Svefnleysi og upprisa

Já það er nú þannig að hér tekur hver við af öðrum, Berglind Eva orðin frísk og ég að skána, þá byrjar sá stutti.  Hann er búinn að vera með mikinn hita og óráð.  Sá flugur og dýr í rúminu og öskraði af lífs og sálar kröftum.  Ég fékk svona ofskynjanir vegna hita þegar ég var barn og bæði Berglind Eva og Arnar Máni fá þær líka.  Berglind Eva sá alltaf köngulær en ég sá svífandi fiska og froskdýr enda í vatnsmerkinu.  Þannig að svefnlausu næturnar halda áfram.  Nú er ég farin að skilja þessa pyntingaraðferð sem viðgekkst víst hjá þeim í þriðja ríkinu að leyfa fólki ekki að sofa.  Ég er nefnilega orðin nokkuð langþreytt á ástandinu og í gær var ég sem rúin allri orku og krafti, svona nokkurs konar zombie.  Það bjargaði geðheilsunni að mín elskulega stóra systir mætti hérna til mín með kínverska veislu í gærkvöld og með Hrefnu sætu og Viðar Darra með sér.  Það kostar sem sé heljar fórnir að skipta svona algjörlega um umhverfi.  Við bara sækjum allar veirur og bakteríur sem í boði eru.  Fjórar fyrir eina á tilboði Sick 

Þannig að skíða-, sund- og útivistarferðirnar sem við ætluðum að stunda yfir páskana bíða betri tíma.

En meðan þetta eru bara flensur og hitapestir sem þó læknast á endanum hefur maður ekki efni á að kvarta.  Bara þrauka, flísaleggja (sem gengur vel by the way :) ), lesa góðar bækur, taka til, horfa á góðar myndir, knúsast og þakka fyrir það sem maður hefur.

Jæja, er ekki bara Pollýanna mætt á svæðið.

Við upplifðum annars kraftaverk hér á heimilinu í gær.  Gæludýrið okkar, litla svarta músin Hendrix sem Íris Fríða gat sannfært okkur um að bjarga frá slöngugini þegar hún vann í gæludýraverslun, gaf upp öndina, að því er ég taldi að minnsta kosti.  Hún lá algerlega hreyfingarlaus í langan tíma, brást ekki við þegar ég hellti mat í búrið hennar með heljarhávaða.  Þá reyndi ég að meta stöðuna með því að hrista búrið og lyfta til og frá og músin lét sér fátt um finnast.  Verð að viðurkenna heigulshátt minn í að taka á dýrinu til að meta stöðuna.  Þannig að ég hringdi í upphaflegan eiganda (Rakel Maríu) til að tilkynna henni dauðsfall gæludýrsins og hringdi jafnframt í aðstoðarmann til að hjálpa mér að fjarlægja og grafa líkið þar sem Rakel María var að vinna til 9 í gærkvöld.  Fór því næst inn í eldhús og náði í poppkassa sem átti að þjóna hlutverki líkkistu.  Settist að því loknu með veikum syni mínum að horfa á bílamyndina meðan beðið var eftir líkmanninum.  En þá gerðist það þegar gætt var að henni talsvert seinna að hún ákvað að hlutverki hennar í þessu lífi væri ekki lokið og ákvað að snúa til okkar á ný.  Það varð því aftur að hringja í eigandann og segja henni að hún ætti ennþá mús og líkmaðurinn var afpantaður.  Svo var einhver sem minnti mig á það að ef það væri ekki hlaupár þá hefði verið uppstigningadagur í gær svo þetta er líklega Messías músanna sem hefur farið dagavillt.  Vonandi fyllist ekki húsið af músum í pílagrímaferðum.

p.s. sonur minn vildi fá Hendrix með sér inn í stofu til að horfa á Tomma og Jenna og þeir sitja í þessum skrifuðu orðum og fylgjast með ævintýrum frænda hans á skjánum :) 

Lifið heil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband