Dýralíf, pestarlíf og líf eftir dauðann

Þar sem ég er ákaflega lítill sjónvarpsglápari missti ég af öllum fræðsluþáttunum um jörðina okkar eftir snillinginn David Attenborough sem sýndir voru á RÚV nýlega.  Hins vegar eignaðist ég þá á spólum og þeir eru rosalega magnaðir.  Hreint konfekt fyrir augað og fræðandi um heimshluta og dýralíf.  Ég hélt að sonur minn 3ja og hálfs myndi ekki hafa úthald til að horfa með okkur Rakel núna áðan en hann horfði bísperrtur á og kom með hin ýmsu skondnu komment meðan á myndinni stóð, hann er orðinn svoddan páfagaukur.  Mamma, þetta er algjör blekking.  Svo kom einhver karlkynsfugl að sperra sig og dansa fyrir kvenfugl og sá stutti sagði.  Hann er að vera fínn fyrir stelpufuglinn.  Alveg með þetta á hreinu og verður einhvern tímann góður.  Frábærir þættir.  

Berglind Eva er búin að vera í verstu flensu sem ég bara man eftir hjá börnunum mínum, 39-40 stiga hiti stanslaust í 5 sólarhringa.  Öll helgin fór í þetta, sem var slæmt fyrir hana en gott fyrir mig því ég er búin að taka til fullt sem legið hefur á hakanum vegna sumarbústaðar- og skíðaferða.  T.d. hafa margir einstæðu sokkarnir mínir hitt félaga sinn á ný, þvottakarfan komin með tóman maga og herbergi beggja yngri barnanna minna fengu tiltekt og andlitslyftingu.  Það var líka ágætt fyrst flensuófétið þurfti að koma að velja svona rólega helgi þar sem ekkert var um að vera Blush  p.s. Hún fór í fyrsta skipti í skólann í dag eftir tvo hitalausa daga í dag og hún er í þessum töluðu orðum sofandi frá því klukkan 5 og klukkan er orðin rúmlega 8.  Alveg búin á því stelpuskottið Shocking

Hann faðir minn átti afmæli í gær, 62ja og síungur.  Við kíktum til hans með pakka ég, Rakel og Berglind og hittum á ömmu mina og afa en við erum svo lánsöm að eiga þau að þrælspræk og hress. 

Í dag kveiki ég líka á kerti fyrir englafrænku mína sem hefði orðið 29 ára í dag.  Það vantaði brosmildan og glaðværan engil í englakórinn en hún er í hjartanu.

Ég var einu sinni spurð af manni hvort ég tryði á líf eftir dauðann?  Einhvern veginn hélt ég að hann væri efasemdarmaður og myndi vilja fá svarið nei og svo sannfæra mig um að þetta væri tóm vitleysa.  Þetta var fyrrnefndur afi en hann hefur sterkar skoðanir á hlutunum.  Þá sagðist hann vera búinn að fá sönnun á því að það væri til líf eftir dauðann.  Svo sagði hann mér þessa sögu:  Það var um aldamótin þarsíðustu kringum 1900 að móðurbróðir hans fer til Ameríku með skipi og er að sigla um heimsins höf.  Hann skráir sig á skip sem á að fara til Kína en þetta var á tímum gullæðis í henni Ameríku og félagi hans telur hann á að koma frekar með sér upp í fjöllin að freista gæfunnar.  Það gerir hann en láist að láta vita á Kínaskipið sem ferst í þessari ferð sem hann átti að vera í og hann er talinn af.  Þar af leiðandi eru öll bréf til hans send til baka til Íslands þar sem hann sé dáinn.  Þegar hann hins vegar kemur til baka úr gullleiðangrinum (fylgdi ekki sögunni hvort hann gaf gull í mund) og sér að engin bréf bíða hans telur hann að fjölskyldan hafi snúið við sér baki og hefur ekkert samband heim í mörg ár.  Svo gerist það að móðir hans deyr en kemur til langömmu minnar (systur hans) í draumi og segir:  ,,Þetta er svo skrítið, ég finn hvergi hann Karvel"   Þá var móðirin dáin og bjóst s.s. við að hitta son sinn fyrir í himnaríki/þar sem maður fer? en þar var hann hvergi að finna, enda hann ekki dáinn eins og allir héldu.  Það var svo löngu seinna að eiginkona hans fer að spyrja hann út í fjölskylduna á Íslandi og hvetur hann til að hafa samband að hann gerir það. 

Þar með var komin sönnunin hans afa fyrir því að það sé eitthvað sem tekur við eftir þessa jarðvist. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband