Hrakfallabálkarnir

mínir tveir eru búnir að lenda á slysadeild sitt hvoru megin við helgina.  Berglind Eva var á slysadeildinni á föstudag eftir trampolínslys, en hún er tognuð á hendinni og það var hringt í mig af leikskólanum í dag um tvö leytið vegna þess að Arnar Máni hafði dottið illa í rennibrautinni og var alblóðugur með stórt skarð í vörinni.  Hann var deyfður þessi elska og saumaður ein 7 spor.  Þessi deyfing var nokkurs konar kæruleysissprauta líka svo hann lá þarna flissandi yfir öllu saman og var ótrúlega duglegur, þær höfðu orð á því hjúkkurnar.  Svo var hann lengi á eftir eins og tuskubrúða, hélt varla höfði og stóð ekki í lappirnar út af deyfingunni og talaði tóma steypu, ja bara eiginlega eins og argasta fyllibytta.  Allan tímann var hann samt að reyna að brasa við að koma sér af stað svo ég var látin bíða með hann inn á barnaherbergi í um klukkutíma eftir saumaskapinn og var bara eins og spennitreyja á hann ræfilstuskuna.  Svo er hann allur bólginn og aumur.

Í þessu tilfelli segi ég nú bara:  eins gott að það sé ekki allt er þegar þrennt er, þetta er komið nóg. 

Rakel María lenti líka í svona leikskólaslysi eiginlega á sama aldri, nema það losnuðu í henni báðar framtennurnar og þurfti að rífa þær úr svo hún var með sætt tannlaust bros frá 4-6 ára.  Núna fyrir örfáum árum sagði hún mér ástæðuna fyrir því að hún datt á leikfangakofann og ég hef hlegið mikið að því því ég sé þetta svo fyrir mér.  Það var víst þannig að allir krakkarnir á leikskólanum fóru í heljar kapphlaup þegar þau fóru út til að ná einu stóru gulu skóflunni.  Hún gaf í og var fyrst en með þessum hörmulegu afleiðingum að hún var tannlaus lengi á eftir en hún mann enn hvað hún var spæld að horfa á strákinn sem var á eftir henni grípa skófluna.  Tennur hvað??

2693093141_d45681990a

 

 

 

 

 

 Einhvern tíma á ég eftir að færa henni fallega stóra gula skóflu með borða Tounge

Annars bara buðu Ísak og Rannveig mér í geggjaðan mexíkóskan mat um helgina en þau pössuðu Arnar meðan ég var að vinna.  Svakalega er svona matur góður MMMMMMmmmmm.  Svo aldrei slíku vant kíktum við fjórar skvísur út á lífið og erum svo út úr kú hvaða staðir eru vinsælir svo við vorum með ellismellum bæjarins á Vínbarnum og á Thorvaldsen.  Ætli maður sé kannski sjálfur orðinn ellismellur án þess að það komi til greina að viðurkenna það?  Glætan.

Heiðan mín Árnadóttir söngkonan og frænka mín sem um var getið í þarseinustu færslu kom í heimsókn til mín í kvöld með eintak af diskinum sínum Ró sem ég fjárfesti í.  Þetta er klassísk tónlist og bara mjög áheyrileg.   

Hún hefur þann frábæra persónulega eiginleika að vera alltaf að hrósa fólki (eins og Ásta mamman hennar).  Yndislegt svona fólk sem gefur frá sér svo mikla hlýju og jákvæðni.  Rakel María sagði eftir heimsóknina.  Ég hef aldrei heyrt neinn segja jafn oft á stuttum tíma hvað ég sé sæt.  Stórt knús á Heiðuna mína en við erum bræðradætur og feður okkar keyptu íbúð í sömu blokk þegar við vorum litlar, byggðu saman raðhús og bjuggu hlið við hlið í mörg ár og enduðu í sömu götu í Akraselinu í einbýlishúsi, svo við Heiða vorum aldrei mjög langt frá hver annarri í æsku Smile

Yfir og inn - að sofa.  Nóg komið af rituðu masi ZZZZZZZZZZZZZZ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ææ, meiri hrakfallabálkarnir systkinin, greinilega eitthvað skyld stóru frænku sinni..... hmmmm.

Dísa systir (IP-tala skráð) 9.9.2008 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband