Að trúa á ástina

í öllum sínum myndum. 

Hún móðir mín átti að gera verkefni í skólanum sínum F.Á þar sem hún átti að flytja 5 ástarljóð.  Hún leitaði til mín því ég á bók sem heitir Íslensk ástarljóð.  Við flettum yfir þessa bók og það voru tvö eftirfarandi ljóð sem stóðu algjörlega upp úr að okkar mati.  Annað eftir Tómas Guðmundsson, sem er mitt uppáhalds ljóðskáld. 

„Fyrir þennan glugga hef ég gengið mörgum dögum.
Hef gengið þar að morgni dags, en oftar seint á kvöldin.
Og hikandi ég beið þess þá, að bærðust gluggatjöldin,
og brjóst mitt hefur skolfið af þungum æðaslögum.

 Og hvítir armar birtust og hjartað brann af gleði,
og hjartað brann af sorg, ef þeir fólu sig í skuggann.
Því hún var bara fimmtán ára og fyrir innan gluggann
og fallegust af öllu því, sem nokkru sinni skeði.

Og vorið kom í maí, eins og vorin komu forðum,
með vængjaþyt og sólskin og næturkyrrð og angan.
Og kvöld eitt niðri á bryggju hún kyssti mig á vangann.
Það kvöld gekk lítið hjarta í fyrsta sinn úr skorðum.

Já, skrýtið er að hafa verið ungur einu sinni,
og að það skuli hafa verið þessi sami heimur.
Því þá var bara heimurinn handa okkur tveimur,
og hitt var bara ástin, sem brann í sálu minni.

Og stundum enn, er byrjar að vora um vesturbæinn,
mér verður á að reika þangað einsömlum á kvöldin.
En aldrei framar hvítir armar hreyfa gluggatjöldin
og húsið verður sjálfsagt rifið einhvern daginn.“

Tómas Guðmundsson, Fagra veröld 

Þar er líka þetta fallega ljóð eftir Sigurð Nordal ort árið 1917 eða fyrir um 90 árum síðan.

Sólin brennir nóttina,
og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir
og eftir sólarlag.

Þú ert yndi mitt áður
og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi
og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum
og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli
og söngur, ef allt er hljótt.

Söngur í þöglum skógum
og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið
og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin
og guð til að styrkja mig.
Eg fann ei, hvað lífið var fagurt,
fyrr en eg elskaði þig.

Eg fæddist til ljóssins og lífsins,
er lærði eg að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað
fyrr en með sjálfum mér.

Ást mín fær aldrei fölnað,
því eilíft líf mér hún gaf.
Aldirnar hrynja sem öldur
um endalaust tímans haf.

Aldir og andartök hrynja
með undursamlegum nið;
það er ekkert í heiminum öllum
nema eilífðin, guð — og við.


Þetta er til með söng Ragnheiðar Gröndal. 

Svo lifði þetta ljóð í minningunni allt frá í barnaskóla og er náttúrulega ein fallegasta mynd ástarinnar og sú sem skærast skín hjá mér um þessar mundir.  Þetta orti Jónas Hallgrímsson svo fallega árið 1837.

Móðurást

  • Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
  • í fjallinu dunar, en komið er él,
  • snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;
  • auganu hverfur um heldimma nótt
  • vegur á klakanum kalda.
  • Hvur er in grátna sem gengur um hjarn,
  • götunnar leitar, og sofandi barn
  • hylur í faðmi og frostinu ver,
  • fögur í tárum, en mátturinn þverr –
  • hún orkar ei áfram að halda.
  • „Sonur minn góði! þú sefur í værð,
  • sérð ei né skilur þá hörmunga stærð
  • sem að þér ógnar og á dynja fer;
  • eilífi guðssonur! hjálpaðu mér
  • saklausa barninu’ að bjarga.
  • Sonur minn blíðasti! sofðu nú rótt;
  • sofa vil eg líka þá skelfingarnótt;
  • sofðu! ég hjúkra og hlífi þér vel;
  • hjúkrar þér móðir, svo grimmasta él
  • má ekki fjörinu farga.“
  • Fýkur yfir hæðir og frostkalda leið,
  • fannburðinn eykur um miðnæturskeið;
  • snjóskýjabólstrunum blásvörtu frá
  • beljandi vindur um hauður og lá
  • í dimmunni þunglega þýtur.
  • Svo, þegar dagur úr dökkvanum rís,
  • dauð er hún fundin á kolbláum ís;
  • snjóhvíta fannblæju lagði’ yfir lík
  • líknandi vetur – en miskunnarrík
  • sól móti sveininum lítur.
  • Því að hann lifir og brosir og býr
  • bjargandi móður í skjólinu hlýr,
  • reifaður klæðnaði brúðar – sem bjó
  • barninu værðir, og lágt undir snjó
  • fölnuð í frostinu sefur.
  • Neisti guðs líknsemdar ljómandi skær,
  • lífinu bestan er unaðinn fær,
  • móðurást blíðasta! börnunum háð,
  • blessi þig jafnan og efli þitt ráð
  • guð, sem að ávöxtinn gefur.

Ástarkveðja,

ljóðaunnandinn

p.s  hér hefur Inflúensan bankað upp á og hrellir Berglindi Evu og þ.a.l. heimilislífið, svo það verða kósíheit hjá okkur hér heima um helgina.

p.s.s. FYRSTU 15 FLÍSARNAR KOMNAR Á BAÐHERBERGIР LoL

p.s.s.s. Brjóttu fót Íris mín í hestakeppninni um helgina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband