Vorverkin

Prísaðir séu veðurguðirnir með þetta frábæra veður sem þeir sköffuðu okkur í bekkjarafmæli dóttur minnar í dag.   Skvísurnar tíu gátu að miklum hluta verið úti í garði og Sómi var aðalskemmtikrafturinn og hefur aldrei í sínu tveggja ára lífi fengið jafn viljugan hóp til að leika við.  Ég sagði við stelpurnar að maður þyrfti ekki að panta trúð eða töframann þegar maður ætti svona klikkaðan hund. Hann er algjör orkuuppspretta, væri örugglega hægt að virkja hann.  Þetta var mjög skemmtilegt.  Rannveig mágkona og Óðinn komu labbandi til okkar um hádegi og tóku svo Arnar með sér til að gefa okkur skvísunum frið.  Takk þið, það var frábært.  Litli kútur svaf fyrir utan.

Kári, Anna og Andri kíktu við í gær í kaffi en seinni partinn fórum við í reiðhöllina að sjá sýninguna Æskan og hesturinn þar sem Hrefna Guðrún frænka tók þátt í sýningaratriði á honum Blesa Bryndísarsyni.  Þau voru appelsínugul og flott, hún í bol og hann með slaufu  

En endalaus stífla, hæsi og hósti??  Er komin með málið í nefnd og búin að panta tíma hjá ofnæmislækni 22. apríl.  Held þó í vonina að sú sé ekki raunin en þykir grunsamleg hnerrahrinan sem ég tók um daginn þegar Sómi minn sæti birtist.  Hnerraði 7 sinnum.  Vil ekki hugsa þá hugsun til enda og vona að þetta eigi sér veirukenndar skýringar.

Svo er ungi maðurinn að fara í hjartatékk aftur í vor en hann er með einhver aukahljóð sem eru víst algeng og mér er sagt að séu að öllum líkindum skaðlaus. 

Æ hef eitthvað lítið að blogga um.  Er bara að njóta vorsins, vinna vorverkin og sinna krílum og hundi.

Vonandi kemur bloggandinn fljótt svífandi með eitthvað meira krassandi í farteskinu.

Góðar stundir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband