það en það koma bara glampar sem gera ekkert.  Sem betur fer var ég stödd á stað þar sem var GSM samband svo ég gat hringt í stelpurnar sem biðu eftir mér og þær lofuðu að koma um hæl að bjarga mér.  Svo hringdi ég í vin minn bara til að minnka líkurnar á að panika ein í myrkrinu og dreifa huganum.  Þá gerist það alveg eins og í amerískri froðuhryllingsmynd frá Hollywood að trukkaljós birtast í baksýnisspeglinum og ég viðurkenni það að mér varð ekki um sel.  Þetta reyndist hins vegar rammíslenskur, alúðlegur maður sem bauð mér að elta rauðu ljósin sín niður af heiðinni.  Sem ég þáði.  Á leiðinni mættum við lögreglubíl sem stelpurnar höfðu sent eftir mér svo ég kom í lögreglufylgd til Ólafsvíkur, í fyrsta og eina skiptið sem ég hef keyrt í lögreglufylgd.  Daginn eftir ætlaði ég svo að fara með drusluna og láta laga ljósin, nema hvað þá kviknuðu þau eins og ekkert væri.

Ég vann með henni Siggu frá Grund :) sem er Ólafsvíkingur og þrælhress kona og þegar ég var að segja henni frá hrakförum mínum og hvar ég hefði verið stödd.  Gall ekki í minni:  Já, varstu hjá Draugagili.

Takk og bless


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband